Þá er ég búin að bæta nokkrum myndum héðan frá Debrecen í albúm og ætla að bæta fleirum við er færi gefst. Hér í bæ er allt vaðandi styttum og sumar ekkert voðalega sætar. Eina hérumbil hálslausa fundum við Hanna úti í skógi:
Ég ákvað auðvitað að sýna þessum ókunna (og eflaust fræga) manni samstöðu og vera hálslaus líka.
Annars er þessi skógur, sem er rétt hjá okkur og kallast stóri skógur (án þess að vera ýkja stór) alveg einstakur. Vatnaliljurnar eru þær fallegustu sem ég hef séð:
En reyndar er fátt sem einkennir borgina meira þessa dagana en sá urmull námsmanna sem eru að lesa út um allt, sumir úti í skógi og aðrir uppi á fimmtu hæð.
Það er Sara, vinkona Hönnu, sem hefur komið sér vel fyrir á fimmtu hæðinni hjá okkur, en hún á rúmlega ársgamla tvíbura sem eru í góðum höndum pabba síns hér í nágrenninu meðan hún streða við próflesturinn. Hún er töffari sem kom aftur hingað út eftir að hafa átt sína tvíbura heima og verið með þá í níu mánuði heima á Íslandi.
Annars komum við Hanna við um daginn hjá konunni á leigumiðluninni til að borga leigu fram í tímann og hún er með eitt nýfætt heima hjá sér, það fjórða. Hún segir að fólk nenni lítið að eiga börn en stjórnvöld hvetja mjög til barneigna, enda Ungverjum að fækka. Hér er hreinlega besta barneignafrí í Evrópu, tvö ár á kaupi og það þriðja með styrk, auk þess sem barnabætur eru þokkalegar, einkum þegar börnum fer fjölgandi. Forvitnilegt.
Svo er ég búin að rekast á fleiri samstúdenta Hönnu, við lentum á kjaftatörn á Palma um daginn við Svenna þann sem samdi uppáhalds Eurovision-lagið mitt, Ég les í lófa þínum. Hann hefur mörg járn í eldinum og var með rússneskri samstarfskonu sinni. Mikið fjör. Það var hann sem sagði okkur gúllas söguna.
Lýkur þá fréttapistli frá Debrecen að sinni.
Athugasemdir
Það er bara skemmtilegt að lesa þessa pistla frá útlandinu. Takk Anna mín.
Jenný Anna Baldursdóttir, 10.6.2008 kl. 00:11
Vatnaliljurnar eru alveg ofsalega fallegar. Það fer þér aftur á móti ekki mjög vel að vera hálslaus..... leyfðu styttunni bara að vera það í friði.
hafðu það gott og gangi þér vel með lærdóminn.
Linda litla, 10.6.2008 kl. 01:41
Það er svo ótalmargt sem gaman er að skrifa héðan úr austrinu. Held samt að það fari engum vel að vera hálslaus og hef látið af þeirri iðju. Nú er ég laus úr lærdómnum, úrskrifast á laugardaginn (fjarverandi reyndar) og læt litlu læknanemunum (og tannlæknanemunum, Söru t.d.) um námið, en sjálf er ég á fullu að vinna.
Anna Ólafsdóttir Björnsson, 10.6.2008 kl. 10:00
Sem heiðarlegur sólarfíkill fékk ég 2 vikur af sól síðastliðinn febrúar á Kanarí, þannig að ég mætti nú ekki alhvít á staðinn, en eflaust hefur mér tekist að fá smá lit í viðbót. Hlakka til að koma heim í sól og sumar. Það var ekki alveg komið, en samt ágætt, þegar ég fór í lok maí. Þetta er auðvitað bara frábært hérna!
Anna Ólafsdóttir Björnsson, 10.6.2008 kl. 12:33
Reyndar verð ég að viðurkenna að mér finnst ágætt að vera hérna enn um sinn, þannig að þetta ,,hlakka til að koma heim" merkir að það sé ljúft að hitta restina af fjölskyldunni, en reyndar aðallega að ég treysti því að sumarið verði komið þegar ég mæti heim. Maður verður kannski smá stund að ná úr sér hrollinum. Hér verð ég alla vega 10-17 daga í viðbót.
Anna Ólafsdóttir Björnsson, 10.6.2008 kl. 12:35