Þá er að rjúfa þögnina (mína) um Söruh Palin
8.9.2008 | 20:41
Ég hef ekki sagt stakt orð um Söruh Palin, þótt mér séu forsetakosningarnar í Bandaríkjunum hugstæðar, enda mikilvægt að koma Bush frá. Okkur feministum er oft legið (ranglega) á hálsi fyrir að vilja fá konur í allt ,,bara af því að þær eru konur" eins og oft er sagt. Það er mikill misskilningur. Það var Hannes Hólmsteinn, en ekki feministar, sem hyllti Margréti Thatcher á sínum tíma. Og ég held að hann hafi ekki verið að hylla hana ,,bara af því hún er kona" enda ekki grunaður um neinn umtalsverðan feminisma. Mér finnst reyndar komment í viðtali sem ég tók við ofurskemmtilegan, enskan feministaleikhóp, Clapperclaw, segja allt sem segja þurfti um Margréti Thatcher: She MAY be a woman but she is not a sister!
Og þá er það Sarah. Ég ákvað að gefa henni sjans þegar ég heyrði fyrst af henni. Vissi ekkert um konuna og var tilbúin að bíta í það súra epli að McCain hefði verið sá slyngi refur að finna ómótstæðilegt varaforsetaefni. Það hefðir verið slæmt fyrir okkur sem viljum ekki framhald á veldi repúplikana. En nú hef ég heyrt smávegis frá Söruh sjálfri, hún er vel máli farin, sem er ekkert furðulegt, merkilegra hversu langt sumir (mið)aldraðir, hvítir karlar komast án þess að vera kjaftfærir. Hins vegar eru þau gildi sem hún stendur fyrir ekki fýsileg að mínu mati, á móti valfrelsi kvenna þegar kemur að fóstureyðingum, hlynnt byssueign og á móti spillingu annarra en ekki endilega í eigin ranni, ef marka má fréttir. Þannig að þótt hún sé kona, mjög frambærileg og án efa mjög hæf, þá er ég ekki sátt við að skoðanir hennar nái brautargengi. Mér er hins vegar slétt sama um óléttu dóttur hennar, mér kemur það bara ekkert við hvort hún ætlar að giftast barnsföður sínum eða ekki. Vona samt að ef hún gerir það verði það af réttum ástæðum, ekki vegna einhvers óeðlilegs þrýstins íhaldssamra repúplikana.
Þannig að sorrí, ég verð að halda með framboði karlanna tveggja, vissulega held ég að demókratar væru betur settir núna ef Hillary væri í fararbroddi, en ég er afskaplega sátt við Obama og vil hann endilega sem næsta forseta Bandaríkjanna, það væri svo sannarlega heillaspor. Og ég vona innilega að hann muni að vera ötull talsmaður fyrir feminisma, ekki veitir af og ég veit að það er fullt af góðu fólki í kringum hann sem mun halda honum við efnið.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:25 | Facebook
Athugasemdir
Það sem truflar mig mest við Palin er einmitt meðganga dóttur hennar. Frá mínum bæjardyrum séð er erfitt að halda því fram að þetta barn fái að taka sína eigin ákvörðun um það hvort hún mun eiga afkvæmi núna eða ekki. Framboð móðurinnar hreinlega leyfir ekki að hún fari í fóstureyðingu, sem margir myndu telja hina einu réttu ákvörðun fyrir ungling. Hjónaband er bara hlægileg hugmynd, hvar eru barnaverndaraðilar Bandaríkjanna núna. Rumska þeir aðeins þegar um innflytjendur af múhammeðskum uppruna er að ræða.
borghildur Anna 8.9.2008 kl. 22:47
Hvers vegna skrifaði ég ekki þennan pistil þinn, Anna mín? Ég held ég geti tekið undir allflest og örugglega það sem snýr að bandarísku kosningunum. Og ég tek líka undir með Guðlaugu Helgu.
Kv. í bæinn
Sigurður Hreiðar, 8.9.2008 kl. 22:48
"Þannig að þótt hún sé kona, mjög frambærileg og án efa mjög hæf,"
Af hverju fara margir í hópi okkar feminista svona mildum höndum um Söru Palin? Las svipað úr annars mjög læsilegu bloggi Silju Báru. Hæf til hvers? Að vera Forseti Bandaríkjanna? Fundamentalisti sem þar til fyrir tveimur árum var bæjarstjóri Kópaskers?
Mér finnst alveg hreint hörmulegt að hugsa til þess að þessi kona geti mögulega átt eftir að verða Forseti USA. Það að McCain valdi hana segir okkur kannski eittvað um fljótfærni og undarlegt ákvarðanatökuferli hans og flokks hans.
Skeggi Skaftason, 8.9.2008 kl. 23:10
;)
Aprílrós, 8.9.2008 kl. 23:10
Ágætur pistill úr NYTimes hér, sem m.a. segir þetta:
We still don’t know a lot about Palin except that she’s better at delivering a speech than McCain and that she defends her own pregnant daughter’s right to privacy even as she would have the government intrude to police the reproductive choices of all other women.
Skeggi Skaftason, 8.9.2008 kl. 23:13
Sammála.
Jenný Anna Baldursdóttir, 8.9.2008 kl. 23:48
Gaman að fá þessa umræðu hér í kjölfarið á þessum pistli. Sigurður, við höfum áður skrifað saman texta, ef þú ert sammála þá áttu hann bara með mér ;-) Ástæðan fyrir því að mér finnst mér ekki koma við ólétta dóttur hennar er einfaldlega sú að mér finnst við vera að kássast of mikið uppá prívatlíf fólks, bæði ,,stjarnanna" og stjórnmálamanna og ég er hreinlega ekki sammála því. Hvort sem Sarah hefði ,,leyft" dóttur sinni að fara í fóstureyðingu þvert á yfirlýsingar (og með leynd) eða bannað henni það, sem ég tel líklegra, ef hún hefði ekki verið varaforsetaefni, þá finnst mér það vera annar slagur, sem líka er sjálfsagt að taka, en ekki einkunn um frambjóðandann Söruh. Og Gulla, rosalega eru þetta góðir punktar!
Anna Ólafsdóttir Björnsson, 9.9.2008 kl. 01:01
Hún er stórhættulegur ofurkrissi sem dreymir um það eitt að leggjast í rúmið með hinni heilögu þrenningu.
DoctorE 9.9.2008 kl. 07:24
Kannski hefur enginn sem þátt tekur í þessum færslum horft á ræðu Palin. Í upphafi kynnti hún fjölskyldu sína og þar á meðal umrædda ólétta dóttur. Stúlkan stóð þar upp og leyfði viðstöddum að berja sig augum. Það var enginn heimóttargangur eða skömm í fari þessarar stúlku. Hún stóð hnarreist og stolt og ekki var að sjá að hún hafi verið kúguð til neins, eins og gefið er hér í skyn.
Frjálst val snýst ekki bara um að nýta sér réttinn til að eyða lífi, frjálst val snýst ekki síður um réttin til að standa vörð um líf.
Ragnhildur Kolka, 9.9.2008 kl. 10:35
Ég get að miklu leyti verið sammála þessum pistli. Auðvitað á ekki að kjósa konur af því að þær eru konur. Það eru einstaklingar í framboði (en auðvitað skiptir stefnuskrá flokkanna líka máli) og kjósendur velja þá sem þeim líst best á og þeir telja hæfasta.
Í raun er þessi pistill einhver bestu rök gegn kynjakvótum sem ég hef lesið um nokkurn tíma. Það er ekki rökrétt að kjósendum sé gert að kjósa ákveðið hlutfall af öðru hvoru kyninu, heldur eiga skoðanir kjósenda að ráða.
G. Tómas Gunnarsson, 9.9.2008 kl. 14:05
Það er mikil lenska hjá sumum að kenna femínistum um hluti sem þeir eiga ekkert í. Alveg sammála þessum góða pistli þínum. Held með Obama!
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 9.9.2008 kl. 14:49
DITTO!
Ingibjörg Friðriksdóttir, 9.9.2008 kl. 14:56
Sammála flestu hér. Palin er lítið annað en hrokafullt nutcase (semsagt Repúbliki) og hvað segir þetta val McCain á henni um hann? Hann tekur óyfirvegaðar skyndiákvarðanir og ég get rétt ímyndað mér að það flytjist vel yfir á utanríkisstefnu hans. Það er svo alger firra fyrir hægri menn á Íslandi að vera svo aumir fyrir McCain og Palin þegar þau eru í raun lengra frá þeim í skoðunum en Obama. Allt þetta tal um right wing og left wing í Bandaríkjunum er svo langt frá þeirri hugtakanotkun í Evrópu að ekki er mark á því takandi. Eini maðurinn sem er skiljanlega fylgjandi Palin á Íslandi miðað við þær skoðanir sem hyggur hann hafa er Jón Valur Jensson og ætti það að hafa fælandi áhrif á hvern þann Íslending sem telur sig viti borinn.
Hvað kosningarnar sjálfar varðar þá snýst þetta eins og vanalega um nokkur fylki...þá sérstaklega Ohio, Florida og Nevada að mér skilst. Ég hef nú áður mælt með síðunni www.pollster.com og tel ástæðu til að gera það aftur. Það sem ég óttast mest er að þetta verði álíka tæpt og árið 2000 og þá eru Repúblikar líklegir til að hirða þessar kosningar sama hver raunveruleg niðurstaða þeirra verða.
Pétur Fannberg Víglundsson, 9.9.2008 kl. 15:54
Mér er slétt sama hver verður forseti í lýðveldinu þarna fyrir vestan, ég er nefnilega konungssinni.
Emil Örn Kristjánsson, 9.9.2008 kl. 16:30
Sæl. Mér finnst þessi pistill þinn góður og vel skrifaður. Ég hefði helst viljað sjá Hillary taka þetta því mér finnst frekar ólíklegt að hún reyni aftur. Obama á framtíðina fyrir sér ungur maðurinn. Ég er reyndar ánægð með að Sarah komist þetta langt því þó hún sé með ömurlegar skoðanir þá er alveg víst að einhver karl sem hefði vermt þetta sæti hefði verið með þær líka. Ég vil sjá veg kvenna sem mestan í pólitík burtséð frá mínum eigin skoðunum. Ég myndi þó ekki kjósa bara til að koma henni að en það gera þeir sem eru á sömu línu og þau McCain. Kveðja Kolla.
Kolbrún Stefánsdóttir, 9.9.2008 kl. 17:19
Reyndar dreymir mig um að fá fleiri konur til starfa og hef unnið að því, en það er ekki ,,bara af því þær eru konur" heldur vegna þess að margar konur hafa sömu sýn og ég á málin og rödd sem mér finnst þurfa að hljóma. Sarah Palin er gott dæmi um að það sé ekki nóg að vera kona til þess að hafa slíka sýn.
Anna Ólafsdóttir Björnsson, 9.9.2008 kl. 17:39
ég er mjög sammála þér. ég hef lesið slatta um söruh og það virkar ekki vel á mig ! en ég hef verið stuðningsmaður obama frá upphafi.
þetta verður spennandi.
Kærleikur til þín
steinaSteinunn Helga Sigurðardóttir, 9.9.2008 kl. 18:41
Ég hefði viljað Hillary ... en fyrst Obama vann, þá vil ég sannarlega að hann vinni. Það sem McCain og Palin standa fyrir er afturhaldssemi, og þrátt fyrir að McCain segist vilja breytingar þá er hann gamalt handbendi Brúsksins og herstefna US myndi halda áfram í gegnum hann, að vera alheimslögga.
Besta fannst mér yfirlýsingin um að McCain viti hvað til þarf til að handsama Osama. Nú, ef maðurinn er lifandi ... af hverju þá ekki að handsama hann strax? Af hverju að bíða? Aumt kosningaloforð í mínum huga.
Og gildi Palin hvað varðar spillingu og mótstöðu gagnvart fóstureyðingum ... það finnst mér alvarlega slæmt. Sjáið til dæmis nýja frétt um dagpeninga sem greiddir voru til Palin í rúmlega 300 daga þrátt fyrir að vera bara heima. Þegar nýjabrumið er komið af framboðinu hennar ... þá vona ég að McCain og hún dragist afturúr í skoðanakönnunum og á endanum verði undir. En hræðsluáróðurinn með hjálp Brúsksins er öflugt tæki. Brúskurinn er handbendi hins illa.
Áfram Obama.
(sko, mér fannst pistillinn þinn góður... bara ef þú hefðir ekki náð því )
Doddi - Þorsteinn G. Jónsson 9.9.2008 kl. 19:25
Sammála
Ef að þetta land fer ekki að losa sig við repúblikana þá er framtíðin ekki björt!
Því segi ég eins og Doddi "Áfram Obama!"
Sporðdrekinn, 9.9.2008 kl. 19:40
Með andstöðu sinni við fósturdeyðingar á Sarah Palin, ef Guð lofar, eftir að auka valfrelsi milljóna kvenna í Bandaríkjunum, þar sem um 2/3 milljónar meyfóstra endar nú tilveru sína árlega á skurðarborðum hinna réttlátu, hugsjónaríku ofurlaunalækna sem taka verkið að sér.
Það kemur mér ekki á óvart, að í þessum pistli eins og ýmsum fleiri frá ykkur vinstrimönnum / femínistum / kúltúrlíberölum vantar að mestu eða öllu leyti tilvísanir í bein ummæli Söru Palin – þær blasa nú ekki beinlínis við gæsalappirnar í þessum pistli þínum, Anna (nema á einum stað, en það er ekki tilvitun til Palin).
Þetta gerir það um leið eðlilegt, að svo virðist sem þú (sagnfræðingurinn sjálfur, alvanur heimildavinnu) hafir gleymt að kynna þér almennilega heimildir um afstöðu Palin til mála og verk hennar ... "á móti spillingu annarra en ekki endilega í eigin ranni," segirðu, orðar það ískyggilega, en hún hefur einmitt eins og McCain beitt sér gegn spillingu í eigin flokksranni og dregið úr sóun á ríkisstjóraskrifstofunum, og hún beitti sér gegn víðtækri spillingu í olíugeiranum sem komið hafði niður á skattborgurum í Alaska.
Sarah Palin er fylgjandi dauðarefsingu grófra raðmorðingja, það er ein leið hennar til að reyna að verja saklaust fólk í samfélaginu.
PS. Ég hef nú ekki orðið var við baráttu þína gegn byssueign hingað til.
Jón Valur Jensson, 9.9.2008 kl. 20:02
Gáfuleg umræða atarna ... framúrskarandi gáfuleg. Minnir á fátt meira en óráðshjal vínsósa kaffihúsaalkóhólista.
Jóhannes Ragnarsson, 9.9.2008 kl. 20:44
Ha nei nei..hún misnotar ekkert skattfé. Til gríðarlegrar fyrirmyndar þar:
http://www.washingtonpost.com/wp-dyn/content/article/2008/09/08/AR2008090803088.html
Svo er hún verulega umhverfisvæn:
http://www.independent.co.uk/news/world/americas/palin-the-real-scandal-920803.html
Og telur að gróðurhúsaáhrifin séu ekki af mannavöldum:
http://www.newsmax.com/headlines/sarah_palin_vp/2008/08/29/126139.html
By the way....þar sem frjályndir og "vinstri sinnaðir" (sem eru líklegast allir aðrir en ofurkristnir fábjánar í þessu sambandi) eru gríðarlega liberal þegar kemur að einkalífi fólks þá finnst okkur auðvitað sjálfsagt mál að Palin sé látin í friði hvað varðar óléttu dóttur hennar. Það kemur bara engum öðrum við eins og Obama sagði meira að segja sjálfur. Ég býst þá við því að ef að Palin kemst til valda að hún láti af því að skipta sér af því sem fólk gerir innan veggja eigin heimilis eins og Repúblikar eru vanir að gera eða hvað? Annað væri væntanlega hroki...en maður er svo sem vanur því frá þessu fjárans hyski.
Pétur Fannberg Víglundsson, 9.9.2008 kl. 22:04
Já, eflaust skiptir hún sér ekkert af því, hvað fólk gerir innan veggja eigin heimilis, en hinu máttu treysta, Pétur Fannberg, að vilji Söru Palin stendur ekki til þess, að alríkið stuðli af fósturdrápum í milljónavís, enda er það ekkert "einkamál kvenna", heldur varðar bæði [nr. 4] hagsmuni ríkisins og þó umfram allt [nr. 1] mannréttindi hinna ófæddu og lífsgildi þeirra, sem og [nr. 2] andlegt og líkamlegt heilbrigði kvenna, auk [nr. 3] réttinda feðra til barna sinna.
Jón Valur Jensson, 10.9.2008 kl. 00:18
Sarah Palin vill kynna sköpunarsöguna í skólum, sem væri fyndið ef það er ekki svona ægilega sorglegt :) Það segir meira en margt annað um þá ágætu konu.
Óli Jón, 10.9.2008 kl. 01:11
Hvaða voðaleg skoðanafasismi er í gangi hér? Hvað er svona óskaplega sorglegt við að kynna sköpunarsöguna í skólum? Á bara að jarða það fólk lifandi sem leyfir sér að trúa því að æðri máttarvöld standi á bak við sköpun heimsins? Er trú þeirra og lífskoðun komin á bannlista? Hvílíkur hroki!
Við hlæjum í dag að forfeðrum okkar sem trúðu því að jörðin væri flöt. Hvað vitum við nema afkomendur okkar, eftir einhverjar aldir, eigi eftir að brosa að fávizku okkar sem töldum þróunarkenninguna, stórahvells-kenninguna og afstæðiskenninguna vera sannar og réttar?
Svo ætla ég að leyfa mér að segja að ég ber virðingu fyrir ungu konunni Bristol Palin. Það er ekki auðvelt fyrir svo unga stúlku að taka ábyrgð á, að ég tel, svo ótímabærri þungun. Mér þykir það líka bera vott um grimmd og fordóma hvernig fjallað hefur verið um hana á þessum vettvangi. Ég gef mér að ákvörðunin hljóti fyrst og síðast að vera hennar.
Mér er samt slétt sama hver verður kosinn forseti í lýðveldinu þarna fyrir vestan. Ég er nefnilega konungssinni.
Emil Örn Kristjánsson, 10.9.2008 kl. 11:12
Þetta er fjörleg og á köflum mjög skemmtileg umræða, takk fyrir þátttökuna.
Anna Ólafsdóttir Björnsson, 10.9.2008 kl. 12:48
Ef það er fasismi að krefjast lágmarks vísindalegra forsendna fyrir því sem kennt er eða kynnt í skólum, þá er ég líklega fasisti. Ef ágætur Emil Örn vill kynna sköpunarsöguna fyrir sínum börnu, þá er honum það auðvitað frjálst, en það merkir ekki að sú vitleysa eigi erindi inn í skólana.
Það má vel vera að í framtíðinni komi eitthvað einhver ný gögn fram sem sýna að sköpunarkenningin sé rétt og þ.a.l. þróunarkenningin röng ásamt fjölda annarra kenninga. Við getum hins vegar ekki kynnt alla möguleika í skólum, sama hversu fjarstæðukenndir sem þeir eru, af því að þeir geti hugsanlega einhvern verið sannaðir. Ef svo er, þá krefst ég þess að mega kynna í skólum álfinn Snjólf sem býr við tjörnina í Seljahverfinu. Ég vil fá a.m.k. eina kennslustund vikulega í hverjum grunnskóla til að fara yfir álfafræði, enda er ég þess fullviss að í framtíðinni muni tilvist álfa verða rækilega sönnuð.
Þetta er mín bjargfasta trú eftir að Snjólfur birtist mér í draumi og þess vegna á ég rétt á því að gera þetta. Ef einhver vanvirðir mína trú, þá er hann bara fasisti!
Skólastarf á að byggja á vísindalegum grunni. Það eru engar vísindalegalegar forsendur sem styðja sköpunarkenninguna. Því á hún ekkert erindi í skólana. En það vill, svo við komum að efni þessarar greinar, Sarah Palin!
Skynsemi eða ekki? Svarið er augljóst í mínum (fasíska?) huga!
Óli Jón, 10.9.2008 kl. 13:11
Óli Jón, viltu vera svo vænn að skilgreina "lágmarks vísindalegar forsendur"? Ég bendi um leið á að guðfræði er líka talin til vísinda, rétt eins og málvísindi og sagnfræði og ýmislegt annað sem ekki verður sannað með jöfnum og útreikningum.
Sú sköpunarsaga, sem ég held að við séum báðir að ræða um, hefur um langan aldur verið talin útskýring á hérvist okkar af stórum hluta mannkyns (ath. ég sagði ekki meirihluta), ólíkt trú þinni á álfinn Snjólf, sem mér finnst frekar óþroskað innlegg í þessa umræðu. Þessi sköpunarsaga hefur auk þess verið ríkjandi í okkar heimshluta og á okkar menningarsvæði fram á okkar daga.
Það er að sjálfsögðu hvers og eins að taka afstöðu til hennar en það breytir því ekki að ef hún en hunzuð og þöguð í hel þá gætum við allt eins reynt að loka augunum fyrir því að það er til nokkuð sem heitir trúarbrögð og skipta verulegan hluta heimsbygðarinnar máli. Við gætum jafnvel gengið lengra og hent Íslendingasögunum á bál ásamt því að fella mannkynssögu út úr námsefninu.
Ég vil líka benda á að þegar þú segir "...sköpunarkenningin sé rétt og þ.a.l. þróunarkenningin röng" eru það þín orð en ekki mín. Sjálfur hef ég aldrei séð hvernig þessar tvær kenningar eiga að afsanna eða stangast á við hvor aðra. Það eina sem ég var að benda á er að það sem er viðtekinn sannleikur í dag þarf ekki endilega að vara það í framtíðinni. Því nefndi ég þróunarkenninguna, ásamt fleirum sem okkar kynslóð telur góðar og gildar.
Að lokum við ég geta þess að þó ég hafi tekið þátt í umræðum á þessum vettvangi þá er mér slétt sama hver verður kosinn forseti í lýðveldinu þarna fyrir vestan...
Emil Örn Kristjánsson, 10.9.2008 kl. 14:54
Emil Björn: Lágmarks vísindalegar forsendur skilgreini ég sem sannanir. Ef fólk vill taka Biblíuna trúanlega þá var alheimurinn og jörðin sköpuð á sex dögum fyrir sex þúsund árum síðan af Guði almáttugum. Sú staðhæfing fellur algjörlega um sjálfa sig því það er búið að sanna að alheimurinn er um 13 milljarða ára gamall og jörðin um 4,5 milljarða ára gömul. Það sér hver heilvita maður að þessar tölur eru utan skekkjamarka hvor miðuð við hina. Hið sannanlega hlýtur þannig að útiloka hitt sem ekki er sannað. Svo einfalt er það.
Ég meðgeng það að guðfræði og stúdía hennar m.a. á Biblíunni er talin til vísinda á sama hátt og bókmenntafræði og stúdía hennar á t.d. skáldsögum er talin til vísinda. Það merkir ekki að sköpunarsagan sé sönn. Með sömu rökum geturðu sagt að Hringadróttinssaga sé sönn vegna þess að fjallað er um hana í bókmenntafræði.
Sköpunarsagan, eins og álfasögur, er sprottin upp úr sárri vanþekkingu. Hún er tilkomin vegna þess að fólk með litla þekkingu reyndi að útskýra það sem það sá í kringum sig. Af því að það hafði ekki vísindalegar forsendur ímyndaði þetta fólk sér að jörðin væri föst og að sólin snerist í kringum hana. Að jörðin væri flöt og það væri til endamörk hennar. Að einhver hlyti að hafa skapað þetta allt saman. Það gat ekki ímyndað sér lengra tímaskeið en nokkur þúsund ár meðan meðal mannsaldur var 30-40 ár. Hefði þetta fólk haft þá þekkingu sem við búum að í dag, þá hefði aldrei hvarflað að því að búa til fantasíu í líkingu við sköpunarsöguna.
Ég ítreka að hver sem er má kjósa að trúa eða trúa ekki sköpunarsögunni. Það er eitthvað sem hver verður að eiga við sig. Hins vegar eru engar forsendur fyrir því að hún sé kennd eða kynnt í skólum því hún er í raun andvísindaleg. Hún er byggð á trú, ekki sönnunum. Að því leyti standa þær jafnt, sköpunarsagan og sagan um álfinn Snjólf. Það að fjallað sé um sköpunarsöguna í Biblíunni sannar ekkert. Biblían er bók sem skrifuð er af mönnum, ritstýrt af mönnum og gefin út af mönnum. Bók sem hefur tekið breytingum í gegnum tíðina til að henta tíðaranda hverju sinni. Ekki þarf að horfa lengra en til síðustu þýðingar hennar hérlendis. Öfgatrúarmenn á borð við Gunnar í Krossinum segja þá þýðingu ónýta sökum mikilla breytinga frá síðustu útgáfu. Biblían hefur ekkert sönnunarlegt gildi ef hún er metin hlutlægt. Til að taka hana gilda þarf að slökkva á því hlutlæga og meta hana huglægt. Það eru ekki vísindi! Það kallast, hmmm ... já, trú!!
Ég eignaði Emil Erni aldrei þau orð að sköpunarkenningin yrði hugsanlega sönnuð einhvern tíma og þróunarkenningin þ.a.l. afsönnuð. Hins vegar er þetta að hluta til inntakið í hans málflutningi; möguleikinn er til staðar. Á móti kynni ég álfinn Snjólf sem Emil finnst í dag mikil fjarstæða. Hins vegar er að sama skapi ekkert sem útilokar að tilvist Snjólfs verði sönnuð í framtíðinni.
Emil Örn á hins vegar þessi orð:
Það er enginn að tala um að þegja sköpunarsöguna í hel. Það verða alltaf til einhverjir sem vilja bera þann graut á borð. Hins vegar skal þagað um hana í skólum því þangað á hún ekkert erindi. Það má ræða hana nær alls staðar annars staðar, en það ber að hlífa börnunum við henni í skólanum.
Ég vil að lokum taka fyrir fyrstu orð Emils sem hann beinir til mín:
Það sorglega er að ýta óvísindalegri trú að börnum í skóla! Í umhverfi sem krefst þess að þau taki við öllu sem að þeim er rétt án fyrirvara. Það er enginn jarðaður fyrir að trúa á æðri máttarvöld og meinta aðkomu þeirra að sköpun alheims. Hlífum börnunum hins vegar við þeirri ósönnuðu fantasíu. Leyfum þeim að meta þörf sína til trúar án fordóma seinna meir. Það er engin trú á bannlista. Hins vegar ætti að liggja bann við ásókn trúfólks, þá helst kristinnar kirkju, í að komast inn í skólana. Það bann er ekki ótvírætt til staðar í dag, því miður!
Hvað varðar hrokann, þá segi ég bara að ég og Emil virðumst álíka hrokafullir í afstöðu okkar. :)
Guð blessi Sarah Palin!
Óli Jón, 10.9.2008 kl. 16:22
Fyrirgefðu, Óli Jón, ég sé að við erum alls ekki að nálgast viðfangsefnið á sömu forsendum. Ég nefni sem dæmi að þú talar enn um að ég segist telja það möguleika í framtíðinni að sköpunarsagan verið sönnuð. Ég aldrei nefnt neitt slíkt í þessari umræðu. Ég hef aðeins bent á að í framtíðinni gæti fólk hugsanlega verið komið á aðra skoðun en er viðtekin í dag. Það getur átt við þróunarkenninguna, afstæðiskenninguna o.m.fl. Hvaða "sannleik" fólk telur sig höndla í staðinn, ef svo fer, höfum við ekki hugmynd um... það gæti þess vegna verið að álfurinn Snjólfur sé upphaf alls. Ég við bara koma þessu að: Það sem við teljum vísindalega sannað í dag gæti verið höndlað sem hjátrú og hindurvitni síðar.
Sú fullyrðing að alheimurinn sé 13 milljarða ára gamall, hefur aldrei verið sannað. Það er bara kenning og hana ber að umgangast sem slíka. Það er heldur hvergi tekið fram í Biblíunni að jörðin sé 6000 ára gömul. Það hefur alla vega farið fram hjá mér. Svo vitum við að Biblían gerir reyndar ráð fyrir ákveðnum skekkjumörkum frá 6 dögunum, sbr. ".... einn dagur þúsund ár... " o.sv.fr. Sköpunarsagan sem slík hrekur ekki þróunarkenninguna né heldur hrekur þróunarkenningin sköpunarsöguna. Biblían var rituð fyrir mörgum öldum og vörumst að túlka hana, þá sérstaklega Gamla testamentið, of bókstaflega. Ekki frekar en að taka setningu eins og "leikmaðurinn skaut á markið" of alvarlega heldur. Knattspyrnumenn eru ekki vopnaðir byssum þó setningin gæti verið túlkuð þannig í þrengstu merkingu.
Hverrar trúar sem menn eru þá verður ekki horft fram hjá því að menning okkar og samfélag, þ.m.t. tungutak og bókmenntir, er allt gegnsýrt af kristinni trú. Þó ekki væri nema til að skilja það samfélag sem við búum í þá þarf fólk að vera upplýst um þessi trúarbrögð. Reyndar, til að skilja forsögu okkar og fornmenningu, þá þurfum við líka að vera upplýst um Ásatrú. Til að skilja betur evrópska menningu þá er betra að vita eitthvað um goðafræði Grikkja og Rómverja og til að skilja ástandið í Mið-Austurlöndum betur er gott vita svolítið um Islam. Öll hlutlaus trúarbragðafræðsla er af hinu góða en samt, vegna þess samfélags sem við búum í, þá þurfum við að vera betur upplýst um ýmsar grunnhugmyndir kristninnar en annara trúarbragða.
Það er ekki hægt að líkja guðfræði við bókmenntafræði. Samanburður þinn við Hringdróttinssögu er ekki byggður á rökum. Trúarbragða- og guðfræði fjallar um heimssýn trúaðs fólks. Trúarrit, s.s. Biblían, Vedaritin, Kóraninn og fleiri eru, af trúuðu fólki, talin upplýsa það um þann guðdóm sem það trúir á. Hringdróttinssaga er skáldskapur.
Skoðanir þínar á Biblíunni, að því er virðist sem skáldriti, eiga vissulega rétt á sér. Það útilokar hins vegar ekki að hún er fyrst og síðast trúarrit... trúarrit fjölmennustu trúarbragða heims. Það er hroki af þinni hálfu að ætlast til þess að aðeins þinni skoðun á henni sé haldið á lofti sem hinni einu réttu.
Trú og vísindi geta vel farið saman og það er alveg eins hins trúaða að taka afstöðu til (raun)vísindanna eins og vísindamannsins að taka afstöðu til trúarinnar. Sjálfur kýs ég að trúa því að heimurinn hafi ekki orðið til fyrir tilviljun og mér finnst súrt að vera settur út í horn fyrir það.
Ég tek undir með þér að það er engin trú á bannlista. Mér þætti samt gaman að vita hversvegna þú tekur sérstaklega fram að eigi að liggja bann við ásókn trúfólks í skólana þá eigi það sérstaklega við um kristni.
Það er hluti af almennri menntun að fólk sé upplýst um trúarbrögð og um þær hugmyndir sem fólk gerir sér um guðdóminn, upphaf heimsins og hlutverk mannsins. Ég held samt að við getum báðir verið sammála um að í þeirri fræðslu hefur íslenzka þjóðkirkjan lengst af átt fullmikla aðkomu og um leið ýtt sínum boðskap að fólki sem hinum eina rétta.
Að lokum við ég geta þess að mér í raun slétt sama hver verður kosinn forseti í lýðveldinu þarna fyrir vestan...
Emil Örn Kristjánsson, 10.9.2008 kl. 17:55
Sæl Anna,
get tekið undir það sem þú segir. Ég er hins vegar viss um að Palin var valin vegna þess að hún er kona, til að tryggja atkvæði kvenna og þessa kolruglaða trúarlíðs í BNA.
Rut Sumarliðadóttir, 11.9.2008 kl. 16:05
Emil Örn: Ég segi pass :) Allt hefur komið fram sem ég vil segja. Takk fyrir mig og Guð blessi kónginn!
Rut: Heyr, heyr! :)
Óli Jón, 11.9.2008 kl. 22:32
Rut, ég er hrædd um að það sé talsvert til í þessu sem þú segir, reyndar er ábyggilega bæði til kolruglað og afskaplega vel meinandi trúað fólk í USA en skírskotunin gæti verið til þeirra öfgafyllstu, alla vega í ljósi nýjustu upplýsinga um trúarsöfnuðina hennar og framgöngu þar, og svo er eflasut verið að fiska eftir konum (og körlum) sem er sama fyrir hvað ,,málsvari" þeirra stendur, jafnvel argasta afturhald.
Anna Ólafsdóttir Björnsson, 12.9.2008 kl. 09:56