Blátúnsblogg

Þeir sem ekki þola væmið blogg ættu að vara sig áður en þeir lesa lengra. Allar aðstæður ýta undir að þetta blogg verði einstaklega væmið.

Dagurinn í gær var sérstakur. Var komin í bæinn seint á fimmtudagskvöld í tvennum tilgangi, að heilsa upp á mitt heittelskaða áður en hann færi í langa hestaferð, um Eyfirðingaleið norður Sprengisand með einhverju krúsindúlluívafi. Hins vegar var ég að fara í jarðarför ömmusystur minnar, Hullu (Huldar Árnadóttur) sem var mikil sómakona og dó sátt við sig og sína í hárri elli, án blagresiþess að verða nokkurn tíma gömul. Einn bróðir úr þessu stóra systkinahópi lifir enn og lét sig ekki muna um að rölta með stuðningi af göngugrind alla leið með okkur niður að leiði Hullu. Mér fannst ég nú brött að rölta þetta á himinháu hælunum á stígvélunum mínum, en hann Friðjón frændi minn sló mér allrækilega við. Mér líður alltaf svo vel í Fossvogskirkjugarð, þar hvílir svo margt gott fólk sem var mér náið, meðal annarra pabbi minn og Dolinda, konan hans seinustu árin hans, og svo Magga frænka mín, systir Hullu, sem mamma passar alltaf uppá að sé með falleg sumarblóm á leiði hennar og Þórs sonar hennar sem dó ungur úr hvítblæði. Hún dó eftir áratuga dvöl á Nýja-Sjálandi en við tókum á móti duftkerfinu hennar svo hún fengi að hvíla hjá syni sínum. Margir í þessari fjölskyldu sem eiga sér merkilega sögu.

Þegar ég kom heim biðu mín skilaboð um að hið árlega götugrill hér í Blátúni væri framundan, en það var einmitt í gærkvöldi og fram á rauða nótt. Mikið eigum við yndislega nágranna í þessu litla samfélagi okkar í Blátúni á Álftanesi. Hef misst af grillinu að undanförnu vegna fjarvista á sumrin en sem betur fór ekki í ár. Ari minn var auðvitað fjarri góðu gamni, og Hanna var að aðstoða hann fyrsta spölinn og komst ekki heldur. Óli var tvíbókaður og þar að auki að ná úr sér pest, þannig að ég varð ein fjölskyldumeðlima fram yfir þrjú í nótt að spjalla og skála við nágrannana, sem hafa rigningauðvitað fyrir löngu skotið veðurguðum ref fyrir rass og byggt skýli yfir götuna sem dugar alveg ef dropar koma úr lofti, eins og vottaði fyrir, einkum er fór að líða fram yfir miðnætti í nótt. Gróðurinn efst í götunni, þar sem grillið er jafnan haldið, er orðinn svo allumlykjandi og fallegur að það jók enn á stemmninguna. Hefði reyndar viljað spjalla meira við nýja fólkið í Blátúni 4, en geri það seinna, þau virka indæl. Ég þurfti bara svo mikið að bæta upp vanrækslu undanfarinna ára að ég komst ekki yfir að spjalla við fleiri en gömlu vinina hér í Blátúninu.

Ég saknaði þess reyndar að taka ekki þátt í Blátúnsleikunum, sem byrjuðu klukkan fimm í gær, sem er eina tækifæri mitt í tilverunni til að rifja upp gamla takta frá Ungmennafélagsárunum í spjótkasti. Aðrir sáu um spjótkastið þetta árið. En ég var búin að raða nokkuð þétt á daginn og naut veðurblíðunnar niðri í bæ með vinkonum mínum og óvæntum leynigesti, þýskum vini okkar, Kristoff frá Berlín. En Borghildur og Guðný vinkonur mínar gerðu daginn að algerum draumadegi. Guðný er æskuvinkona mín og við höfum nýverið endurnýjað sið sem við vorum búnar að koma okkur upp, að hittast svona um það bil mánaðarlega og spjalla spjotkastsaman, jafnvel um hluti sem skipta máli. Borghildi hitti ég reglubundnar, en þó sjaldnar nú en fyrr, við erum gamlir vinnufélagar og úr vinkvennahópi sem er alveg rosalega skemmtilegur (og inniheldur ekki bara kvenfólk!). Svo þegar Borghildur var farin og við Guðný á fullu að kjafta, hringdi Borghildur og dreif okkur með sér á opnun á myndum Stórvals. Það var sannarlega óvænt ánægja sem dró alveg rosalega skemmtilegan dilk á eftir sér, hvað mig varðar. Svo kíkti ég aðeins við hjá mömmu áður en ég fór í götugrillið og hún var eins og oftar búin að finna eitthvað bitastætt fyrir mig að kíkja á fyrir Álftanessöguna. 

Og nú fá trén mín uppi í Borgarfirði loksins almennilega vökvun. Krafturinn (eða skorturinn á honum) storval_1á kalda vatninu gerði það að verkum að vökvunartilburðir mínir, með gulu gúmmíslöngunni, hafa verið hálf máttleyisislegir og ég er ofursátt við framlag veðurguðanna í þessum efnum. Ef þessari úrkomu verður stillt í hóf, er hún líka kærkomin fyrir hestamennina, sem annars þyrftu að ríða norður á bóginn í miklum reykjarmekki.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Kveðja frá einum úr nefndum vinkvennahópi -- eða hef ég misskilið eitthvað?

Sigurður Hreiðar, 12.7.2008 kl. 12:25

2 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Takk fyrir góða kveðju, og þú misskilur aldrei neitt.

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 12.7.2008 kl. 12:30

3 Smámynd: Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

Ekkert væmið, bara fallegt! Knús til þín.

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 12.7.2008 kl. 18:18

4 identicon

Ef þetta er væmin færsla þá eru svoleiðis færslur eitthvað fyrir mig. Takk fyrir þennan pistil. 

Mér hlýnar nú alltaf um hjartaræturnar þegar minnst er á Stefán frá Möðrudal. Spjallaði oft við hann og fylgdist með honum á Café Mokka hér í den og þær stundir er eitthvað sem ekki gleymist.  

Anna Ólafsdóttir (anno) 12.7.2008 kl. 19:57

5 Smámynd: Steinunn Helga Sigurðardóttir

þetta er ekkert væmið, en fallega einlægt.

takk fyrir þetta.

kh

steina 

Steinunn Helga Sigurðardóttir, 13.7.2008 kl. 11:26

6 Smámynd: Erna Hákonardóttir Pomrenke

fallega skrifað Anna en nú er ég alveg rugluð. Var amma ekki Ólafsdóttir? Ég finn alltaf mikinn frið í Fossvogs kirkjugarðinum og þar er gott að vera enda hvíla bæði mamma og pabbi þar og margir af mínum ættingjum. Mætti samt minka bílaumferð um garðinn og ég vildi að fólk sem fært er um að ganga hugleiði það, en vel skiljanlegt fyrir gamalmenni og þá sem ekki eru fótafærir.

Erna Hákonardóttir Pomrenke, 17.7.2008 kl. 16:09

7 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Sæl Erna, jú, amma var Ólafsdóttir og Axel líka, en Ólafur langafi okkar drukknaði þegar þau voru mjög lítil og Vilborg langamma setti ömmu á munaðarleysingjahæli og Axel fór til fólks á Kjalarnesi. Svo tóku frænkurnar Hólmfríður og Þórunnu ömmu að sér. Vilborg langamma fluttist til Seyðisfjarðar og giftist Árna Friðrikssyni kennara og eignaðist með honum sex börn í viðbót, Hulla var yngst af þeim og Magga frænka á Nýja Sjálandi var sú elsta. Hin voru Aðalsteinn, sem dó ungur, Bubba mamma Brians og amma Peters og Robbies á Nýja Sjálandi, Fríða og Þóra, sem bjuggu í Kaupmannahöfn, og Friðjón, sá eini sem eftir lifir.

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 17.7.2008 kl. 19:51

8 Smámynd: Erna Hákonardóttir Pomrenke

ah, nú kviknar á perunni.  Ég gerði mér ekki grein fyrir að hálfsystkinin voru svona mörg. Ég vissi auðvitað um Möggu..

 Heyrðu, mikið er þetta rosalega skemmtilegt leikhús (Línulangs húsið eins og þú kallar það) hérna við hliðina á. Flott

Erna Hákonardóttir Pomrenke, 17.7.2008 kl. 22:56

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband