Golf fyrir óinnvígða - og málfar fyrir lengra komna
12.8.2008 | 00:39
Eftir að ég uppgötvaði hversu margir golfvellir eru á landinu og fáir skvass eða tennisvellir, þá ákvað ég að reyna að mjaka mér í áttina að golfinu, í stað þess að stressa mig á því að finna mótspilara (við Óli erum alltaf upptekin til skiptis, annars er gaman að spila við hann, skvass, erum samt enn á leiðinni) - eða að finna völl sem einhverjir fótboltakrakkar eða blak-Finnar eru ekki búnir að leggja undir sig/skemma/breyta í einhvern óskapnað (þetta gildir fyrir tennis). Að vísu var ég búin að finna tennishóp í Kópavogi, sem mig langaði í, en ég geri mér ekki ferð á höfuðborgarsvæðið, úr Borgarfirðinum, til þess að fara á tennisæfingu. Hefði kannski gert það einhvern tíma, en ekki lengur. Man enn í hillingum sælusumarið 1993, fyrsta tennissumarið mitt, þegar við spiluðum alla daga og stundum oft á dag (og skvass á milli). En sem sagt, golf! Búin að fatta að ég get slegið úr svona eins og einni fötu þegar ég skrepp niður í Borgarnes, það er alla vega ágætt, því það dugar víst ekki eins og í fyrra að fara bara þrisvar í golf allt sumarið. Seinasta skiptið þar að auki með vinnufélögunum í Texas Scramble afbrigði (ekki segja mér að mig misminni aftur, ég sagði Texas Holden um daginn, en það er ábyggilega póker). Eins og það var gaman, þá er auðvitað skammarlegt að mæta óæfður, en samt var rosalega gaman að spila í fyrsta sinn á velli af fullri stærð. Reyndar er ég einmitt búin að slá þrisvar núna, svo ég hef að litlu að státa, og spila átta holur á Álftanesi (það er bara af því ég fann ekki fjórðu holuna).
Fann alveg frábæra grein um daginn í golfblaði minnir mig. Einn að agnúast yfir málfarinu í kringum golfið, sumt sem hann sagði skildi ég ekki, af því ég veit of lítið um íþróttina, en það sem ég skildi var allt mjög skynsamlegt. Ég var afskaplega hamingjusöm þegar ég sá að hann var að reyna að berja það inn í fólk að tala um golfkúlur en ekki GOLFBOLTA (!!!!) - grrrrrr þegar pabbi var í golfinu og ég lítil stelpa var aldrei talað um annað en golfkúlur og þannig finnst mér það eiga að vera. Gaman að heyra að fleiri eru sama sinnis, hélt ég hefði kannski eitthvað misst úr. En það sem mér fannst fyndnast var þegar hann var að tala um þann ósið að tala um 450 metra langar holur, þegar átt var við brautina frá teigi inn á flötina (og að holunni) að hún væri 450 metrar. Ég sé fyrir mér moldvörpuna sem gróf þessa 450 metra löngu holu, en það ætti að vera hægt að hitta í hana.
Athugasemdir
En er ekki skvassið samt skemmtilegra? - Og þar þarf engar möldvörpur, og engar holur, bara bolta og vegg.
Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir, 12.8.2008 kl. 01:20
Skvassið er rosalega skemmtilegt, en útiveran gerir golfið alveg nothæft, nema keppnisskapið fari að há mér. Enn sem komið er skammast ég mín ekkert fyrir að vera léleg í golfi, en það getur farið að verða vandamál seinna (ef mér tekst ekki að verða þolanleg).
Anna Ólafsdóttir Björnsson, 12.8.2008 kl. 01:35
Svo vita Golfarar ekki að Albatros og Örn eru líka fuglar
Haraldur G Magnússon, 12.8.2008 kl. 10:05
Aha, þannig að strangt til tekið er engin hola spiluð á færri höggum en fugli, þeir bara vita það ekki.
Anna Ólafsdóttir Björnsson, 12.8.2008 kl. 10:35