Bloggfærslur mánaðarins, september 2012

Skemmtileg tilviljun

Varla hafði ég sett inn færslu um útvarp þegar annar dyggur útvarpshlustandi á heimilinu datt niður í dagskrá sem oft er gaman að hlusta á, Þemakvöld útvarpsins. Og þar mátti í gærkvöldi heyra eldgamlan útvarpsþátt sem ég gerði, raunar þann fyrsta í fullri lengd, en hann hét Snjórinn og skáldin. Þökk sé nýrri tækni gat ég hlustað á þetta brot úr fortíðinni, frá því ég var 26 ára og gekk með annað barn okkar hjónanna. Það leynist margt í útvarpsdagskránni og hér er þemakvöldið í heild, en þar er margt annað gott að finna sem minnir á veturinn en þennan þátt minn og þeir sem deila minni skoðun um að útvarpið sé skemmtilegasti miðillinn geta smellt á tengilinn hér að neðan eða stokkið beint í minn þátt sem byrjar á mínútu 105 (þetta seinasta er komið inn vegna ábendingar um að þemakvöldið sé nokkuð langt, en eins og segir í yfirskriftinni: Ekkert liggur á):

http://www.ruv.is/sarpurinn/ekkert-liggur-a-themakvold-utvarpsins/22092012-0

Þessi upprifjun gæti hrint af stað nýrri umfjöllun um talmálsþætti í útvarpi, sem eru það efni sem mest er lagt í og oft gaman að hlusta á, ef maður gefur sér tíma. En eðli málsins samkvæmt gefst oftar tóm til að hlusta á tónlist í erli dagsins.


Útvörp

Mér hefur alltaf fundist útvarp skemmtilegasti miðillinn og finnst enn. Það er ekki bara vegna þess að þegar ég var lítil var lítið um sjónvarp. Eina efnið í Kanasjónvarpinu sem ég hafði gaman af og laumaðist til að horfa á hjá ömmu (og síðar hjá Dúkku á neðstu hæðinni), var kosningabarátta Nixons og Kennedys haustið 1959 og þegar Bítlarnir komu fram í þætti Ed Sullivan nokkrum árum síðar. Þegar íslenska sjónvarpið byrjaði þá leist mér svo sannarlega ekki á dagskrána, en á dagskrá fyrstu kvöldin (miðvikudag og föstudag) var meðal annars, auk ávarps útvarpsstjóra í guðs friði, bæði Dýrlingurinn og Steinaldarmennirnir. Mér fannst einum of að fá bæði eitthvað kaþólskt dýrlingarugl og fræðsluþátt um fornaldarsögu í einum pakka og dagskráin ekki lofa góðu. Síðar komst ég að því að Dýrlingurinn var spennuþáttur með Roger Moore, sem seinna varð ,,skemmtilegi“ Bond-inn. Steinaldarmennirnir Fred Flintstone, fjölskylda og vinir voru líka aðeins annað en ég hafði haldið. Þá fór ég að venja komur mínar enn frekar en áður til Hönnu frænku minnar.

Leikrit, framhaldssögur og tónlist til forna

Útvarpið hélt áfram að heilla. Nýlega endurvakti RUV spennuna kringum leikritið ,,Hulin augu“ en ég spilaði sjóræningjaútgáfu af þeim þætti fyrir börnin mín og vini þeirra í sumarbústað í Húsafelli þegar þau voru kringum tíu ára aldurinn og þau fengu sama hrollinn og ég hafði fengið á svipuðum aldri þegar þetta vinsæla framhaldsleikrit var frumflutt. Ég man líka svolítið óljósar eftir leikritum og framhaldssögum á borð við ,,Milljón mílur heim“ (Space Oddity þeirra tíma), Andrómedu og Seið Satúrnusar. Svo reyndi á heilasellurnar þegar ég datt í Ibsen, Afturgöngur og Þjóðníðing. Toppurinn var samt Biedermann og brennuvargarnir eftir Max Frisch. Svo fór ég að hlusta á ,,Lög unga fólksins“ og ný vídd opnaðist, tónlist í útvarpi, þar sem ég hafði haft takmarkaðan áhuga og þroska til að hlusta á sinfóníugaulið milli kl. 15 og 16 á daginn og enn fæ ég hroll þegar Al Caiola (Kajóla) og Edmundo Ros(s) eru spilaðir, sem er reyndar fátítt. Enn ömurlegra fannst mér þegar stillt var á ,,Kanann“ og eilíf kántrýtónlist hljómaði í bland við Jim Reeves, sem mér fannst að hlyti að hafa dáið gagngert til að kvelja mig með ódauðlegu lögunum sínum (sem betur fer heyrast þau æ sjaldnar). Radio Luxembourg og Radio Caroline, sjónræningjastöðvarnar sem komu, sáu, sigruðu og hættu, voru mun meira spennandi.

Fleiri stöðvar, minni fjölbreytni

Seinna fór ég að vinna við útvarpsþáttagerð og hef aldrei alveg hætt því. Aðallega í Ríkisútvarpinu, sem enn var bara eitt þegar ég byrjaði. Skemmtilegasta fjölmiðlun sem hægt er að taka þátt í, en ekki hægt að gera það nema takmarkað í hérumbil sjálfboðavinnu. Eftir dagskrárgerðarnámskeið sem haldin voru 1977 og 1978 var reyndar stofnað Félag lausráðinna dagskrárgerðarmanna, með núverandi forseta Alþingis og fleira gott fólk framarlega í flokki. En flest misstum við verkefnin þegar félagið fór að láta að sér kveða í kjarabaráttu, einhverjum fimm árum eftir að námskeiðin góðu voru haldin. Svo kom verkfall/verkbann sem skrúfaði fyrir útvarpið. Íslenskar sjóræningjastöðvar voru stofnaðar og í kjölfarið var allt í einu allt fullt af útvarpi. Fjölbreytnin jókst ekki, þvert á móti, ,,playlistar“ héldu innreið sína og sumir fylgja þeim enn.

Batnandi útvarpi er best að lifa

Nú er komið á ákveðið jafnvægi, að vísu ekki lengur bundið við útvarpið eitt. Alls konar valkostir, svosem hlaðvarpið, YouTube og tonlist.is allra þjóða, hafa aukið úrval góðs útvarpsefnis og tónlistar. Tónlistarstöðvar eru ögn fjölbreyttari en fyrr. Umburðarlyndi mitt í tónlistarmálum hefur líka vaxið, en óþol fyrir ýmsu öðru að sama skapi einnig. Hef gert þarfagreiningu sem ég styðst við við útvarpshlustun:

  1. Hlusta ekki á útvarpsstöðvar/-þætti þar sem ég á á hættu að verða fyrir barðinu á innhringingum hlustenda. Ömurlegra útvarpsefni get ég varla hugsað mér. Nógu lítið gefin fyrir síma þótt ég lendi ekki líka í að hlusta á (oftast leiðinleg) símtöl í útvarpi. Eins og allar góðar reglur á þessi undantekningar. Ég hlusta á næturútvarp um helgar þegar Guðni Már Henningsson spilar tónlist á Rás 2, þangað til einhver hringir inn. Þá er tími til kominn að slökkva. Endrum og sinnum eru innhringingar í síðdegisútvörpum og þá skipti ég með hrolli og meira að segja X-ið hleypir símtölum að í sumum þáttum, vont mál. Sumum finnst gaman að hlusta á símtöl og til eru útvarpsstöðvar sem gera út á þá þörf.
  2. Elti góðar tónlistarstöðvar af talsverðum ákafa til að hafa alltaf góð ,,lög við vinnuna“. X-ið á vinninginn þessa dagana og misserin, einkum Ómar á morgnana. Brilljant lagaval, meira nýtt en gamalt, en meira af eðaltónlist þarna en víðast annars staðar. Mjög sjaldan að síminn er tekinn upp á X-inu á þeim tímum dags sem ég hlusta mest. Stundum er ég í skapi fyrir Gullbylgjuna, en þar á ég á hættu að heyra í Gilbert O‘Sullivan og það rústar því dæmi. Mikið rosalega er maðurinn leiðinlegur.
  3. Stundum heyri ég dagskrárkynningar kringum áhugavert efni og skelli áminningu í dagbókina og reyni að haga vinnunni þannig að mögulegt sé að hlusta á bitastætt efni á meðan ég vinn einhver nauðsynleg en rútínukennd störf. Cohen þættir á Rás 1, klassísk tónlist og áhugaverð nútímatónlist, smá djass í bland við ýmislegt annað kemst þarna inn í tilveruna. Vantar reyndar góðan blúsþátt. Svo kemur Tríó stundum sterkt inn og þættir um fólk sem hefur verið búsett erlendis, hvort tveggja á vegum Magnúsar Einarssonar ef ég man rétt.
  4. Hef ákveðna rútínu á virkum dögum, á morgnana þegar ég vakna, þegar ég er orðin þreytt undir hádegið en þó fyrst og fremst á leiðinni í og úr vinnu (sem er 15-60 mínútna akstur eftir akstursskilyrðum og umferðarþunga, en þó fyrst og fremst eftir snattálagi (allt upp í 4 viðkomustaðir á heimleið og stundum gríp ég farþega með á leiðinni heim)). Á morgnana þegar ég er að koma mér í gang hlusta ég á KK og þar sem ég ek yfirleitt í vinnuna á milli kl. 9 og hálf 10 tékka ég oft á viðtölum á Rás 1 áður en ég stilli á X-ið. Inn á milli koma áhugaverð viðtöl, en X-ið á nú samt vinninginn. Á heimleið úr vinnunni næ ég rest af síðdegisútvarpi á Rás 2 og Bylgjunni og ef um snattdag er að ræða þá einum til þrennum fréttum. Undir hádegi er Samfélagið í nærmynd, þar er gaman að hlusta á fréttir frá Noregi og hvað fólk er að lesa.
Á meðan ég pikkaði þessa hugleiðingu (í allmörgum áföngum) inn hlustaði ég meðal annars á Creep með Radiohead, White Stripes, tvö lög með Mumford and sons, eitt með Of Monsters and Men, annað með Metallica og Paint it Black með Rolling Stones, allt á X-inu. Ef mig bráðvantar að eignast lagið sem ég er að hlusta á þá get ég skoðað í tölvunni hvað lagið hét og hver flytur og sótt það á tonlist.is.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband