Mergjuð ummæli Ólafs Gunnarssonar rithöfundar um aðild Íslands að Evrópusambandinu

Ólafur Gunnarsson rithöfundur er í viðtali í Fréttablaðinu í dag. Það er út af fyrir sig gleðiefni. Og ég hlakka rosalega til þess að lesa Dimmu rósirnar hans. En það sem einkum vakti athygli mína í þessu viðtali eru ummæli Ólafs um mögulega aðild Íslands að Evrópusambandinu. Þau eru á þessa leið:

,,Ég er opinn fyrir öllum kúltúráhrifum. En ég er samt skíthræddur við Evrópusambandið. Eins og stendur í Egilssögu: Konungsgarður er víður inngöngu en þröngur útgöngu. Var það ekki í fréttum í vikunni að Evrópusambandið hygðist engar tilslakanir gera vegna fiskimiðanna? Vilja Íslendingar missa sjálfstæðið? Einhver fugl stakk upp á því að við ættum að breyta stefnu sambandsins hvað varðar þessi mál þegar við værum gengin í það. Hver vitiborinn maður hlýtur að sjá að þetta er brjálsemi; svipuð heimspeki eins og að segja að gott væri að komast í helvíti vegna þess að maður gæti haft svo góð áhrif á djöfulinn."


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir benti réttilega á það í ræðu á flokkstjórnarfundi Samfylkingarinnar sem nú stendur, að innganga í ESB mundi skila okkur íslendingum betri lífskjörum fyrir fólkið í landinu. Fiskveiðistefna ESB verur tekin til endurskoðunar 2012 og þar sem að við erum að veiða svo mikið úr staðbundnum stofnum við Ísland, þá eru þeir stofnar ekki taldir með þegar talað er um ráðstöfun ESB á fiskimiðunum. Það eru hins vegar fiskistofnar eins og síld, kolmunni, makríll og aðrar tegundir sem eru sameiginlegar með öðrum þjóðum. Samningsumboð vegna þeirra stofna mun færast til Brussel. Hvort sjálft kvótakerfið verur tekið upp og úthlutunarkerfi þess, hefur ekki verið svo mikið í umræðunni. Það eru og hafa verið háværar raddir hér innan lands um fyrirkomulag eingnarhalds á fiskimiðunum, eins og rétti til að veðsetja, að kvóti erfist eins og hver önnur eign og komi til skipta við hjónaskilnaði og fl. Þetta eru allt "réttindi" sem eru umdeild og geta vafist fyrir þeim í Brussel. Getur ekki andstaða kvótaeigenda verið að hluta til vegna þessar "eigna" þeirra sem þeir vilja með engu móti missa.

Hólmfríður Bjarnadóttir, 22.11.2008 kl. 14:44

2 identicon

Hólmfríður, þú segir að ISG hafi réttilega bent  á það að ESB skili okkur betri lífskjörum? Mér þykir þú taka ansi stórt upp í þig án þess að skýra út hvað þú átt við. Ég veit að ISG er gyðja í augum sumra kvenna og karla en við hin erum líka til sem treystum henni ekki.

Í stað þess að ISG dragi mig og skoðanasystkini mín inn í ESB þá fyndist mér hún vera kona að meiru með því að stíga niður og viðurkenna að hún er komin út í horn og þess vegna sé eðlilegast að aðrir taki við. Stjórnmálamaður sem talar niður gjaldmiðil þjóðarinnar og elur á hræðslu um að þjóðin eigi sér ekki framtíð nema í hræðuslubandalaginu ESB á að segja af sér.

Við þetta má bæta að stjórmálamaður sem sér ekki auðlindirnar á Íslandi og ekki heldur auðlinda Íslendinga á ekki að falast eftir því að hafa völd. Það er grundvallarkurteisi gagnvart þjóðinni að hafa trú á henni og að vilja að þjóðin sjálf hafi alla þræði í hendi sér um not af auðlindum hennar.

Helga 22.11.2008 kl. 16:01

3 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Hvað þarf að benda okkur hressilega á að við munum ekkert vægi hafa í þessari fiskveiðiumræðu innan Evrópusambandsins? Breskum sjómönnum var lofað öllu fögru en raunveruleikinn er annar, Norðmenn höfnuðu aðild ekki síst þegar í ljós kom hvað samningaviðræðurnar þeirra leiddu í ljós fyrir vestur- og norðurhluta landsins, sem háðastur er fiskveiðum, ekki einu sinni eða tvisvar. Þarf að stafa þetta ofan í okkur. Og þá er lýðræðisskorturinn í sambandinu ekki einu sinni nefndur. Lesið orð Ólafs Gunnarssonar einu sinni enn, þið sem efist. Þar er glöggur maður á ferð.

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 22.11.2008 kl. 19:56

4 Smámynd: María Richter

Ég er skíthrædd við ESB.  Hvaða heilvita manni dettur í hug að 300.þús hræður norður í ballarhafi komi til með að hafa einhver áhrif!!  Er það ekki enn og aftur komið stærlæti og hroki okkar, sem svo sannarlega hafa komið okkur enn betur á hausinn heldur en flestum öðrum vestrænum þjóðum um þessar mundir.  Nei við höfum ekki baun að gera í ESB takk fyrir kærlega, við sáum nú hvað þeir voru yndislegir "vinir" okkar í IceSave deilunni og hvað þeir voru vinsamlegir hjá IMF.  Við verðum bara eins og aumur hreppur á einhverjum útkjálka Evrópu sem fær engu ráðið....

María Richter, 22.11.2008 kl. 20:54

5 identicon

Og hvað viljið þið þá? Svokallaðan áframhaldandi sveigjanleika Krónu? Venjulegt fólk á Íslandi er tilbúið að skoða allt sem kemur því til leiðar að við búum í landi án verðtryggingar og óðaverðbólgu!! Þetta væl um að ESB sé á leiðinni að gleypa upp fiskinn okkar á ekki við þegar við búum við þetta rugl í DAG!! By the way, hver á fiskinn í dag?

Hákon Óttarsson 22.11.2008 kl. 22:03

6 identicon

ég er sammála látum vera að sækja um aðild og gleymu ervunni aftur getum við tekið upp einhliða USA dollar og þurfum ekki að sækja um aðild neinsstaðar

Loki 23.11.2008 kl. 00:16

7 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Mér finnst ótrúlega þröngt sjónarhorn að sjá enga lausn aðra en að sækja um aðild að Evrópusambandinu, og sú ,,lausn" byggist þar að auki á miklum ranghugmyndum. Við fljúgum ekki inn í myntsamstarfið og tökum upp Evru um leið og við hringjum til Brussel. Okkur eru margir kostir færir og í stað þess að eyða orkunni í að einblína á stórgallað ESB og óraunhæfa Evrudrauma væri skynsamlegt að fara að kanna þá kosti sem eru í stöðunni, þessi ESB/Evru-umræða hefur drepið málinu hættulega mikið á dreif, það er verk að vinna og töfralausnir eru ekki til, síst sú sem felst í aðildarumsókn. Þau rök að það ,,rói" aðra og gefi okkur ,,trúverðugleika" eru mjög rýr, hvað með rósemd okkar eigin fólks og trúverðugleika stjórnvalda. Ekki eykst trúverðugleikinn og ekki mun það skapa nema litlum hluta fólks einhverja ró þegar í ljós kemur hvaða vegur þar yrði framundan.

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 23.11.2008 kl. 00:45

8 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessuð Anna

Vegna athugasemda Hólmfríðar um að við þyrftum ekki að lúta fiskveiðistefnu sambandsins nema að hluta þá er fiskveiðistefna sambandsins ekki aðal skaðvaldurinn gagnvart okkar fiskimönnum.  Bann við fjárfestingar erlendra aðila í sjávarútvegsfyrirtækjum okkar félli um sjálft sig því öll mismunun á grundvelli þjóðernis er bönnuð. 

Okkar fyrirtæki eru mjög skuldsett og íslenska krónan mjög verðlítil.  Þetta ásamt því að erlendir bankar munu eignast öll veðin innan tíðar ( jarðvegurinn er í ræktun og skammt að bíða tilkynningar um erlendt eignarhald bankanna) mun aðeins þýða eitt.  Allur okkar kvóti og öll okkar sjávarútvegsfyrirtæki munu lenda í erlenda eigu.  Fiskiskipin okkar munu að stærstum hluta vera mönnuð erlendum sjómönnum sem sætta sig við lakara launakerfi en núverandi hlutaskiptakerfi og öll markaðsmál fara eftir hag heimalandsins.  Eða með öðrum orðum þá munu það ekki bara vera Vestmanneyjingar sem flytja mestallan sinn fisk óunnin út. 

Hins vegar má ekki gleyma jákvæðum áhrifum á atvinnulífið en t.d Evrópustjórmálafræðingar og afdankaðir Evrópustjórnmálamenn munu fá vellaunaða vinnu í Brussel því gott er að fá hjálp útvalinna heimamanna til að stjórna öreigalýðnum.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 23.11.2008 kl. 00:52

9 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Ja, lausn og lausn. Veit það ekki kannski en það er einfaldlega nauðsynlegt skref að tengjast ESB.  Það eru u.þ.b. 20 ár síðan ég gerði mér grein fyrir því.

Það er bara svona söguleg þróun.  Óhjákvæmileg fyrr eða síðar.

Með fiskveiðistefnu ESB, þá er furðulegur missilningur þar í gangi og undrar mig stórlega hve útbreiddur hann er. Kvótanum verður að mestu úthlutað frá Brussel, það er rétt.  En Það sem flestum yfirsést er reglan um hlutfallslegan stöðugleika.  Það er grundvallarregla innan fiskistefnu ESB.  Regla sem gerir allt tal um: OMG við missum fiskimiðin etc ð engu:

"Skipting veiðiheimilda. Ákvarðanir um heildarafla á miðum ESB ríkja og skiptingu í landskvóta eru teknar sameiginlega af fulltrúum aðildarríkjanna í ráðherraráði ESB að fengnum tillögum frá framkvæmdastjórn ESB. Þetta á við um veiðar innan 200 mílna efnahagslögsögu, að undanskildum veiðum innan 12 mílna lögsögu en þar eru veiðar á forræði hvers ríkis. Við ákvörðun á aflamagni er stuðst við tillögur vísindamanna.

Við skiptingu í landskvóta er farið eftir reglunni um hlutfallslegan stöðugleika en hún felur í sér að kvóti innan 200 mílna lögsögu tiltekins lands er skipt eftir sögulegri veiðireynslu og efnahagslegu mikilvægi fiskveiða fyrir viðkomandi land. Hvert ríki úthlutar síðan sínum kvóta eftir sínu eigin úthlutunarkerfi og ber ábyrgð á eftirliti með veiðum innan sinnar lögsögu."

Ómar Bjarki Kristjánsson, 23.11.2008 kl. 01:03

10 identicon

Í framhaldi af orðum Ómars hér að ofan þá ætla ég að segja frá því að í kvöld var mér sagt að þingmaður nokkur hefði sagt frá því nýlega að skuldir sjávarútvegsins væru jafnháar láninu sem ríkisstjórnin fékk frá IMF með veði í okkur öllum. Þetta vissi ég ekki. Það er svo mikill sannleikur í því sem Ómar segir um að sjávarútveguirnn færi strax í hendur erlendra manna við inngöngu landsins í ESB. Nokkuð sem Hólmfríður og skoðanasystkini hennar ættu að skoða vel og athuga hvort þau eru eftir það tilbúin að jarma í ESB-kórnum.´

Kannski veit einhver ESB-sinninn hvað ríkisstjórnin er búin að taka há lán - ekki veit ég það. Hver eru veðböndin á auðlindunum okkar - fiskinum, orkunni, vatninu, okkur sjálfum - þjóð sem þannig er komið fyrir semur hvorki við einn né neinn um eitt né neitt - og hún biður ekki einu sinni um skilning hjá ESB því ESB sýnir ekki skilning heldur notar IMF til að koma 300.000 sálum á skuldaklafa - ESB vantar orku, vantar vatn, vantar fisk - það er búið að fá veðin í okkur öllum og því bíður ESB bara eftir því að lánin gjaldfalli og þetta er allt þeirra. Auðlindir Íslands og þjóðin sjálf eru veðsett í Bretlandi, Hollandi og Þýskalandi (sennilega bætast fleiri lönd við). Þjóðin er ekki fær um að borga þessi veð og ESB hefur sýnt upp á síðkastið að þær sækir "sitt" með hörku.

Opnið augun í öllum bænum - opnið augun og horfist í augu við stöðu ykkar. Nauðsynlegar reglur vegna galopins markaðar sem fylgdi EES-samningnum voru ekki settar. ESB er ekki hjálparsamtök fátækra þjóða. Lesið ykkur til og spyrjið ISG gagnrýninna spurninga um ESB. Hún er ágætistalsmaður ESB á Íslandi en hún er fráleitt talsmaður Íslendinga gagnvart ESB.

Helga 23.11.2008 kl. 01:46

11 Smámynd: Örvar Már Marteinsson

Vil bara rétt benda Hólmfríði á að það er ekkert nýtt að það eigi að endurskoða sjávarútvegsstefnuna.

Það er búið að vera að endurskoða sjávarútvegsstefnuna síðan 1983 og það hefur ekkert vitrænt komið út úr því ennþá og þeir viðurkenna meira að segja að sú endurskoðun hafi ekki skilað árangri. Það eru ekki nema 25 ár.

Finnst ykkur taka langan tíma að koma breytingum í gegn hér? Langur tími, málæði og lopateygingar öðlast alveg nýja merkingu þegar við verðum komin inn í Evrópusambandslýðveldið.

Örvar Már Marteinsson, 23.11.2008 kl. 02:22

12 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

Anna, þrennt er auðveldast að vekja tilhæfulausan ótta við, það er „ókunnugt“, „útlenskt“ og „vald“ og ef þetta þrennt fer saman þá gleypir fólk hráar hverskyns útfærslur af „þeir ætla að ræna okkur landinu“ og um þá sem mæla fyrir samningum við útlendinga „þeir ætla að svíkja landið okkar“.

Þetta eru tvö sígild stef sem hafa verið kyrjuð með miklum árangri til að ala á ótta við alla samninga við „útlendinga“ á Ísalndi af ýmsum tilefnum í marga áratugi. Verst er að þetta er sama fóbían og veldur rasisma og andúð á öllum útlendingum, jafnt hælisleitendum sem öðru aðkomufólki. -  Með hreinum ósannindum til að fóðra hinn auðæsta hræðsluáróður í garð útlendinga bara til að ná pólitískum markmiðum næra menn þannig allan rasisma og útlendingahatur.

Ykkar ábyrgð er mikil sem hindruðuð að við leitðuðum inngöngu í ESB fyrir löngu og kynntum okkur með samningaviðræðum hvað væri þar í raun i boði, - þ.e. hér væri t.d. ekki IMF til að bjarga krónunni ef ekki hefði verið hér króna. - Ábyrgð ykkar að ætla nú enn eina ferðina að keyra á útlendingafóbíuna til að ná pólitískum einangrunar-markmiðum ykkar er afar mikil.

Helgi Jóhann Hauksson, 23.11.2008 kl. 05:15

13 identicon

Helgi, góði lærðu heima svo þú setjir ekki út úr þér aftur þvílíka vitleysu! Ef þú getur boðið upp á jafnmikil samskipti við erlent fólk og eigandi þessarar bloggsíðu þá hefur þú slegið met.

Að ætla okkur ótta við útlendinga eða andúð á þeim er afskaplega lágkúrulegt. Vera má að þú sért ófær um að eiga góð samskipti við erlent fólk öðruvísi en að falbjóða þína eigin menningu og land, en þannig er það hvorki með Önnu né sjálfa mig. Við og skoðanaskystkini okkar í Heimsýn eigum góð samskipti við útlendinga um leið og við stöndum stolt í báðar fætur í íslenskri menningu og þykir undirvænt um landið okkar.

Hvað rasisma varðar þá er þér velkomið að bjóða hann heim til þín því hann passar hvorki á heimili Önnu né mitt.

Ef þér líður betur við að kenna okkur um að Ísland standi utan ESB, þá verður það svo að vera. En ertu þá ekki til í að vera jafnelskulegur og taka á þig ábyrgðina á Ingibjörgu Sólrún? Hún er nefnilega fyrir okkur sem viljum ríkisstjórnina burt svo hægt sé að koma á þjóðstjórn með mönnum sem kunna að bjarga því sem bjargað verður.

Helga 23.11.2008 kl. 05:53

14 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

Ég sé ykkur nota ótta við útlendinga og það sem fólk ekki þekkir og ég sé ykkur fara með hreint bull og hreina lygi um málið og jafnan spilað á þetta sama stef „útlendingarnir ætla að ræna okkur“ um flest sem snertir ESB. Þið notið útlendingaóttann og óttan við það fjarlæga og ókunnuga til að bera hverskyns bull og vitleysu í þessum anda uppá Evrópuþjóðirnar í ESB og starfsfólk þeirra. -

Ég verð að bæta því við þar sem þú segir mér að læra heima um málið að ég valdi að stúdera ESB og fiskveiðistefnuna með hliðsjón af stöðu Íslands þegar ég lauk stjórnmálafræði fyrir 10 árum, svo ég hef lært þó nokkuð heima um efnið. Ég hef líka stúderað sem kennari fjölmenningu, þjóðernishyggju og rasisma.

Það undraðist ég mest á sínum tíma að jafnvel á bókasöfnum Sjávarútvegsráðuneytisins, LÍÚ, Utanríkisráðuneytis og öllum öðrum fræðilegum bókasöfnum sem ég komst í var ótrúlega lítið efni til um sjávarútvegsstefnu ESB  sem ég þá þurfti að panta allt erlendis frá. Það hefur líka einkennt alla umræðuna í 15 ár að það hvað sé satt og rétt skipti engu máli fyrir umræðuna.

Helgi Jóhann Hauksson, 23.11.2008 kl. 06:26

15 identicon

Helgi, þú segir: "Ég sé ykkur nota ótta við útlendinga og það sem fólk ekki þekkir og ég sé ykkur fara með hreint bull og hreina lygi um málið og jafnan spilað á þetta sama stef „útlendingarnir ætla að ræna okkur“ um flest sem snertir ESB. Þið notið útlendingaóttann og óttan við það fjarlæga og ókunnuga til að bera hverskyns bull og vitleysu í þessum anda uppá Evrópuþjóðirnar í ESB og starfsfólk þei

Ef það sem ég vitna hér í úr innleggi þínu er til vitnis um hve góður nemandi þú ert þá gef ég lítið fyrir þekkingu þína og hvet þig á ný til að læra heima. Ekki bara lesa heldur taka eftir því sem þú lest og heyrt sagt og skilja það.

Allt frá því stór hópur manna sameinaðist um að beina því til Vigdísar forseta að vísa ákvörðuninni um EES til þjóðarinnar hefur málstaður andstæðinga þess að Ísland verði sett í ESB (þá EBE) einkennst af málefnalegum rökum. Við höfum lagt ríka áherslu á að Íslendingar loki sig ekki inni í ESB svo þeir geti haldið áfram að eiga viðskipti við allar þjóðir heims. Við höfum lesið regluverk ESB til að geta vitnað í lögin máli okkar til stuðnings. Þú ættir að geta fundið þetta á bókasöfnum (þegar við hófum okkar baráttu var internetið ekki komið til). Við höfum aldrei alið á ótta við erlent fólk, en við höfum sannarlega lagt áherslu á að valdið sé á landinu en ekki í Brussel.

Takirðu þig ekki á í samskiptum og lætur af sleggjudómum þínum og því að bera upp á okkur framkomu sem við höfum aldrei verið staðin að þá verður þú vera einn í þínu horni því ég sóa ekki tíma mínum í að munnhöggvast við svo orðljótan mann sem mér virðist þú vera.

Helga 23.11.2008 kl. 07:12

16 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

Helga það er engin þeirra 27 þjóða sem eru í ESB „lokuð inni“ í ESB eins og þið segið. Hvorki Danir, Svíar né Finnar, eða Luxemborgarar, írar eða Þjóðverjar og hvað þá Bretar sem eru höfuð breska samveldisins með um 70 þjóðum um allan heim. - Þetta er eitt dæmið af rakalausu lygi-bullinu í ykkur.
- „Lokuð inni í ESB“ -hvílíkt bull.

Helgi Jóhann Hauksson, 23.11.2008 kl. 07:28

17 identicon

Helgi, þjóðir ESB hafa ekki frelsi til að gera viðskiptasamninga við lönd utan sambandsins. Þetta kalla ég að þjóðirnar séu lokaðar inni í ESB. Væri Ísland í ESB þá gæti það ekki upp á sitt einsdæmi t.d. ákveðið að ganga til viðskipta við Kína. Þetta er ekki "rakalausara" bull en svo að þú finnur um þetta gögn næst þegar leið þín liggur á bókasafn, hvort heldur almenningsbókasafn eða safn þýðingarmiðstöðvar utanríkisráðuneytisins.

Helga 23.11.2008 kl. 07:39

18 Smámynd: Steinunn Helga Sigurðardóttir

mjgott hjá ólafi, takk fyrir þetta fyrir mig sem er ekki í daglegu sambandi við landið.

kæra anna ég svaraði þessu fína kommenti sem þú settir inn hjá mér í gæt, takk fyrir það líka : O)

Hafðu fagran dag í vetri

steina

Steinunn Helga Sigurðardóttir, 23.11.2008 kl. 11:44

19 identicon

Haldið þið virkilega að almenningur í stóru ESB löndunum hafi það eitthvað betra en íslendingar?  Var að tala við stóran birgja í ESB og biðja um lengri greiðslufrest þ.e þangað til evran er komin neðar. Hann sagði að viðskiptavinir hans víðsvegar um Evrópu væru að biðja um það sama vegna þess að þeir ættu enga peninga (evrur).

Palli 23.11.2008 kl. 19:29

20 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Smá viðbót, sem betur fer hefur umræðan verið á þann veg að skoðanasystkin mín hafa að mestu tekið af mér ómakið meðan ég naut söngskemmtana, fjölskylduboða og funda.

Ég vil fyrst gera þá athugasemd að biðja ykkur að nota athugasemdakerfið mitt ekki til að fá útrás fyrir orðljótar athugasemdir. Tekur sá til sín sem á, vona ég. Ég hef aðeins tvisvar sinnum á fjörugum bloggferli þurft að loka á athugasemdir vegna illmælgi og langar ekki að þurfa að gera það aftur, en mun þó ekki hika við það og fyrr loka ég bloggi mínu en að gera það að athvarfi fólks sem ekki vill virða þær leikreglur.

Athugasemd Ólafs kemur að kjarnanum sem margir þurfa nú að taka afstöðu til: 1. Heldur fólk að það sé auðvelt að fara inn ,,bara til að prófa" - eða gerir það sér grein fyrir að ekki er létt verk að bindast þessu regluverki Evrópusambandsins endanlega án þess að vera reiðubúið að hlýta ákvörðunum hinna stóru og sterku í bandalaginu. 2. Gerir fólk sér grein fyrir hvert vægi okkar yrði innan Evrópusambandsins. Líking Ólafs er djörf eins og skálda er lagið en ég held að hann hitti naglann á höfuðið. 3. Er sjáflstæðið okkur einhvers virði? Ég get bara svarað fyrir sjálfa mig, svarið er já. Sem sagnfræðingur með anarkisma og byggðasögu sem sérsvið og talsverða yfirlegu yfir sögu Álftaness, hef ég séð mörg tilvik um bæði jákvæð og neikvæð áhrif þess að mikilvægar ákvarðanir eru teknar fjarri heimabyggð og heimalandi. Og niðurstaða mín er að því nær sem fólk er ákvarðanatöku um eigin mál, þeim mun farsælla. 

Ég ætla ekki í störukeppni um hverjir eru mestir einangrunarsinnar, ESB-sinnar og við ESB-andstæðingar, eflaust er misjafn sauður í mörgu fé í báðum fylkingum. Regluverk Evrópusambandsins, sem stundum hefur verið kallað ,,Virkið Evrópa" er felur hins vegar í sér eina máttugustu heild reglna sem halda viðskiptum innan síns litla heims og  gera þeim sem þar standa utan við erfitt fyrir. Ég fyrir mitt leyti vil ekki sá Ísland innan þessa klúbbs og er ekki bjartsýn varðandi það að breytinga sé að vænta á þeirri verndarstefnu sem þar er viðhaldið og bitnar meðal annars á okkur Íslendingum hvað varðar innflutning á unnum sjávarafurðum meðan við undirgöngumst ekki landbúnaðarstefnuna (með sjávarútveg innanborðs) - sem blessunarlega er ekki hlut af EES.

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 23.11.2008 kl. 23:52

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband