Mér finnst andrúmsloftið í bænum í dag skrýtið. Var frekar að hugsa um að vinna upp smá vinnutap að undanförnu, enn fullt eftir að deginum til þess að gera það. Sem sagt að sleppa mótmælunum. En það var eiginlega ekki hægt. Svo ég mætti nú um síðir og sé reyndar alls ekki eftir því. Þó ekki væri nema vegna þess að þá veit ég af eigin raun að talning lögreglunnar á mótmælendum: Rúmlega þúsund, er argasta bull og vitleysa og ég veit ekki hvaða tilgangi það þjónar að bera svona dellu á borð. Ekki nema þetta rúmlega sé svona þúsund og tvö-þrjú þúsund ... við sem vorum þarna vitum alla vega betur.
Enn sem fyrr mótmælir fólk á margs konar forsendum og tekur undir með ræðumönnum á mismunandi stöðum. Hörður boðar hertar aðgerðir, ekki veit ég hvað mun felast í þeim, mun bara fylgjast með á færi og taka þátt í því sem samviska mín heimtar. Eins og að trítla á Austurvöll að undanförnu.
Viðbrögð margra við styrkingu krónunnar eru ákveðin vonbrigði. Við vitum það ósköp vel að hluti skýringarinnar er sá að komið hefur verið á höftum og hömlum, tímabundið, að því er sagt er, hve stór hluti skýringarinnar veit enginn. Kerfi sem vissulega á eftir að sníða ýmsa vankanta af, og ég held að það muni verða gert. Enginn af öllum þeim spekingum sem þenja sig núna hafði þó spáð þessum stóra uppkipp. Þar sem margar breytur spila saman getur ýmislegt gerst. Ég held að kapp sumra við að kasta krónunni (fyrir sumar er það liður í að koma okkur í ESB hvað sem það kostar) vegi þyngra en ánægja yfir því að þeir sem hrun krónunnar hefur bitnað sárast á eygi nú von. Enda eru það bara vesælir námsmenn erlendis, smásöluverslunin og skuldarar (einstaklingar og fyrirtæki) í erlendri mynt. Styrking krónunnar getur skilið milli feigs og ófeigs í þessum hópum og eflaust fleirum. Sveiattan! að geta ekki fagnað þessum bata. Við eigum að taka umræðuna um breytingu á gjaldmiðli, sem vel getur verið hyggilegt að huga að, undir öðrum kringumstæðum en þessum.
Það stakk mig illa þegar ég sinnti þremur erindum (nú er það bara harkan sex, farið á nákvæmlega þá staði sem ætlunin er og ekkert múður!) í Smáralind á heimleiðinni, hversu þungt er yfir fólki. Uggur í svip, áhyggjur, engin jólagleði. Áhyggjur vegna atvinnumála er að finna mjög víða nú og ég vona sannarlega að við ákveðum að finna leiðir sem stemma stigu við frekari uppsögnum en að fara Evrópusambandsleiðina og koma ,,öllu í lag" með því að auka atvinnuleysið.
Eitt af erindunum í Smáralind var að kaupa geisladisk sem var að koma út, ég hefði sennilega ekki tekið eftir honum ef ég hefði ekki rekið augun í mynd af ömmu Kötu á umslaginu (upp á grín má reyndar nefna það að hún er líka amma hennar Katrínar Oddsdóttur sem sló í gegn með mótmælaræðu um daginn - og gerði allt vitlaust meðal sumra samnemenda sinna í HR). Fór þá að huga að innihaldinu og þar sem ég er ákafur aðdáandi nútímatónlistar var engin spurning að mig langaði að eignast þennan grip sem þið sjáið hér með pistlinum. Bý svo vel að nokkur af yngri tónskáldum þjóðarinnar búa hér á Álftanesi, í listamannabænum Álftanesi, og við fáum oft að njóta tónsmíða þeirra hér innan sveitar. Ég var reyndar að vona að á þessu diski fyndi ég Stjórnarskrána hennar Karólínu Eiríks því það var einmitt Hymnódía, sem flutti það verk á Akureyri, ásamt valdri sveit einsöngvara, sem ég held að sé eini flutningur þess. Það hefði verið toppurinn! Mig langar svo mikið að heyra það og vel við hæfi á þessum undarlegu tímum! En samt líst mér vel á úrvalið á þessu diski, þekki til verka flestra höfundanna og þessi diskur bætist í litla, skemmtilega safnið mitt, sem ég var að átta mig á að ég á nú orðið af nútímatónlist. Ekki margir sem nenna að hlusta á þetta með mér, en það gerir ekkert til, sumt er bara betra að hlusta á einn síns liðs. Á reyndar einn góðan vin í Finnlandi sem deilir þessu áhugamáli með mér svo ég hef eitthvað nýtt til þess að kynna fyrir honum næst þegar hann lítur við.
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkur: Menning og listir | Breytt s.d. kl. 18:15 | Facebook
Athugasemdir
Falleg mynd af ömmu sem ég hef ekki áður séð. Geislaði alltaf af henni. Veistu hvernig stóð á því að hún er á geisladisknum? Mikið væri gaman ef til væru upptökur af píanóleik hennar þegar hún spilaði undir þöglu gömlu myndunum í Gamla bíó
Erna Hákonardóttir Pomrenke, 8.12.2008 kl. 15:48
Það var alger tilviljun að þessi mynd var valin á diskinn (sem er með mjög fallegri tónlist). Myndin er í myndasafni Þjóðminjasafnsins (www.natmus.is) og þegar hönnuður umslagsins fór að grennslast fyrir um þessa Katrínu fannst þeim mjög spennandi að hún skyldi hafa farið í fiðlunám til Kaupmannahafnar 1919.
Anna Ólafsdóttir Björnsson, 8.12.2008 kl. 19:05
'Eg skal trúa að þetta hefur komið þér skemmtilega á óvart. Veistu hvar fiðlan hennar er niðurkomin, er hún kannski á þjóðminjasafninu?
Erna Hákonardóttir Pomrenke, 8.12.2008 kl. 19:52
Nei, ég veit reyndar ekki hvar hún er núna.
Anna Ólafsdóttir Björnsson, 8.12.2008 kl. 22:08