Efni
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 1
- Sl. sólarhring: 3
- Sl. viku: 80
- Frá upphafi: 575853
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 58
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bækur
Nokkrar bækur í tilverunni
Bækur hafa áhrif - hér eru nokkrar sem virkuðu á mig. Áskil mér rétt á að breyta listanum, en svona er hann í dag.
-
Jón Helgason: Úr landsuðri
Ljóð Jóns Helgasonar fræðimanns og skálds eru yndisleg, allt frá Afmæli kattarins til Áfanga. Lesið þau öll, oft!
***** -
Germaine Greer: The Obstacle Race
Listasagan hennar Germaine Greer - uppáhalds feminismabókin mín
**** -
Sigurður Guðmundsson: Tabúlarasa
Ætla ekki að reyna að skýra hvers vegna þessi heillar mig mest, þið verðið bara að lesa hana ... eða ekki.
***** -
E. H. Carr: What is history?
Bókin sem réð úrslitum um að ég varð sagnfræðingur.
*** -
Hómer: Illionskviða
Las hana mölbrotin á spítala og fannst hún flott.
**** -
Steinunn Sigurðardóttir: Sífellur
Steinunn er flott ljóðskáld
**** -
Eleanor H. Porter: Pollýanna
Ótrúlega skemmtilegur heilaþvottur, virkar enn (stundum).
*** -
Antoine de Saint-Exupéry: Litli Prinsinn
Lífsspeki og húmor.
****
Eldri færslur
2024
2023
2022
2021
2020
2019
2018
2017
2016
2015
2014
2013
2012
2011
2010
2009
2008
2007
Góður fundur um ESB, bankana og kreppuna
6.11.2008 | 00:39
Fór á góðan fund Heimssýnar í hádeginu og ESB, bankana og kreppuna. Ungliðar áberandi í umræðunni þar, úr mörgum flokkum, og ég er ánægð með röksemdafærsluna þar sem varað er við ESB-aðild eins og staðan er nú. Það sem sló mig mest var áherslan á ÓTTANN sem tæki til að hrinda okkur út í eitthvað sem við viljum í rauninni ekki, til dæmis ESB-aðild. Minnir óþægilega á málflutning Bush (ekki síður Cheney) til varnar Íraksstríðinu. Sá mjög gott hræðslumyndband á YouTube sjálfsagt, þar sem keyrt var á hræðsluna. Sýnist það sama vera að gerast á Íslandi.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
« Síðasta færsla | Næsta færsla »
Verndað af höfundarrétti. Öll réttindi áskilin. | Þema byggt á Cutline eftir Chris Pearson
Athugasemdir
Hlakka til að fá góða umræðu um kosti og galla ES-aðildar, við í Heimssýn munum fagna málefnalegri umræðu, sem byggist ekki á ótta og fullyrðingum án raka.
Anna Ólafsdóttir Björnsson, 6.11.2008 kl. 01:26
Alltaf, Anna, þegar ESB-aðild er rædd þá fallast mér hendur vegna þess að það er svo leiðinlegt og slítandi að tala við fólk sem hreytir út úr sér rakalausum fullyrðum: 1) Allt verður betra í ESB; 2) Vextir munu lækka; 3) Vöruverð mun lækka; 4) landbúnaðarvörur á Evrópuverði (ég nenni ekki að leggja það á mig að rifja upp meira af þessum rakalausu fullyrðingum). Þið þarna, sem slengið þessu framan í fólk, bara gjörið svo vel og hunskist til að færa rök fyrir máli ykkar. Leggið fram rök fyrir því að allt verði betra í ESB! Leggið fram rök fyrir því að vextir munu lækka. Leggið fram rök fyrir því að vöruverð muni lækka. Útskýrið fyrir fólki hvað er Evrópuverð og í ljósi kreppunnar á Íslandi, útskýrið fyrir fólki hvers vegna það ætti að vera svo gott nú að fara með gjaldeyri í að flytja inn landbúnaðarvörur.
Og þá eru það þingmennirnir sem gala nú sem aldrei fyrr Evrópusögninn sinn á torgum. Opnið augun, fjandakornið! og horfist í augu við sjálfa ykkur! Ef þið eruð svo vanhæfir sem þingmenn að ykkur finnst við hæfi að draga þjóðina inn í ESB í stað þess að gera þá kröfu á ykkur að standa undir því að vera þingmenn finnið ykkur þá hið snarasta annað að dunda við en að láta þjóðina borga ykkur laun. Víkið fyrir fólki sem hefur trú á þjóðinni sinni; hættið að hanga á þingstólum eins og hundur sem stendur á roði; hættið að telja kjarkinn úr þjóðinni með því að sannfæra fólk um að það eigi ekki framtíð nema í ESB; hættið að fullyrða um vexti og vöruverð án þess að færa rök fyrir máli ykkar. Hlutverk þingmanna var að gæta hagsmuna fólks svo ekki kæmi til efnahagshruns. Þeim tókst það ekki. Hvers vegna ætti maður að treysta þeim til að vita um hvað þeir eru að tala þegar þeir dásama ESB þegar þeir geta ekki einu sinni lesið í það sem gerist við nefið á þeim?
Helga 6.11.2008 kl. 03:21
Í rauninni get ég tekið undir hvert orð hjá þér, Helga. En það er óskandi að við eigum eftir að fá málefnalega umræðu um þetta mál, það verður þó erfitt í skjóli óttans sem óspart er spilað á núna og svo er það auðvitað rétt sem bent hefur verið á: Þið sem viljið semja við ESB: Það er ekki HÆGT að velja verri tíma til að hefja slíkar samningaviðræður. Ég vil ekki að við förum út á þá braut, en verði það gert, þá er það óforsvaranlegt við aðstæður eins og nú eru, bæði vegna þess að fólk er orðið svo hundbarið að það lætur allt yfir sig ganga og eins vegna þess að við myndum mæta úrræðalaus í slíkar viðræður.
Anna Ólafsdóttir Björnsson, 6.11.2008 kl. 03:37
Innilega sammála þér, Anna. ..."þá er það óforsvaranlegt við aðstæður eins og nú eru, bæði vegna þess að fólk er orðið hundbarið og lætur allt yfir sig ganga"... Með því að telja stöðugt kjark úr fólki og fullyrða án þess að færa rök fyrir fullyrðingunum eða vísa til dæma innan úr ESB máli sínu til stuðnings þá eru ákveðnir þingmenn að búa til þann farveg sem þú lýsir í tilvitnuninni: Að telja kjarkinn úr þjóðinni svo hægt sé að svínbeygja hana undir hvað sem ESB fer fram á. Svei svona fólk!
Sagan metur þá þjóðarleiðtoga sem töldu kjark í þjóð sína á erfiðum tímum - en hér dynur yfir mann stöðugur flaumur rakalausra fullyrðinga um að ESB muni breiða út faðminn mót Íslendingum.
Fyrir þá sem vilja kynna sér málin, setja sig inn í málin og taka afstöðu byggða á þekkingu (en ekki ótta sem allt of margir eru að markaðssetja og ala á þessar vikurnar), endilega lesið bloggsíðu Heimssýnar
Já, við þurfum málefnalega umræðu um málið. Mikið skelfing, við þurfum málefnalega umræðu.
Svona í lokin, til hamingju með "þinn" mann í Bandaríkjunum . Þar fer maður sem hefur trú á þjóð sinni og framtíðinni.
Helga 6.11.2008 kl. 04:01
"að sem sló mig mest var áherslan á ÓTTANN sem tæki til að hrinda okkur út í eitthvað sem við viljum í rauninni ekki, til dæmis ESB-aðild. Minnir óþægilega á málflutning Bush (ekki síður Cheney) til varnar Íraksstríðinu."
Ha ha, já akkúrat það sem við viljum ekki, það er að segja ef þú skilur útundan yfirgnæfandi meirihluta þjóðarinnar, samtök atvinnulífsins, verkalýðshreyfinguna, lífeyrissjóðina, Alþýðusamband Íslands og Samtök iðnaðarins.
Jón Gunnar Bjarkan, 6.11.2008 kl. 10:48
Óttinn hefur verið grimmilegt og ósvífið vopn ESB-hatara í 15 ár, reyndar óttinn og svört fáfræðin og hrein lýgi. Allan þann tíma hefur meirihluti þjóðarinnar viljað ganga til aðildarviðræðna við ESB til að komast að hvernig sá pakki myndi líta út í reynd og hvað væri hæfti í hræðsluáróðri ESB-hatara, en á það mátti ekki minnast - alls ekki að fá hrein svör, - þá hefði haturs-lýgin og hræðsluáróðruinn innlokunar- og einagrunarsinna staðið strípaður eftir.
Nú hefur allt farið á versta veg og við felum IMF peningastjórn á landinu og tökum 700 miljarða að láni bara aðeins og eingöngu til að koma krónunni á flot sem auðvitað þyrfti ekki ef hér væri evra en ekki króna, og þá er allt annað uppbyggingastarf eftir. Allur IMF-pakkin með skilyrðum, viðbótarlánum sem honum tengjast og vöxtum af þeim er eingöngu til að reyna bjarga krónunni og koma á gjaldeyrisviðskiptum - einskis annars.
- Hvað hefði getað gerst verra við aðild að ESB og upptöku evru en þetta?
Helgi Jóhann Hauksson, 6.11.2008 kl. 13:10
You said it best Helgi.
Algjörlega sammála.
Jón Gunnar Bjarkan, 6.11.2008 kl. 13:43
Er það málefnalegri umræðu til framdráttar að tvinna saman gífuryrði?
„grimmilegt og ósvífið vopn“
„óttinn og svört fáfræðin og hrein lýgi“
„haturs-lýgin og hræðsluáróðurinn“
„innlokunar- og einagrunarsinnar“
Ég held raunar að bæði ESB-sinnar og ESB-andstæðingar byggi sýn á sambandið á rökum; svo má meta gildi þeirra eftir atvikum. Að afgreiða málstað þeirra sem eru ósammála með svona stóryrðum hefur hins vegar mjög lítið gildi fyrir umræðuna og grefur bara undan trúverðugleika þeirra sem tala svoleiðis.
Sverrir 6.11.2008 kl. 14:45
Heimssýn ber réttnefni og að baki henni stendur hópur af víðsýnu fólki sem lítur til alls heimsins en ekki aðeins hins litla hlutar hans sem ESB er.
Þeir sem ekki eru þessari fullyrðingu sammála ættu að skoða Atlasinn!
Kolbrún Hilmars, 6.11.2008 kl. 16:15
Ég stend bara við orð mín og tel að þær athugasemdir sem gerðar hafa verið hér í kerfinu dæmi sig sjálfar, bæði þær góðu og þær sem mér finnast ómálefnalegri. Málefnalegrar umræðu er þörf, það er eitt sem víst er, og við fáum fregnir í dag einmitt um það hvernig vinnubrögð ESB-stórríkja eru gagnvart litlu ríkjunum. Set saman sjálfstætt blogg um það þegar færi gefst.
Anna Ólafsdóttir Björnsson, 6.11.2008 kl. 16:32
Ef við ekki förum í ESB, hvað er þá hægt að gera?
Spyr sá sem ekki veit!
Edda Agnarsdóttir, 6.11.2008 kl. 16:41
Takk fyrir spurniguna, Edda, mér finnst svo ánægjulegt að fjalla um málið á jákvæðum nótum og með uppbyggingu í huga.
Við þurfum sannarlega að taka til í eigin ranni og það fyrsta er að fara yfir það sem fór úrskeiðis og setja undir lekann hvar sem hann er að finna. Fyrsti veikleiki tengist reyndar EES-samningnum, nýeinkavæddir bankar máttu stækka eins og þeir gerðu yfir höfuð þjóðarinnar, án þess að við mættum (skv. EES) sporna við þessum óeðlilega vexti. Undir þennan leka þurfum við að setja og nú er einmitt lag sem ekki var áður. Ef bankarnir verða einkavæddir á nýjan leik þarf að búa svo um hnútana að erlend starfsemi þeirra verði ekki á ábyrgð íslensku þjóðarinnar eins og nú. Það er erfitt út af EES, en mögulega er hægt að skilyrða sölu þeirra með einhverjum hætti.
Við eigum tvímælalaust að stefna að því að uppfylla skilyrðin fyrir Evru-upptöku vegna þess að við þurfum að lagfæra peningamálastefnu okkar - en á okkar forsendum. Þetta felur meðal annars í sér að ná niður verðbólgu og skera niður viðskiptahallann (sem ætti að ganga vel) en við höfum aldrei uppfyllt öll skilyrðin fyrir Evru-upptöku þannig að það er tómt mál að tala um að við myndum fljúga inn í það kerfi. Þurfum fyrst að vinna heimavinnuna okkar. Ekkert bendir til að krónan sé ábyrg fyrir okkar stöðu núna heldur er staðan ábyrg fyrir vondu gengi krónunnar.
Við erum vel sett utan ESB vegna þess að við eigum viðskipti við allar þjóðir, sem við gætum ekki gert ef við værum innan tollamúra Evrópusambandsins. Mjög mikilvægt er fyrir Íslendinga að geta beint viðskiptum sínum til Bandaríkjanna, Asíu og Rússlands og gefur okkur forskot á við Evrópusambandslöndin.
Með því að ráða sjálf yfir fiskveiðilögsögu okkar eigum við mikil sóknarfæri í fiskvinnslu og matvælaframleiðslu. Talað er um að við eigum möguleika á undanþágu í ESB, en það er ólíklegt og yrði aldrei varanlegt ástand.
Menntun þjóðarinnar, vinnukúltúr og sveigjanleiki á vinnumarkaði er meiri en algengt er í Evrópusambandslöndunum (sum þeirra standa okkur framar í menntun, önnur að baki). Atvinnuleysi er ekki hefð á Íslandi eins og í flestum Evrópusambandslöndum og það er auðlind sem hefur gagnast okkur vel og gerir það án efa þegar fer að rofa til. Atvinnuleysið í ESB er því miður ,,innbyggt" í hagstjórn Evrópusambandsins og við eigum að stefna hærra en í 20-30% atvinnuleysi ungs fólks.
Anna Ólafsdóttir Björnsson, 6.11.2008 kl. 19:07
Þvílíkt rugl.
"Við erum vel sett utan ESB vegna þess að við eigum viðskipti við allar þjóðir, sem við gætum ekki gert ef við værum innan tollamúra Evrópusambandsins. Mjög mikilvægt er fyrir Íslendinga að geta beint viðskiptum sínum til Bandaríkjanna, Asíu og Rússlands og gefur okkur forskot á við Evrópusambandslöndin."
Það mætti bara halda að það sé ekki stunduð nein utanríkisviðskipti í Evrópu. Þú vissir greinilega ekki að Þýskaland er mesta útflutningsþjóð í heiminum, ekki bara miðað við höfðatölu, heildar í heildarverðmæti. Telur hérna einhver virkilega að litla Ísland takist að semja um betri viðskiptasamninga en ESB?
"Með því að ráða sjálf yfir fiskveiðilögsögu okkar eigum við mikil sóknarfæri í fiskvinnslu og matvælaframleiðslu. Talað er um að við eigum möguleika á undanþágu í ESB, en það er ólíklegt og yrði aldrei varanlegt ástand." Þú þyrftir kannski að kynna þér skýrslu Evrópunefndarinnar. Sérlausnir eru mjög algengar og þær hafa sama lagalega gildi og stofnsáttmáli Evrópu, það er að segja sérlausnirnar eru varanlegar og hvert einasta ríki ESB þarf að samþykkja ef fella á þær úr gildi.
"Atvinnuleysið í ESB er því miður ,,innbyggt" í hagstjórn Evrópusambandsins og við eigum að stefna hærra en í 20-30% atvinnuleysi ungs fólks." Ertu með einhverjar tölur til að rökstyðja þetta? Maður heyrir hinar ótrúlegustu atvinnuleysistölur frá anti-ESB sinnum sem standast nánast aldrei skoðun og reikna ég með að það gildi það sama með þessa tölu hjá þér.
Jón Gunnar Bjarkan, 6.11.2008 kl. 19:16
Fyrirgefðu Anna en Jón Gunnar Bjarkan skrifaði:
"Það mætti bara halda að það sé ekki stunduð nein utanríkisviðskipti í Evrópu. Þú vissir greinilega ekki að Þýskaland er mesta útflutningsþjóð í heiminum, ekki bara miðað við höfðatölu, heildar í heildarverðmæti. Telur hérna einhver virkilega að litla Ísland takist að semja um betri viðskiptasamninga en ESB?"
Já, Jón Gunnar, litla Ísland spjaraði sig ágætlega þangað til litla Ísland reyndi að selja loftkastala. Hvað útflutning Þýskalands varðar, þá dugir ekkert minna en samanburðartölur (eins og þú nefndir) úr öllum heiminum til þess að sanna mál þitt.
ESB sem slíkt selur ekki neitt!
Kolbrún Hilmars, 6.11.2008 kl. 20:35
Hvað meinarðu samanburðartölur úr öllum heiminum? ESB selur ekki neitt? Hvað ertu að tala um?
Ef við vilt taka ESB ríki sem útflutning út úr ESB, þá er ESB að flytja út meira en nokkurt annað hagkerfi, t.d flytur út þó nokkuð meira en USA til dæmis.
Ef þú ert að meina að ESB sem stofnun sé ekki að flytja neitt út, þá er þetta frekar ömurleg tilraun hjá þér til að rugla umræðuna, það væri eins og ég mundi reyna halda því fram Ísland stundi ekki neinn útflutning því viðskiptaráðuneyti okkar sem slíkt flytji ekkert út.
Jón Gunnar Bjarkan, 6.11.2008 kl. 20:43
Jón Gunnar Bjarkan, ég gef mér að þú viljir ná árangri með máli þínu og hvet þig því til að vísa á heimild máli þínu til stuðnings. Það er sjálfsagt að rökræða við þig (ekki karpa) en til að það sé hægt verður þú að gefa upp heimildir. Stattu nú með sjálfum þér og sendu hér inn athugasemd þar sem þú vísar á vefsíðu máli þínu til stuðnings. Þú gerir þér vonandi grein fyrir því að gerir þú það ekki, þá er ekki annað hægt en að líta á orð þín sem haldlausar fullyrðingar.
Helga 6.11.2008 kl. 20:54
Hérna eru tölur sem sýna exports sem heildarverðmæti:
https://www.cia.gov/library/publications/the-world-factbook/rankorder/2078rank.html
Þýskaland flytur út 1354 milljarða dollara. Með því er talið útflutningur til ESB ríkja.
ESB sem slíkt flytur út fyrir ESB, það er að segja til Bandaríkjanna, Asíu og fleiri svæða 1330 milljarða dollara.
Kína kemur næst og flytur út 1220 milljarða, þar á eftir kemur USA með 1148 milljarða.
Maður er satt best að segja svolítið þreyttur á að þurfa leiðrétta allt sem anti-ESB sinnar kasta fram, aldrei virðast vera þörf hjá þeim til að rökstyðja neitt það sem þeir segja. Þegar kemur að atvinnuleysi í löndunum í kringum okkur t.d Bretland, Írlandi, Norðurlöndum, Hollandi, Þýskalandi og svo framvegis þá er verið að tala um atvinnuleysi á bilinu 3-9% í mesta lagi og er hægt að fletta þessu upp í CIA world fact book, Eurostat og OECD.
Jón Gunnar Bjarkan, 6.11.2008 kl. 21:19
Fleiri sem geta orðið æði þreyttir á að leiðrétta vitleysu - hef þó tekið að mér að leiðrétta ýmsa vitleysu Evrópusambandssinna. Læt það nægja í bili að vísa í nefnt Eurostats vefsvæði varðandi atvinnuleysistölur septembermánaðar, sem eins og sést á línuritum er fjarri því að vera með því versta sem þar hefur sést. Atvinnuleysi ungs fólks á Spáni og í Grikklandi er á seinasta mánuði/ársfjórðungi 25.9 % á Spáni (fyrir mánuðinn) og 21.4 í Grikklandi (fyrir 2. ársfjórðung). Skoðið skjalið hér:
http://epp.eurostat.ec.europa.eu/pls/portal/docs/PAGE/PGP_PRD_CAT_PREREL/PGE_CAT_PREREL_YEAR_2008/PGE_CAT_PREREL_YEAR_2008_MONTH_10/3-31102008-EN-BP.PDF
Varðandi vöruútflutning þá er auðvelt að sýna fram á heildarútflutningstölur Evrópusambandsins - auðvitað flytja þjóðirnar út til annarra landa þá vöru sem þær ekki geta selt á ESB-svæðinu, til dæmis vopn sem eru umfangsmikill útflutningur út fyrir Evrusvæðið. Það sem VANTAR í þessar tölur er niðurbrot eftir vöruflokkum og hvaða vöruflokkar eru háðir miklum tollahindrunum. Vel þekkt er að landbúnaðarvörur (sem fiskur telst til) er háður miklum tollahindrunum, og reyndar þurfum við Íslendingar að sæta þeim núna, af því landbúnaður er ekki hluti af EES (nema þær landbúnaðarvörur sem eru skilgreindar sem iðnaðarvörur). Við yrðum að sæta regluverki ESB innan þeirra tollamúra, en erum laus við það enn, þótt við séum hluti af EES. Þetta er bara dæmi, og í þessum málum myndum við ekki ráða ferðinni.
Það er bráðnauðsynlegt - en þjónar ekki hagsmunum ESB-sinna - að svona upplýsingar, nákvæmar, réttar og þær sem máli skipta, séu settar upp á borðið. Annars endum við með ástandið að okkur líði að meðaltali bara ágætlega, ef við erum með annan fótinn í sjóðandi vatni og hinn í klakavatni.
Anna Ólafsdóttir Björnsson, 6.11.2008 kl. 22:14
Atvinnuleysi á Íslandi er mismunandi milli landshluta og þannig er það líka í ESB-löndum að atvinnuleysi er mismunandi milli landshluta og svo auðvitað mjög mismunandi milli ESB-landa.
Þar sem við erum nú þegar hluti af fjórfrelsinu opnast ekki fyrir neitt nýtt vinnuafl til Íslands með ESB-aðild. Það eru því engin rök fyrir því að atvinnuleysi einhversstaðar annarstaðar í ESB valdi frekar auknu atvinnuleysi hér eftir ESB-aðild en er nú. Hinsvegar mætti færa rök fyrir því að aðild og sérstaklega upptaka evru geti aukið vilja til atvinnuskapandi fjárfestinga á Íslandi og því styrkt atvinnustigið hér, þ.e. dregið úr atvinnuleysi.
Engin rök eða skynsemissjónarmið styðja staðhæfingu þessa fólks að ESB-aðild geti aukið atvinnuleysi hér. Flæði vinnuafls er þegar frjálst frá ESB-löndum og hefur verið í yfir 10 ár og það breytist ekki hætings hót til eða frá við aðild.
- Enn ein rakalaus Grýlan frá ESB-höturum, sami draugur reyndar og sendur var á kreik í bæði aðdraganda EFTA-aðildarinnar og EES-aðildarinnar. Þetta eru alltaf sömu lygidraugarnir hjá sama fólkinu.
Helgi Jóhann Hauksson, 7.11.2008 kl. 02:05
Anna, um fyrsta innlegg mitt þá er „ÓTTINN“ tilvísun til þinna orða um ÓTTANN sem tæki Evrópusinna þegar því er einmitt öfugt farið að alþekkt er að fólk leitar öryggis í því sem það hefur þekkt frá bernsku og hafnar breytingum ef ótta en þarf djörfung og skynsama yfirvegun til að þora að breyta. Afturhaldssemin er tæki óöryggisins og ÓTTINN er allstaðar á öllum tímum verkfæri þeirra sem vilja ala á afturhaldssemi og afturhvarfi.
Af sama toga eru ásakanir ykkar í garð þess fyrirhyggjusama fólks sem þorað hefur lengi að tala fyrir ESB-aðild og upptöku evru þrátt fyrir linnulausar og rakalausar ásakanir og dylgjur um „landráð“, „svik“, „heimsku“, „trúboð“ og allar aðrar gerðir af illum tilgangi.
- Það hefði verið vitinu meira að fara að þeirra ráðum strax fyrir mörgum árum. Það eruð þið ÓTTA-fólkið sem notið ÓTTANN sem ykkar afturhalds-vopn og berið ábyrgð á að við erum nú að kosta öllu til við að reyna bjarga krónunni í stað þess að vera með evru og geta snúið okkur beint að uppbyggingunni.
Helgi Jóhann Hauksson, 7.11.2008 kl. 02:24
Anna, þú ert eitthvað að reyna útskýra háan útflutning ESB með því hvað eru miklir tollar þar á landbúnaði. Hvað í ósköpunum kemur það málinu við? Maður hefði nú haldið að tollar séu lagðir á innflutning ekki útflutning.
En út af því þú talar um tolla á landbúnaðarvörur, þá veit ég ekki betur en að Ísland haldi úti hæstu landbúnaðartöllum í Evrópu(er reyndar ekki með þær tölur á hreinu), og svo eins og kom fram í úttekt fyrir tveim árum hjá OECD þá eru styrkir til landbúnaðar hæstir í Evrópu einmitt a Íslandi, en samt er verðlagning á í Íslenskum landbúnaðarvörum miklu hærri en annarstaðar í Evrópu alveg eins og með aðrar neysluvörur.
Jón Gunnar Bjarkan, 7.11.2008 kl. 06:29
Viðskiptahindranir eru bæði notaðar í innflutningi og útflutningi og tollamúrar eru einn helsti galli Evrópusambandsins. Varðandi óttann þá fer held ég ekkert á milli mála að þeir sem keyra mest á óttann séu ESB-sinnar, ef við losum okkur ekki við krónuna .... ef við göngum ekki í ESB ... o.s.frv. Kunnuglegt?
Anna Ólafsdóttir Björnsson, 7.11.2008 kl. 20:45
Anna, Jón Bjarkan og Helgi Hauksson hafa farið hamförum á bloggsíðum yfirlýstra and-ESB sinna síðasta sólarhringinn. Jafnt nótt sem dag.
Það er hrein orkusóun að svara þeim, enda er leikurinn eflaust til þess gerður að koma í veg fyrir vitræn skoðanaskipti þeirra hógværu og varkáru.
Kunnugleg aðferð áróðursmeistara? JÁ.
Kolbrún Hilmars, 7.11.2008 kl. 21:25
Verð að viðurkenna að mig rekur í rogastans að sjá þennan málflutning hérna. Við búum við gjörspillt stjórnkerfi, steinsofandi ríkisstjórn og ónýtan seðlabanka. Við erum með ónýtan gjaldmiðil sem enginn í viðri veröld hefur nokkurn áhuga á að púkka uppá. Hvernig í ósköpunum ætlar fólk að byggja upp landið án þess að stokka upp spilin? Haldið þið að það sé tilviljun að það finnst ekki einn einasti hagfræðingur til að mæla með krónunni sem framtíðarmynt? Það er búið að keyra þjóðfélagið í þrot með þessu hugarfari að Ísland sé best og við kunnum allt og vitum miklu betur en aðrir. Hvernig væri nú að horfa framan í staðreyndir málsins og viðurkenna að krónan er ónýt og við getum ekki haldið úti okkar eigin mynt nema með stórkostlegum tilkostnaði? ESB er örugglega ekki einhver himnasæla, en ég sé bara ekki hvernig við hefðum getað klúðrað okkar málum svona stórkostlega ef við hefðum verið þar inni með evruna sem okkar mynt. Og já, 3-5% óverðtryggðir vextir svo dæmi sé tekið, er nokkuð sem ég held að flestir Íslendingar tækju fagnand í 18% stýrivaxtaokrinu.
Ekki veitir af að hreinsa til í þessari ormagryfju sem gengur undir heitinu stjórnkerfi á þessu skeri og ég held að það sé óhjákvæmilegt að við fáum útlendinga með okkur í þá gífurlegu vinnu að reyna að koma upp fagmennsku í stjórnkerfinu í stað þess að menn dilli stöðugt vinum og frændum.
Hólmfríður Gestsdóttir 7.11.2008 kl. 23:53
Ef það er einhver lexía sem við ættum að hafa lært í þessari orrahríð, þá er það sú lexía að ,,lengi getur vont versnað". Við megum ekki stíga nein skref sem skaða okkur meir.
Anna Ólafsdóttir Björnsson, 9.11.2008 kl. 17:59