Bloggfærslur mánaðarins, október 2010

Hlakka til að kjósa til Stjórnalagaþings - en hvað svo?

Verð að viðurkenna að ég hlakka alveg sérlega mikið til að kjósa til Stjórnlagaþings. Búin að finna býsna margt fólk sem ég vil ólm kjósa og vissulega einnig örfáa sem ég vona heitt og innilega að nái ekki kjöri. En þetta er lýðræði og við erum ekki komin lengra en á það stig og nýtum það því vonandi vel. Síðan mun þetta fólk koma saman í alla vega tvo mánuði og ég er mjög spennt að heyra niðurstöðuna og ekki síður að sjá hvernig farið verður með þessa niðurstöðu. Hef setið í einni af fjölmörgum stjórnarskrárnefndum lýðveldisins og það gekk hvorki né rak þar. Ekki þar með sagt að allt sé ómögulegt í núverandi stjórnarskrá, en ég á mér þá ósk heitasta að það verði til stórkostleg stjórnarskrá fyrir sjálfstætt og framsækið (og þá á ég ekki við í sömu merkingu og útrásarpakkið notaði það orð) Ísland, þar sem mannréttindi, mannsæmandi lífskjör og sjálfsákvörðunarréttur fólks verður tryggður. Nú, eins og ávallt, er veður til að skapa.

Ef minn óskalisti nær kjöri kvíði ég engu og ég er viss um að margir fleiri hæfir fulltrúar, sem aðrir þekkja deili á og skoðunum þeirra, eru í framboði. Tvennt veldur áhyggjum, það er frítt að hafa áhyggjur segir góður maður sem ég þekki og rétt meðan það verður ekki sálfræðinga- eða lyfjadæmi. Ég hef áhyggjur af því að leyft er að auglýsa fyrir allt að 2 milljónir, því fólkið sem ég þekki réttsýnast hefur flest hvert ekki slíka peninga á milli handanna. Ég hef líka áhyggjur af því að þetta endi sem sýndarspil, ekki vegna þess að ég treysti ekki VG heldur koma fleiri flokkar að afgreiðslu þessara mála og þeim er mis-umhugað um réttsýnar breytingar. Varðandi fyrra atriðið þekki ég reyndar fullt af fólki sem ætlar EKKI að kjósa neinn þann fulltrúa sem eyðir peningum í auglýsingar, prinsippatriði. Íhugunarvert!


Stjórnlagaþing, pólitík, Sprengisandur, Smugan og Svipan

Þjóðmálaumræðan er of spennandi til að hægt sé að slíta sig frá henni. Oft hef ég verið komin á fremsta hlunn með að skrifa status á Facebook, nafn á bloggi eða færsluna: Hætt í pólitík og farin að spila golf! En það er hægt að gera hvort tveggja og auk þess er golfkunnáttan rýr. Hins vegar þarf oft að forgangsraða ansi hressilega til þess að geta sinnt öllu, vinnunni (9:30-17:30), heilsunni (golfinu og skvassinu) og fjölskyldunni sinni (sem ekki er hægt að afgreiðan innan sviga).

Ef ofan á þetta bætist pólitískur áhugi, sem útilokað er annað en sækja sér stuttar og hnitmiðaðar upplýsingar og velja þær vel. Eins og ég er nú hrifin af RUV þá er engu að síður þáttur á annarri stöð sem ber af því sem þar er að finna, það er Sprengisandur á sunnudagsmorgnum. Þegar líður á sunnudagsmorgun og ég farin að rumska fálma ég eftir tökkum á útvarpi og renni yfir á þann þátt. Vissulega verð ég stundum öskureið þegar ég heyri fólk vera með gáfulegt bull, því það heyrist þar sem annars staðar, en Sigurjóni er það lagið að fá til sín einkar spennandi fólk í umræðuna.

Smugan er vefmiðill sem ég nýti mér oft og finnst sérlega gott að lesa suma af föstu pennunum þar, ritstýruna Þóru Kristínu, Einar Ólafs, þann góða mann og Ármann Jakobsson, sem virðist sjá fleti á málum sem öðrum tekst ekki og er ég þá eflaust að gleyma einhverju uppáhaldinu mínu.

Þá er það Svipan. Eftir að hafa leitað að almennilegri umfjöllun um þá sem bjóða sig fram til stjórnlagaþings sá ég að Svipufólk er að gera fantagóða hluti í umfjöllun sinni um þingið og frambjóðendurna, betra en aðrir sem ég hef fundið. Í kommentakerfinu er þegar búið að afhjúpa tengsl sem ekki voru gefin upp. Yljaði gamla anarkistahjartanu mínu því ég hef trú á ,,fólkinu" og opinni umræðu. Margt gott á þessum vefmiðli.


Taka höndum saman strax

Áherslurnar í stjórnmálum eru um stundarsakir að breytast og raunveruleg viðfangsefni mögulega að hafa forgang, ekki allt of tímafrekt kjaftæði um það sem bara veldur ágreiningi, svo sem ESB og valdabaráttu einstaklinga. Ég er auðvitað skíthrædd um að annað en umhyggja fyrir heimilum ráði för einhverra, svo sem þörf og vilji til að koma höggi á ríkisstjórnina. Núna er hreinlega ekki hægt að sóa tíma í neina vitleysu, allir þurfa að taka höndum saman ef ekki á að verða uppreisn réttlátrar reiði þeirra sem hafa farið illa út úr kreppunni. Vonandi eru teikn á lofti um að alvöru umræða sé í gangi meðal allra sem koma þurfa að um raunverulegar aðgerðir sem gagnast sem allra flestum.


Mótmælt af mörgum ástæðum

Í upphafi mótmælanna haustið 2008 fann ég fyrir því hvað það var margt og margvíslegt sem fólk var á mótmæla. http://www.annabjo.blog.is/blog/annabjo/entry/712917/

Sama er upp á teningnum núna, samt held ég að tvennt sem aðallega veldur mótmælunum nú. Annars vegar hin hræðilega staða sem mörg heimili eru í og krafa um miklu meiri úrbætur en gerðar hafa verið, hins vegar að spillingaröflin séu enn á fullu í öllum kimum samfélagsins. Réttlætiskenndinni er misboðið.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband