Óhefðbundið jólaskap (fyrirfram)

Það sem kemur mér í jólaskap fyrir jól er eftirfarandi:

  • Framkvæmdirnar sem hafa setið á hakanum í húsinu en á nú að klára fyrir jól (og tekst oft furðu vel)
  • Fíflagangur og jólastress í vinnunni
  • Próflok
  • Leitin að jólaskrautinu
  • Einstaka jólalag - Baggalútslögin koma sterk inn nú eins og undanfarin ár
  • Innpökkun jólagjafa
  • Tiltekir (já, mesta furða)
  • Harðsperrur á nýjum stöðum (óvenjulegar hreyfingar í tiltekt og parketlögn til dæmis)
  • ... og ýmislegt fleira, sem ég man ekki núna

Flest af þessu á við núna, einkum það fyrstnefnda, sem hefur elt okkur síðastliðin þrenn jól, merkilegt nokk aðallega til ánægju. Fyrir jólin í fyrra náðum við að koma herbergjum krakkanna okkar í gagnið, sem eru nýsmíði á efri hæðinni, núna erum við að ljúka mestöllum frágangi á sameiginlega rýminu uppi, sem hefur reyndar þjónað ágætlega sem vinnuaðstaða fyrir ýmislegt, þar málaði sonur okkar heila brúðargjöf og ég lærði fyrir erfiða prófið mitt. En frá seinustu jólum hefur gólfið uppi verið flotað að minnsta kosti 10 sinnum og er nú orðið þokkalega slétt (fyrri umferð og 9 ,,seinni" umferðir).

Sökum pestar hef ég verið frekar hæg í gang núna, en tók góðan sprett í kvöld og er hreinlega búin. En svona ímyndaðir skilafrestir eins og jólin, geta gert alveg ótrúleg kraftaverk, kannski það lygilegasta þegar við tættum niður eldhúsinnréttinguna rétt fyrir jólin í hitteðfyrra og rústuðum baðherbergið en tókst að koma hvoru tveggja í nothæft ástand fyrir jólin. Frágangur hefur reyndar beðið síðan, því þar hangir margt á sömu spýtunni, meðal annars að ljúka verkinu uppi til að koma fyrir bókum sem nú eru í rými sem deilir gólffleti með eldhúsinu. Flókið mál - ástæðulaust að fjölyrða um það.  

Um jólin eru það aðrir og kannski enn jólalegri hlutir sem kveikja jólaskapið. Fara með kerti á leiði ástvinanna, bjöllurnar sem hringja inn jólin klukkan sex á aðfangadag og hin klassíska kveðja: Gleðileg jól í Ríkisútvarpinu, Heimsumból (þegar að því kemur) þvottalyktin af rúmfötunum þegar hangið er yfir jólabókunum fram eftir nóttu - og svo bara þetta óskilgreinanlega sem ég þykist enn finna fyrir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Steinunn Helga Sigurðardóttir

 Lokaorð mín til þín á þessu ári kæri bloggvinur eru frá Nelson Mandela sem setur sig yfir eigin þarfir og hugsar sig sem heildina. Boðskapur inn í hið nýja ár sem á erindi til okkar allra.

Steina

Okkar dýpsti ótti er ekki að við séum vanmáttug.
Okkar dýpsti ótti er að við erum óendanlega máttug.

Það er ljósið innra með okkur ekki myrkrið sem við hræðumst mest.Við spyrjum sjálf okkur hvað á ég með að vera frábær, yndisfögur, hæfileikarík og mikilfengleg manneskja.

Enn í raun hvað átt þú með að vera það ekki?

Þú ert barn Guðs.

Það þjónar ekki heiminum að gera lítið úr sjálfum sér.
Það er ekkert uppljómað við það að gera lítið úr sjálfum sér til þess að annað fólk verði ekki óöruggt í kringum þig.

Við fæddumst til að staðfesta dýrð guðs innra með okkur, það er ekki bara í sumum okkar, heldur í hverju einasta mannsbarni.Og þegar við leyfum ljósinu okkar að skína, gefum við öðrum, ómeðvitað, leyfi til að gera slíkt hið sama.Um leið og við erum frjáls undan eigin ótta mun nærvera okkar ósjálfrátt frelsa aðra.
 

Steinunn Helga Sigurðardóttir, 22.12.2007 kl. 12:42

2 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Takk Steina.

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 22.12.2007 kl. 15:58

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband