Bloggfærslur mánaðarins, mars 2007

Smá upprifjun frá Herferð gegn hungri

Ætli ég hafi ekki verið 13-14 ára þegar ég hljóp á milli bæja hér á Álftanesi og safnaði fyrir Herferð gegn hungri. Þá voru það börnin í Biafra sem við vorum að reyna að bjarga og síðan höfum við séð margar tilraunir hér á Vesturlöndum (Live Aid, Live 8 o.fl.) til að bjarga hungrinu í heiminum, lært margar lexíur, grátið mörgum söltum tárum og horfið svo aftur til leikja og starfa eins og gengur. Sumir hafa gerst þátttakendur í að reyna að hjálpa, sem einstaklingar í hjálparstarfi, og ég hef alltaf verið svolítið hugsandi eftir að hafa í tvígang tekið viðtal við Sigríði Guðmundsdóttur, eina okkar allra öflugust manneskju í hjálparstarfi fyrr og síðar. Fyrst fyrir blað sem gefið var út fyrir Hjálparstofnun kirkjunnar og síðan fyrir bók sem hét Lífsreynsla, en sú frásögn hét ,,Ekki varð öllum bjargað". 

Þar sem ég er nú allt í einu farin að horfa á sjónvarp, þá datt ég inn í kvikmynd (Beyond Borders) sem byrjaði (með svona smá útúrdúr) í hjálparstarfi í Afríku og enn og aftur fékk maður þessa magnleysistilfinningu að ekki yrði öllum bjargað. En það var bara hollt að rifja upp þessa tilfinningu frá unglingsárunum í skugga Biafra stríðsins, fyrst var maður að reyna að safna peningum, svo að gera einhverjar áróðursmyndir (teikningar - man ekki hver stóð fyrir því átaki) og svo fjaraði þetta einhvern veginn út. Aftur vaknaði aftur með hverri aðgerð. Raunsætt séð veit ég ósköp vel að engin töfralausn er til, en það merkir ekki að maður eigi að gleyma þessum málum, af því þau eru erfið eða vonlítil. Sagt er að gleymskan sé það versta, gleymd stríð, gleymt neyðarástand. Held að þessi kvikmynd hafi verið gerð af góðum hug, þótt hún sé svolítið væmin á köflum.

Þegar við vorum að safna fyrir Herferð gegn hungri á sínum tíma sagði ráðskonan á Bessastöðum í gríni: Fransbrauð eða rúgbrauð? Ég varð hálf vandræðaleg yfir því að fara að hlæja, fyrir 13 ára stelpu var þetta auðvitað allt of mikið alvörumál til að grínast svona með það. Fyrsta kast af vondu samvisku Vesturlandanna og greinilega ekki vaxin upp úr því enn.


Baugsrappið

Er Spaugstofan ekki endurtekin? Sé hana greinilega allt of sjaldan, sá samt söngleik um íslenska samfélagið einhvern tíma fyrr á árinu, sem var alveg frábær og svo er þátturinn sem núna stendur yfir ekkert smá fyndinn. Þannig að ef þið hafið ekkert skárra að gera þegar þátturinn verður endurtekinn (ef hann verður endurtekinn) þá er vel þess virði að sjá smá Baugsrapp með meiru. Hef alltaf haft frekar blendnar tilfinningar gagnvart sjónvarpi, meira gefin fyrir útvarp af því það gerir mann ekki eins verklausan, en stend mig að því að finna sífellt fleira skemmtilegt að horfa, fyrir utan 24 og fræðsluþætti um flugvélasmíði, sem eru alltaf sígildir ;-) á Discovery. Þetta seinasta er fjölskyldubrandari sem ég ætlast ekki til að utanaðkomandi skilji, en þið sem eruð með Discovery, takið eftir hvað þörfum áhugafólks um flugvélasmíði er vel sinnt Sideways

Óskhyggja eða verður af því núna?

Mér finnst ég hafa heyrt þetta áður. Rétt fyrir kosningar er kominn pirringur og yfirlýsingar. Þetta þykir víst pólitískt klókt, hef aldrei verið neitt óskaplega trúuð á þessa pólitískt klóku leiki. Þegar upp er staðið eru það raunveruleg stefnumál og heiðarleiki sem gilda, en líklega deila ekki margir þessari skoðun með mér. 

Fyrst þegar ég heyrði orðróm um mögulegt stjórnarslit á einhverri bloggsíðu blaðamanns, þá fannst mér hann leiða allgóð rök fyrir því að núna gæti möguleikinn verið raunverulegur. Það er löngu kominn tími á uppstokkun og línurnar í stjórnmálum gerólíkar því sem gerðist fyrir fjórum árum þegar fulltrúar okkar voru kjörnir. En eftir því sem æsingurinn verður meiri og yfirlýsingarnar stangast meira á, þá er ég hrædd um að þetta séu bara fastir liðir eins og venjulega og ég er ekkert svo vongóð um að kosningum verði flýtt. Óskhyggjan segir mér að við eigum að kjósa strax, en spá mín er sú að við þurfum að bíða eftir settum kjördegi. 


mbl.is Núningur og kurr
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að senda Alan heim úr X-factor - fáránlegt!

Horfi á X-factor eftir því sem ég kemst yfir, enda finnst mér enn meira hæfileikafólk þar en lengst af í fyrirrennurum þessa þáttar. Einn hæfileikaríkasti söngvarinn þar er Alan og nú er verið að senda hann heim, mér finnst það fáránlegt! Hann er að mínu mati meðal þriggja bestu atriðanna í þessum þætti og það að hann skuli hafa lent í botnsæti núna er út af fyrir sig mjög vont. Oft er ég sammála Ellý (auk þess sem hún var hæfileikabolti í Q4U á sínum tíma) en í þessum þætti er ég ósammála ákvörðun hennar. Hún er greinilega að vísa til einhverra annarra þátta en í kvöld, því á forsendum frammistöðunnar í kvöld var hann mun betri en Hara.


Nú er bara að koma Íslandi á toppinn líka

Það eru nokkrir góðir möguleikar til að koma Íslandi hærra á listann þar sem mesti jöfnuður ríkir. Forval VG hér á höfuðborgarsvæðinu var glæsilegur sigur kvenna og í öðrum kjördæmum er hlutur þeirra til fyrirmyndar. Svo eru þetta bara svo æðislegar konur, allar saman. Netverjar hér á Moggablogginu þekkja Guðfríði Lilju og fleiri í forystu VG af skrifum þeirra hér og þar sem aldrei komið að tómum kofanum. Það er ekki spurning að með því að kjósa VG er hægt að gera mikið til að rétta hlut kvenna og láta feminískar raddir heyrast á alþingi, því það er ekki minna um vert.


mbl.is Flestar þingkonur í Rúanda, Svíþjóð og Kosta Ríka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stolt, Vinstri græn og netverji

Ég ætlaði ekki að blanda mér í umræðuna um Steingrím J. og ummæli hans um klám á netinu og netlögguna. Hann er fullfær um að skýra sitt mál og hefur gert það með sóma. Tek fram að ég er feministi og anarkisti sem uni mér vel innan VG og ekki hrifin af lögregluríki, enda hefur VG aldrei varið lögregluríki, innan flokksins eru þar að auki fullt af fólki sem hefur orðið fyrir barðinu á þeim vísi af lögregluríki sem hefur nýlega verið afhjúpaður af góðum sagnfræðingum.

En mér hefur alltaf fundist of mikil viðkvæmni í okkur netverjum gagnvart leit fólks að úrræðum gegn glæpum sem framdir eru með aðstoð netsins. Það er ábyggilega flestra skilningur að það sé ógeðslegur glæpur að nota netið til að lokka börn á fund barnaníðinga eða dreifa og stundum auðgast á því að misnota aðra, í sumum tilvikum að misþyrma börnum grimmilega og jafnvel drepa. Þótt netið sé ekki eini miðillinn sem notaður er til slíkra glæpa, þá firrir það okkur, sem unna því, ekki ábyrð á því að grípa í taumana.

Það eru einmitt frábær dæmi til um að fólk geri slíkt. Kannski eru allir búnir að gleyma sláandi dæmi fyrir allmörgum árum, meðan IRK-ið var upp á sitt besta þegar ungt par á Akureyri kom upp um barnaníðing, einmitt með IRK-ið að vopni. Ég var svo lánsöm að fá tækifæri til að taka viðtal við þau (auðvitað á IRK-inu) og flytja frásögn þeirra sem kveðju frá þeim á ráðstefnuröð gegn kynferðisofbeldi sem haldin var í Háskólabíó. Netið er nefnilega eitt besta tækið sem við höfum til að hafa upp á slíkum glæpamönnum og best er að það sé gert á forsendum okkar, sem viljum ekki skerða frelsið á netinu. Mér finnst þetta einstaklingsframtak að mörgu leyti einn merkilegra en glæsilegt frumkvæði fjölmiðla um daginn, einmitt vegna þess að það spratt upp úr grasrótinni, frá fólki sem var í fremstu röð í umræðu á netinu en jafnfram var nóg boðið.

Það eru önnur öfl, miklu hættulegri en andstæðingar kláms og barnaníðinga, sem ógna netinu. Við höfum nú þegar mjög hættulega aðila sem vilja svo gjarnan stöðva frjálsa umræðu um samfélagið og stjórnmál. Það eru nú þegar stundaðar njósnir um saklausa borgara á vegum fjársterkra, öfgafullra aðila beggja vegna hafsins hvort sem við erum að tala um CIA og enn leynilegri stofnanir eða Kína og önnur ritskoðunarstjórnvöld (og hér með, með því að nefna CIA, er ég komin í sjálfvirkan fæl yfir hættulegt fólk hjá CIA).

Ef við verjum glæpamenn á netinu þá eykur það möguleika öfgafullra aðila til að verja gerðir sínar, rétt eins og atburðirnir 11. september voru vatn á myllu öfgafullra eftirlitsaðila í Bandaríkjunum. Ekki sætta okkur við að netið sé griðastaður fyrir glæpi, ekki myndum við lána barnaníðinginn kjallarana okkar til að fremja sína glæpi. Netið er raunar alveg frábær vettvangur fyrir alla sem eru á móti ógeði að gefa skýr skilaboð.

Varð bara að koma þessu frá mér, sakna þess að hafa ekki getað lesið of mikið af efni um þetta mál, enda hefur sumt af því sem ég hef séð valdið mér nokkrum vonbrigðum. Það er ekkert vandamál, jafn ánægð yfir frelsi þeirra til að tjá þær skoðanir sem ég er ósammála og frelsi mínu til að segja nákvæmlega þetta sem ég hér með hef komið frá mér

Arlo Guthrie sagði eitt sinn í yndislegum söng sínum frá seinasta manni í heimi sem hringdi símtal og sagðist ætla að hleypa öllu í bál og brand, og viti menn, hann var ekki lengur síðasti maður í heimi, CIA var mætt! Höfum áhyggjur af réttum aðilum, andstæðingar kláms og ofbeldis eru besta fólk, trúið mér!

 

 


Hlerana fyrir gluggana og enginn út?

Mér finnst alltaf gaman að lesa fréttir um veður, enda veðurfíkill eins og flestir Íslendingar. Samt ekki alveg viss um hvað fréttin um sterku vindstrengina norðvestur af landinu merkir fyrir okkur, er verið að segja okkur að halda okkur inni og setja hlera fyrir gluggana eða er þetta bara smá fróðleikur? Aldrei of mikið af honum reyndar ;-)
mbl.is Vindstrengir sterkari en úreikningar höfðu gefið til kynna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband