Fjárkúgunarákvæði?
6.11.2008 | 16:46
Þessi leynd og leynimakk eru hættuleg. Það sem kvisast út gefur fullt tilefni til að hafa áhyggjur og í þessu tilviki þurfa viðræður að fara fram fyrir opnum tjöldum, áður en búið að að binda þjóðina á klafa sem hún ekki kærir sig um.
Sláandi fregnir úr för þingmannanefndar með Árna Þór Sigurðsson og Katrínu Júlíusdóttur innanborðs til Brussel. Það virðist varla fara á milli mála að verið er að reyna að kúga okkur til að setja inn ákvæði í samkomulagið við Alþjóða gjaldeyrissjóðinn (ef af verður) sem felur í sér að sjónarmið Breta og ef til vill Hollendinga líka, verða höfð að leiðarljósi en ekki hagsmunir Íslendinga, sem þó þurfa bæði að sæta ákvæðunum og greiða lánin til baka. Nógu slæmt er að dansa eftir takti IMF sem hefur gefist ýmsum Asíuþjóðum illa, og við súpum þegar seyðið af með hrikahækkun stýrivaxta, sem sagt er að sé meðal ákvæðanna. Ef ESB-þjóðir eru í ofanálag að beita sjóðnum fyrir sig til þess að valtra nú endanlega yfir litlu þjóðina okkar, þá er það nú að bíta hausinn af skömminni. Ekki nóg með að ákvæði EES hafi komið okkur í þessa stöðum (að sögn viðskiptaráðherra) með því að skylda okkur til að leyfa hömlulausa uppbyggingu litlu íslensku bankanna á EES svæðinu, fyrir lánsfé. Heldur er nú verið að beita okkur kúgun stóru þjóðanna, ekki síst í krafti ESB. Forsíður Mogunblaðsins og Fréttablaðsins í dag eru sláandi sönnun þess. Þarf að stafa þetta ofan í okkur?
Þingmenn með bundið fyrir augun | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:28 | Facebook
Athugasemdir
ESB þjóðirnar Svíþjóð, Danmörk og Finnland væru ekki skuldbundinn til að borga krónu af samskonar viðskiptum því þeir tryggja aðeins innistæður sem lagðar eru inn í heimalandinu, því þá hafa þeir eftirlitið í sínum höndum. Það er löndum í Evrópu í sjálfvald sett hvað þeir tryggja og hvað ekki, Bretar t.d tryggja innistæður í heimalandinu, öllum ESB og EES löndum. Veit ég ekki hvað Íslenska ríkistjórnin hafði skuldbundið sig til að tryggja enda hefur ekki tekist að fá skýr svör hjá ríkistjórninni um málið annað en að um málið ríki ágreiningur.
Við værum að horfa upp á allt annan veruleika ef við hefðum verið genginn í ESB eins og við hefðum átt að vera búinn að gera fyrir löngu síðan.
Hinsvegar væri gaman að sjá hvernig Bandaríkjamenn hefðu brugðist við ef innistæðurnar hefðu verið þar en ekki í Evrópu, væri nú þegar örugglega búið að setja á okkur viðskiptabann af þeirra hálfu. Man ég t.d þegar íslendingar hófu hvalveiðar, það fyrsta sem heyrðist frá Bandaríkjamönnum var að þeir hefðu fullan rétt til að leggja á okkur viðskiptabann. Það kom aldrei til greina hjá neinni Evrópuþjóð að leggja á okkur viðskiptabann út af slíku máli enda þótt það sé mikil andstaða við hvalveiðar í Evrópu.
Jón Gunnar Bjarkan, 6.11.2008 kl. 20:52
Vill reyndar svo til að ég eyddi októbermánuði að mestu í Bandaríkjunum og ræddi meðal annars við hagfræðiprófessora bæði gamlan ref í í New Mexico og ungan náunuga á uppleið Washington-ríki, og varð reyndar vör við mikla samúð og talsverðan áhuga og þekkingu á stöðu okkar í efnahagskreppunni, ekki bara hjá þessum tveimur mönnum heldur þorra þeirra sem á annað borð fylgdust með fréttaflutningi. Það er auðvelt að fullyrða að Bandaríkjamenn yrðu ábyggilega verri við okkur en Evrópusambandsþjóðirnar, en þú hefur ekkert fyrir þér í þeim efnum frekar en aðrir. Staðreyndin nú er í fyrsta lagi sú að það eru Evrópusambandsþjóðir sem eru þrándur í okkar götu. Svo einfalt er það nú.
Kannski mun reyna á þetta fyrr en varir. Þú veist ekkert frekar en ég hvernig ástandið væri ef við værum innan ESB heldur en utan, þannig að mín kenning er ekkert verri en þín.
Anna Ólafsdóttir Björnsson, 6.11.2008 kl. 22:23
EES ríkið Bretland er ekki síst misboðið vegna þess að þeir banna sínum bönkum að reka reikninga eins og ICESAVE, með þeim rökum að Bretland hafi ekki fjárhagslega burði til að taka ábyrgð á innistæðum íbúa annarra landa.
Þeirra reglur banna öllum breskum bönkum og útibúum þeirra að opna reikning fyrir aðra en þá sem eiga lögheimili á Bretlandi. Við fáum ekki réttar upplýsingar þegar okkur er sagt að við höfum ekki getað komið í veg fyrir þetta vegna EES. Bretar sem eru bæði í EES og ESB bönnuðu sínum bönkum svona rekstur á þeim grundvelli að Bretland gæti ekki staðið undir innistæðuábyrgð útlendinga - hversu miklu ferkar hefði litla Ísland ekki getað bannað þetta?
Helgi Jóhann Hauksson, 7.11.2008 kl. 02:44
Anna, eitt af því sem margir bera kvíðboga fyrir í sambandi við skilyrði IMF fyrir lánveitingum er að það mun vera þarna gruggugt ákvæði varðandi framleigu á orkusölu Landsvirkjunar. Það var eitthvert bandarískt glæpafyrirtæki að hnusa af þessu um það leyti sem hrunið fór af stað fyrir rúmum mánuði. Stærstur hluti orkusölusamninga Landsvirkjunar er við álrisana og þeim er örugglega ekki hægt að breyta. Slík framleiga á orkusölunni myndi þá einfaldlega þýða gríðarlega hækkun á rafmagnsverði til almennra, íslenskra notenda, jafnt fyrirtækja sem einstaklinga. Ekki verður það til að bæta okkar hag, enda skiptir hann þessa fósa engu.
Aðalsteinn 7.11.2008 kl. 09:57
Varðandi EES reglur þá eru Íslendingar því miður ,,kaþólskari en páfinn". Upplýsingarnar um orkusöluákvæðið eru athyglisverðar og ógnvekjandi.
Anna Ólafsdóttir Björnsson, 7.11.2008 kl. 20:48