90 ára fullveldishátíð Heimssýnar í Salnum kl. 17 á mánudaginn 1. desember - mikilvægt að allir sem láta sér annt um fullveldið sýni samstöðu!

Eitt af því sem hefur verið mjög til umræðu í fjármálahamförunum sem yfir landið hafa gengið að undanförnu er vitund okkar Íslendinga sem þjóðar. Ánægjulegt að sjá hversu samtaka og staðráðin við Íslendingar erum í að halda haus, þótt fjármálabrjálæðingar hafi farið hamförum og stjórnvöld. bæði fjármálaleg og pólitísk, gufast meira en góðu hófi gegnir að mati okkar margra, alla vega þeirra sem norpa á Austurvelli í hvaða veðri sem er. Eitt hið mikilvægasta sem rætt hefur verið er fullveldið sem verður 90 ára á mánudaginn, 1. desember. Það ætti að minna okkur á að oft hefur verið hart í ári, að þegar fullveldinu var fyrst fagnað, 1. desember árið 1918 var álfan okkar góða, Evrópa, í sárum eftir fyrri heimsstyrjöldina og Ísland var undirlagt að skæðri drepsótt, spönsku veikinni. Samt varð einn mikilvægasti áfangi okkar á sjálfstæðisbrautinni að veruleika þennan dag.

Nú hefur mörgum þótt syrta í álinn og sjaldan hafa spurningarnar um fullveldi verið jafn áleitar og einmitt nú. Háskólinn heldur fund um hvort við séum fullvalda, en það hefur verið dregið í efa meðal annars þar sem Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn hefur sett okkur miklar leikreglur. Ennfremur hefur það verið mál margra (einkum sem vilja að við göngum í Evrópusambandið) að þar sem við lútum reglum innri markaðarins gegnum EES séum við þegar búin að afsala okkur fullveldinu. Og sumir segja að það sé bara allt í lagi. Mér dettur stundum í hug þessi setning:

Svo skal böl bæta að benda á annað verra.

Sem betur fer erum við mörg sem teljum ástæðu til að fagna því að við séum fullvalda þjóð og höfum nú verið það samfellt í 90 ár. Og við viljum vera það áfram. Í aðild að Evrópusambandinu felist fullveldisafsal og það sættum við okkur ekki við. Mörg okkar höfum fundið okkur farveg í Heimssýn, félagi sjálfstæðissinna í Evrópumálum. Heimssýn heldur fullveldishátíð í Salnum í Kópavogi í tilefni af 1. desember og hefst hátíðin klukkan 17 þann dag og stendur í hálfan annan tíma. Það er full ástæða til að fagna fullveldinu og halda í það og sú samstaða sem Íslendinga sýna nú þegar á bjátar segir mér að margir séu sama sinnis. Vildi bara láta ykkur vita, sem ég ekki hef þegar sagt af þessu. Þótti vænt um það í dag þegar ég hitti gamla vinkonu að hún hlakkaði til að fara á hátíðina, hef heyrt það sama úr svo mörgum áttum að undanförnu. Sem betur fer er fólki ekki sama um blessað fullveldið.

... og þeir sem ætla á fundinn á Arnarhóli sama dag geta líka komið, því hann er klukkan 15! Koma svo til okkar í Salinn í Kópavogi kl. 17, alveg stórfín blanda.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Baldur Gautur Baldursson

Íslandi allt!   Fullveldisdagurinn er hinn eiginlegi þjóðhátíðardagur Íslands. Sautjándi júní er vandræðum bundin af mörgum ástæðum, en óþarfi að fara út í það núna.  Tek það upp síðar.  Held að við ættum að minnast þessa dags með að fjölmenna á þessa fullveldishátíð.   Sýna samstöðu og að land og sjálfstæðið er okkur meira virði en grannlöndunum.

Baldur Gautur Baldursson, 30.11.2008 kl. 10:09

2 Smámynd: Ingibjörg SoS

Takk fyrir frábær skrif, Anna. Og athugasemd þína, Baldur. Ég mæti!

Ingibjörg SoS, 30.11.2008 kl. 13:01

3 Smámynd: Helga Guðrún Eiríksdóttir

Ég ætla að vera þarna með ykkur í huganum. Takk fyrir flott skrif.

Helga Guðrún Eiríksdóttir, 30.11.2008 kl. 13:13

4 identicon

Takk, Anna, fyrir innleggið og fyrir að minna okkur á fullveldishátíðina, Það er hverju orði sannara að „sjaldan hafa spurningarnar um fullveldi verið jafn áleitnar og einmitt nú“.

Gunnar Guttormsson 30.11.2008 kl. 21:46

5 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Hlakka til fundarins og að hitta ykkur sem komist (fylgist með þeim sem mæta í huganum, það verða ábyggilega fallegar hugsanir á sveimi :-)

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 30.11.2008 kl. 23:10

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband