Hillary og forkosningarnar - kostir og gallar frambjóðenda - en samt er ég svolítið leið

Þegar Hillary Clinton tapaði fyrir Barak Obama í forkosningum demokrata í Iowa þá verð ég að viðurkenna að ég varð svolítið leið. Var farin að sjá hana fyrir mér nokkuð örugglega í Hvíta húsinu að ári og það er góð tilhugsun. Hún er ekki horfin, en raunsætt mat er að það geti farið á hvern veginn sem er. Hér heima höfum við verið að ræða þetta mál af og til að undanförnu, og tókum upp þráðinn í gær þegar Nína systir, sem heldur með Edwards, þótt hún sé mikill feministi, var stödd hérna. Hún hefur búið í Bandaríkjunum í marga áratugi og kennt þar í háskólum og fylgst vel með í pólitíkinni þótt hún hafi ekki getað kosið vegna íslenska ríkisborgararéttarins. Ástæða þess að hún heldur með Edwards er sú að hann er sá eini frambjóðendanna sem hefur sýnt málefnum fátækra áhuga og skilning og er líklegur til að gera eitthvað róttækt til að bæta hag þeirra.

Kominn tími á konur 

Hillary Clinton hefur færst meira til hægri í málflutningi sínum en sum okkar eru sátt við, en engu að síður þá styð ég hana ,,í anda" því ekki hef ég yfir atkvæði að ráða.  Á hinn bóginn þá er auðvitað stefna Barak Obama í Íraksstríðsmálum mun fýsilegri kostur en afstaða hennar. Þannig að þarna eru raunverulega þrír góðir kostir, Clinton, Edwards og Obama. Mér finnst hreinlega ekki hægt að bíða mikið lengur eftir því að kona verði forseti Bandaríkjanna, en auðvitað gæti ég ekki haldið með hvaða konu sem er, Condolezza Rice hefði til dæmis ekki hlotið minn stuðning, hefði ég upp á einhvern að bjóða. Hennar pólitík er of fjarri mér. Á hinn bóginn líkar mér vel við það sem Hillary var að gera í heilbrigðismálum heima fyrir í valdatíð eiginmanns hennar, þótt hún hafi átt erfitt uppdráttar vegna stöðu repúblikana í þinginu.

Máttur fjölmiðla 

Því miður held ég að stuðningur Ophru hafi haft of mikið að segja með Obama og á móti Hillary. Af hverju býður hún sig ekki fram sjálf ef hún vill hafa áhrif? Kemur mér svo sem ekki við, en ég efast ekki um að hún hefði flogið inn í Hvíta húsið. Hún er að minnsta kosti miklu betri leikari en Ronald Reagan, þótt hún sé svolítið leiðinlegur þáttastjórnandi (flestum finnst hið gagnstæða, reyndar). En sé framgangur Obama núna vísbending um það sem koma skal þá verð ég alla vega að taka undir það sem Hillary sagði: Það verður alla vega demokrati sem fer í Hvíta húsið næst! Og reyndar verð ég að viðurkenna að ég myndi hafa gaman af því að heyra fjölmiðla tönnlast á orðunum Barak Obama, forseti Bandaríkjanna ... fallegur keimur af því. En afsakaðu Obama, af þremur góðum kostum þá finnst mér enn að Hillary eigi að vinna. Verst að það breytir bara engu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband