Jákvæðni og neikvæðni í hæfilegum skömmtum

Fyndið hvað fólk sér hlutina mismunandi augum. Ein manneskja, sem mér þykir reyndar mjög vænt um, er með þeim ósköpum gerð að sjá alltaf einhverja neikvæða hlið á öllum málum. Ef ekið er framhjá fallegu landslagi rifjast upp eitthvert rifrildi sem átti sér stað einhvers staðar í nágrenninu, manneskja nefnd, æjá, það er þessi sem átti frændann sem lenti í veseninu um árið. Verst er að þetta snertir í rauninni ekki nema þann sem á þessar vondu minningar eða hugrenningar.

Svo er það Pollýönnu-syndrómið, það er vissulega skárra en getur samt tekið á sig fáránlegar myndir. Veðrið er ömurlegt: - Já, en þá er bara að syngja í rigningunni (og svo er sprettur tekinn úr Singing in the rain) eða þessi er búinn að setja allt í klessu: Já, en mamma hans er svo góð ... !

Hmm, kannski er hinn gullni meðalvegur bestur, hafa glasið hvorki hálffullt né hálftómt, heldur bara svona passlegt. En ég held nú samt svolítið með Pollýönnu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Nú langar mig að vita hvað þú varst að pæla þegar þú settist niður og skrifaðir þennan pistil!  "Jákvæðni og neikvæðni í hæfilegum skömmtum"! Er það ekki kallað jafnvægi!

Helga 10.5.2008 kl. 21:11

2 identicon

Sæl á ný! Nú er það spurning hvort ég megi blogga á blogginu þínu? Þú ert ekki til svara hér svo ég gef mér bara leyfi til þess.  Hér kann að vera spurning um jákvæðni eða neikvæðni. Þriðji möguleikinn er reyndar líka inni í myndinni... nei, læt ógert að færa hann til heimilis.

Þessi frétt er með þeim einkennilegri (neikvæðari) sem ég man eftir (hugsanlega ætti maður að lesa hana sem kynjamismun). "Búið spil fyrir Clinton", spyr mbl.is. Á hverju byggir mbl.is fyrirsögnina? Jú, þeirri staðreynd að Obama hefur tryggt sér stuðning 275 ofurfulltrúa og Clinton hefur tryggt sér stuðning 271 ofurfulltrúa. Hrædd er ég um að sá sem skrifaði fréttina þjáist af e-u öðru en hlutleysi því viðkomandi finnur út að þeir 4 ofurfulltrúar sem Obama hefur umfram Clinton geri líkur hennar "nánast engar"!!!  275-271 hefur nú ósjaldan verið kallað að ekki megi á milli sjá hvort hafi sterkari stöðu. Stóra spurningin er því: Er sumt fólk orðið svo hrætt um að okkar kona hafi það á ótrúlegri seiglu að nú sé búið að blása í lúðrana til að draga úr þeim sem ætluðu sér að greiða götu hennar í þeim fylkjum sem eftir er að kjósa í?

Jákvæðni eða neikvæðni... og þá hvers... alla vega ekki hlutleysi í fréttaflutningi... og kannski óar einhvern við jafnrétti?

Takk fyrir lánið á blogginu þínu.

Helga 10.5.2008 kl. 22:05

3 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Þetta með Clinton stakk mig líka frekar illa. Alvarlegt tilfelli af neikvæðni ;-) - og alltaf gaman að fá þitt innlegg á bloggið (svona ,,by the way"). Jafnvægið með helming jákvæðan og helming neikvæðan í heimnum (sem eru mjög líkleg hlutföll) er ágætt, en ég er stundum svolítið áhyggjufull út af þessum neikvæðu, aðallega hvernig þeim líði. En sem betur fer er jafnvægi í mörgum einstaklingum líka. Og svo er hægt að fara út í öfgar a la Biederman (ef þið þekkið Biederman og brennuvargana).

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 11.5.2008 kl. 01:43

4 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Nokkuð til í þessu Anna mín.  Ég held að við þurfum að geta verið hvortveggja, svolítið gagnrýnin og pirruð en samt með húmor og smá Pollýönnu í farteskinu.

Njóttu dagsins.

Jenný Anna Baldursdóttir, 11.5.2008 kl. 11:20

5 Smámynd: Guðríður Haraldsdóttir

Mér finnst svolítið erfitt að umgangast (í stórum skömmtum) fólk sem sér bara neikvæðu hliðarnar á málum, allt verður svo miklu auðveldara hinsegin.

Þegar ég sá fréttina um Hillary hélt ég að munurinn væri mjög mikill, ekki örfá atkvæði. Völva Vikunnar spáir reyndar Obama sigri og að hann verði forseti Bandaríkjanna. Syni mínum finnst það svo ótrúlegt (að Kaninn kjósi svartan mann, hvað þá konu) að hann tilkynnti mér að hann myndi borga mér 5.000 kall ef Obama yrði forseti. Ég hnussaði ... en þigg aurinn ef af verður. Hmmmm 

Guðríður Haraldsdóttir, 11.5.2008 kl. 13:18

6 identicon

jákvæðni og neikvæðni er fyrir mér sami hluturinn. vandinn er bara að taka geðslag annarra ekki inn á sig. mér finnst jafnvel betra að umgangast hinn neikvæða en hinn jákvæða vegna þess að hann gengur með tilfinningarnar utan á sér og hefur orð á öllu sem pirrar hann eða nagar. þannig veit ég alltaf hvar ég hef hann. hinn jákvæði á hinn bóginn er endalaust að breiða sýróp yfir allt sem fer í hann. hann reynir að bæla niður eðlilegan núning sem samfélagið nuddar okkur öll þangað til að einn daginn er mælirinn fullur og hann springur með ógurlegum afleiðingum. ég hef báða þessa einstaklinga í fjölskyldunni minni. hinn neikvæði er stöðug þjáning á meðan hinn flaug undir radarinn í langan tíma og sprakk síðan í kjarnorku úrhelli yfir alla með langvarandi og óbætanlegum afleiðingum. allt er gott í hófi; jákvæðni og neikvæðni og hefur það ekkert með neinn meðalveg að gera. bara "kommon sens" og tillitssemi

hvað clinton varðar þá er ég sammála og dáist að henni fyrir að leggja ekki árar í bát þegar allir eru að reyna að draga úr henni móðinn. ameríka þarf konu núna. ég vona bara að þeir fatti það sjálfir

thora gunnarsdottir 11.5.2008 kl. 14:10

7 Smámynd: TARA ÓLA/GUÐMUNDSD.

Ég vona að ég sé svolítið í milliveginum, en ég verð samt að játa að ég er voða gjörn á að búa til grín úr öllu. Kannski þegar fólk er búið að upplifa svo margt ljótt að þá verði það þannig. En mér skilst að þetta sé nú samt úr ættinni svo ég hef einhverja afsökun

TARA ÓLA/GUÐMUNDSD., 11.5.2008 kl. 16:29

8 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Atkvæði hafa fallið jákvæði í vil en millivegurinn fær einnig talsverðan stuðning.

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 11.5.2008 kl. 23:37

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband