Daginn eftir kvöldið á undan ... (og ein viðbót um magnaðan seið)
13.9.2008 | 22:41
Veit einhver hvaðan setningin ,,the day after the night before" er komin? Google vinur minn tengir þetta við timburmenn og fleira óskemmtilegt, en líka ýmislegt hvert úr sinni áttinni, þannig að ég er aldrei þessu vant litlu nær. Mér finnst þetta alltaf svo flott setning, en vil gjarnan að hún eigi sér skemmtilegri skírskotun. Dagurinn í dag hefur verið svona dagur, án timburmanna þó. Hef sem sagt verið talsvert í símanum að endurlifa gærkvöldið og spennuna í Útsvarinu gegnum lífsreynslu annarra. Svo var ég reyndar sofnuð í sófanum þegar Ari setti endursýninguna á Útsvari á og þá fyrst gerði ég mér grein fyrir hversu erfiður þessi þáttur hefur verið fyrir þá sem héldu með okkur Álftnesingunum. Reyndar fínt að horfa á hann þegar maður veit hvernig fór. Ara fannst það líka ;-)
Ég verð eiginlega að upplýsa það að Álftnesingurinn Margrét Pála Ólafsdóttir, sem var gestur í Kastljósi, og þar af leiðandi í sminkinu líka, sagðist hafa magnað seið okkur til handa, miðað við gang þáttarins þá virkaði hann, takk! Margrét Pála er í miklu uppáhaldi hjá mér og hefur lengi verið og ég fékk það skemmtilega hlutverk fyrr á árinu að taka viðtal við hana, sem var auðvitað púra ánægja. Óska henni velfarnaðar með allt hennar skólastarf og frumkvöðlahlutverk.
En það er ýmislegt fleira verið að gera núna, ég er að undirbúa ágætis lotu í tilverunni, koma Sandgerðissögu í prentun og leggja lokahönd á enskan texta sem ég er að skrifa fyrir Álftanes. Og svo styttist í Ameríkuferðina og ég var að heyra í Nínu systur, sem er alltaf gaman, eftir að hafa verið að kjafta við Elísabetu systur lengi vel í dag. Miklar pælingar í gangi eins og alltaf.
Svo er ég búin að fá að vita að fyrsta vikan í skólanum hjá Hönnu þessa önnina var bara alveg ágæt, sem er ákveðinn léttir, því ég veit að sennilega er þetta strembnasta önnin á skólaferlinum hjá henni. Þar sem ég var rétt búin að átta mig á því að Óli er búinn að bóka ansi stíft á sína önn, þá var þetta auðvitað að bera í bakkafullan lækinn, en mér finnst samt aðeins auðveldara að vera innan seilingar fyrir hann, ég meina, ég get alla vega lesið yfir ritgerðir, en minna gagn að senda á mig einhverjar læknisfræðiglósur. Ég var lengi að átta mig á því hvað er skrýtið, það er að ég er ekki byrjuð í skólanum (reyndar einn myndlistarskúrs framundan).
Sem sagt, dagurinn eftir kvöldið áður er að kvöldi kominn og ég get ekki hreykt mér af miklum afköstum (kannski er fullt eftir að deginum samt, en að mér læðist syfja og það allt of snemma).
Athugasemdir
Sammála, best að horfa á svona spennandi þætti þegar maður veit hvernig fór!!!
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 13.9.2008 kl. 23:09
Ég sem kíki næstum alltaf aftast í bækur ... passar vel að skoða endursýningar, svona undir öðrum kringumstæðum alla vega. En reyndar sleppti ég því einu sinni að kíkja aftast í bók, og það var bók sem ég var að þýða. Óneitanlega svolítið spes að þýða bók með þeim hætti, útheimti smá aukavinnu þegar betra hefði verið að vita það sem á eftir kom til þess að velja besta (af mörgum) orðum til þess að skila ákveðinni tvíræðni ;-) en það var þess virði.
Anna Ólafsdóttir Björnsson, 13.9.2008 kl. 23:18
Við erum andlega skyldar Anna. Ég les nánast alltaf endirinn nokkuð snemma.
Jenný Anna Baldursdóttir, 14.9.2008 kl. 09:16
Já, þú ert algjör dugnaðarforkur.
Gangi þér vel, og góða skemmtun í myndlistarskólanum, en spennandi!
Sx
Soffía Gísladóttir, 14.9.2008 kl. 13:16
Ekki spurning að þetta er sérstakur þjóðflokkur sem kíkir aftast í bækurnar ... og þorir að segja frá því ;-)
Myndlistarnámskeið framundan, það er einmitt sparkið sem mig vantar til þess að koma mér af stað núna, og ég hlaaaaakkkkkkkkaaaaa svo til!
Anna Ólafsdóttir Björnsson, 14.9.2008 kl. 16:25
Sæl Sigurbjörg! Já, núna er þetta allt að gerast, við bættum aftan við söguna þannig að nú spannar hún 100 ár, 1907-2007, það var mikill áhugi á því, svona á lokasprettinum. Kveðjur í fallega hverfið þitt, Anna
Anna Ólafsdóttir Björnsson, 14.9.2008 kl. 22:27