Góðviðrisdagur og Hillary heldur áfram
9.5.2008 | 00:03
Einstakur góðviðrisdagur í dag. Ströng vinnutörn í gangi og ekkert hægt að slaka á eða njóta góða veðursins í óhófi, en ósköp gaman að taka smá rispu. Myndataka milli eitt og tvö vegna viðtals sem ég var að taka og kærkomið tækifæri til að njóta góða veðursins af því tilefni. Held líka að myndirnar verði flottar, þótt mitt hlutverk hafi ekki verið annað en að hafa smá skoðanir og halda við tæki ljósmyndarans, þar sem ég reyndar gleymdi mér andartak og var næstum búin að slátra hans flotta búnaði. Hjúkk, það slapp fyrir horn.
Hélt því opnu að komast í gönguna geng umferðarslysum, en það passaði ekki inn í verkáætlun og ég þarf að halda ansi vel á spöðunum núna.
Af heimsfréttunum er auðvitað margt að frétta og hver og einn sem getur svo sem sett sig inn í það. Engar stórfréttir að Hillary ætlar að halda áfram baráttunni, ég er ánægð með það en ekki eins vongóð og ég var áður um að hún verði útnefnd fyrir demókrata, bara ekki nein skýr skilaboð um það og verður erfitt fyrir ofurfulltrúana að ganga gegn þeirri tilhneigingu sem hefur verið, reyndar þrátt fyrir að það sé mjög mjótt á mununum og stóru fylkin, Flórída og Michigan (minnir mig að sé hitt fylkið) séu ekki með í dæminu, en þar er gengið út frá því að Hillary eigi góðan stuðning. Þeir fóru ekki eftir reglunum og þar af leiðandi er ekki talið með.
Jæja, best að halda í törnina framundan, bara gaman, en ég er búin að setja mér ákveðið verkplan sem ég þarf að halda mig við.