Æsispennandi vor - og ekki dregur veðrið úr ánægjunni - skrifstofufárviðri - og meira um sveigjanlegan vinnutíma

Þegar svona viðrar finn ég vel fyrir því hvað það á vel við mig að vinna hjá sjálfri mér. Þótt ég haldi því blakalt fram að enginn húsmóðir/húsbóndi sé erfiðari en við sjálf, aldrei gefið almennilegt frí, þá fann ég vel fyrir frelsinu í dag. Var að vinna til 5:15 í morgun, vaknaði upp úr 10 og var mætt á fund í hádeginu, en eftir það gat ég líka farið heim (með viðkomu í Rúmfatalagernum að endurnýja ónýta plastlegubekkinn) og lagst út á svalir í sólinni og klárað nætursvefinn þar. Búin að vera að afgreiða brýnustu mál núna og tek ekki þungan vinnudag í dag, nema ef ég fæ viðtalið sem ég er að bíða eftir sent áður en ég sofna. Nóg af verkefnum en allt ,,undir control".

Hef lengi verið geysilega hlynnt sveigjanlegum vinnutíma. Ég er hlynnt mun meiri sveigjanleika en að mæting sé milli 8 og 10 og svo unnið í átta tímana (með matarhléi). Það er alveg hægt að koma í veg fyrir skrifstofufárviðri í mörgum störfum (góðviðrisdaga sem maður virðir fyrir sér út um gluggann á vinnunni) með því að setja þungamiðju vinnunnar á annan tíma en þessa yndislegu góðviðrisdaga sem öskra á okkur að vera úti. Ef ég hef tekið góðan vinnusprett nóttina áður, eins og oft gerist, finnst mér bara fínt að sofna úti í sólinni, lítil hætta á sólsting hér á landi og svo eru til hattar, en svo þegar um fer að hægjast þá er hægt að skreppa út á golfvöll þegar vel viðrað og vinna á kvöldin eða nóttunni. Óska sem flestum sama frjálsræðis og ég nýt, þótt það sé ekki ótakmarkað þá er það mikið og mikilvægt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Oddrún

Ó hvað það hlýtur að vera dásamlegt að vera með sveigjanlegan vinnutíma í svona veðri.  Ég uppgvötaði reyndar fyrr í vikunni að ég var búin að vinna of mikið í mánuðinum svo ég ákvað (áður en ég sendi inn launabunkann) að vera í fríi á morgun

Oddrún , 14.5.2008 kl. 23:50

2 Smámynd: Lilja G. Bolladóttir

Oh my god, hvað ég er sammála þér. Hef reyndar ekki kost á að svinga mínum vinnutima til og frá, en er samt í vaktavinnu sem hefur ýmsa kosti, sem betur fer, meðfram göllunum.

Man samt eftir að hafa stundað svona vinnubrögð í háskólanámi mínu, tók tarnir og vann stundum 16-20 tíma og oft langt fram á nótt og gat þá legið sofandi í sólinni allan daginn í staðinn (bjó þá reyndar í Danmörku þar sem maður gat stólað meira á sólina, en..... skil þig)  

Lilja G. Bolladóttir, 15.5.2008 kl. 02:31

3 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Ég er viss um það það væri hægt að koma miklu betri vinnumóral á með meiri sveigjanleika í vinnutíma, þar sem það er auðvelt, sem á eflaust við um meirihluta allra vinnustaða.

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 15.5.2008 kl. 16:32

4 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Ójá, og eitt enn, þessar 16-20 tíma vinnutarnir elska ég, í mörgum tilfellum fæ ég einmitt langmest útúr svoleiðis óslitinni lotu, það er lúxus að högga ekki alla vinnudaga í sundur. Svo er hægt að taka sér stuttan dag á milli eða jafnvel frí.

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 15.5.2008 kl. 16:33

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband