Alvöru lausnir og hókus-pókus lausnir

Í þessari efnahagskreppu sem dynur nú yfir hafa margir orðið fyrir áföllum og enn fleiri kvíða því sem fram-undan er. Það er eðlilegt. En það eru til lausnir. Bæði alvörulausnir og ónothæfar hókus-pókus lausnir.

Fyrst eftir hrunið dundu á okkur alls konar hókus-pókus lausnir. Sú vitlausasta allra var að þetta myndi líða hjá, að markaðurinn myndi jafna sig. Að þetta yrði betra á morgun því markaðurinn sæi um sína. Við vitum öll hvers konar della það var.

Í kjölfarið komu draumar um einfaldar lausnir. Helst einhverja eina aðgerð, sem myndi bjarga öllu. Við vitum auðvitað öll innst inni að þannig lausnir eru ekki til. Þess vegna er svo furðulegt að einhverjir skuli enn trúa á slíkar lausnir. Vík aðeins nánar að því á eftir. En fyrst langar mig að tala um alvöru lausnir.

Það sem þarf að gera til þess að koma samfélaginu á réttan kjöl er í raun einfalt:

  • Spara útgjöld
  • Auka tekjur
  • og gæta þess að enginn þurfi að líða skort

Við erum rík þjóð þrátt fyrir að útrásarvíkingarnar hafi skuldsett okkur í topp og kannski langt umfram það. Þess vegna eigum við ekki að þola það að nokkur í landinu líði skort, eigi ekki fyrir mat og hafi ekki öruggt húsaskjól eða peninga fyrir orkureikningunum.

Það er hægt að spara útgjöld á ýmsa vegu. Því miður þekkjum við mörg dæmi um heimskulegan sparnað. Eins og til dæmis að halda að það sé hægt að ná fram sparnaði með flötum niðurskurði. Þá er þeim refsað mest sem áður hafa sparað. Í sumum málaflokkum er ekki hægt að spara í öðrum er hreinlega hættulegt að spara. En góðu fréttirnar eru að víða hefur verið bruðlað. Þar á að spara. Það er líka skynsamlegt að spyrja þá sem þekkja til. Þrátt fyrir hrikalegan niðurskurð í heilbrigðiskerfinu er hver einasti heilbrigðisstarfsmaður sem ég þekki tilbúinn að benda á einhverjar leiðir til sparnaðar. En þeir hafa bara ekki verið spurðir - eða alla vega ekki á réttum tíma eða af réttum aðilum. Því ég heyri sömu hugmyndirnar ár eftir ár. Flest er þetta smátt og eflaust fyrirhafnarmikið að hrinda því öllu í framkvæmd. En margt smátt gerir eitt stórt.

Sömu sögu má segja í nánast öllum greinum.

Enn meiri sparnaði má ná fram með því að spara óþörf útgjöld svo sem heræfingar annarra þjóða á okkar landi, í okkar lofthelgi og landhelgi. Ég tek líka heils hugar undir með þeim sem vilja leggja niður Varnarmálastofnun og ef til vill mun sú hugmynd njóta náðar þar sem þá myndi sparast talsvert mikill peningur á einu bretti.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd:

Ég er bara alveg sammála þér

, 5.3.2009 kl. 16:38

2 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Það finnst mér notalegt að heyra, mér er þetta allt saman svo mikið hjartans mál.

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 5.3.2009 kl. 18:29

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband