Vinsamlegast látið mig vita hvernig þetta fer ...
8.10.2008 | 16:01
Ótrúlega einkennilegt að vakna snemma á morgnana hér í New Mexico, eins og ég hef gert að undanförnu, og lesa allar fréttirnar að heiman, þar sem komið er vel fram yfir hádegi. Þetta er svolítið seinlegt, en óhjákvæmilegt. Kíkja svo í heimabankann (Glitni ennþá) og borgar sínar skuldir, kíkja á gengið og komast að þeirri niðurstöðu að best sé að treina dollarana sem ég tók út á flugvellinum 2. okt. aðeins lengur, þótt ég sé ekki áhyggjufull, þar sem ég er komin í hinar fullkomnu nurlarastellingar, þá vil ég heldur ekki haga mér heimskulega. Það væri heimskulegt, ekki satt? Í faðmi rosalega umhyggjusamrar fjölskyldu minnar hér væsir reyndar ekki um mig, síður en svo. Hef smá móral af því að vera ekki heima til að sýna samkennd, en ég geri það gegnum netið með ýmsum hætti í staðinn.
En mér leikur forvitni á að heyra hvað þið, kæru bloggspekingar, haldið að gerist á næstunni. Svo oft er búið að ,,leysa" málið og svo í seinustu kvöldfréttum er það borið til baka og í morgunfréttunum ríður holskeflan yfir, um ellefu leytið er stundum betra hljóð í mannskapnum en um þrjúleytið (allt að ykkar tíma) frekar dauft hljóðið, skárra eftir fjögur og svo aftur sama hringinn. Svo sem sagt endilega látið mig vita hvernig þetta fer:
Hvert verður gengi dollara og evru þegar allt róast?
Mun einhvern tíma ,,allt róast"?
Ef allt róast einhvern tíma, hvenær verður það?
Fáum við rússneska lánið?
Í gær ætluðu allir að hjálpa okkur, í dag eru allir vondir við okkur, hvort verður ofan á, eða blanda?
Og, þótt spurningarnar að framan séu í smá hálfkæringi, þá er þessi sett fram af mikilli alvöru: Hvernig verður hægt að hjálpa þeim sem fara verst út úr þessu, missa atvinnu og eiga ekki fyrir skuldunum?
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:07 | Facebook
Athugasemdir
Var það ekki sveitungi minn í Gljúfrasteini, sem einhvern tíma sagði um álíka spurningu: Þetta fer allt einhvern veginn, þó manni þykir það ótrúlegt meðan það er.
Ég held að þetta sé eina vitræna svarið eins og er, Anna mín.
Hangdu sem lengst á dollurunum sem þú átt og ef þú þarft að efna þér í fleiri er svo að sjá sem vitlegra sé að taka þá út af Mastercard en Visa -- amk. eins og málin stóðu síðast þegar ég heyrði.
Sigurður Hreiðar, 8.10.2008 kl. 19:41
Takk fyrir það, Sigurður, ég er búin að læra að tékka á genginu á MC, sem ég er nýlega búin að skipta yfir í, og American Express er á sama gengi, og þar safna ég vildarpunktum, eins og þeim sem ég er að ferðast fyrir núna. Hún Hanna mín í Ungverjalandi er með þetta allt á tæru, og það má vel vera að ég taki smá út á debetkortið núna á meðan gengið er þetta hagstætt, en ekki verður það mikið, því nú er bara að nurla, og nurla og nurla, og ég nýt þess bara ágætlega ;-) - því þótt maður lifi hitt af þá er bara aldrei gaman að gera umtalsverðar vitleysur.
Anna Ólafsdóttir Björnsson, 8.10.2008 kl. 20:06