Maraþondagur að baki
7.11.2007 | 00:41
Snemma í morgun var ég komin á þá skoðun að líklega myndi ég lifa það af að halda fyrirlestur um stærðfræði, meira að segja þótt hann væri auglýstur innan deildarinnar. Við þurfum reyndar öll að gera þetta sem erum í kúrsinum RRR (Reiknirit, rökfræði og reiknanleiki) en þetta er í fyrsta sinn sem þessi háttur er hafður á og smá glímuskjálfti í mér út af því. En sem sagt, ég lifði af, held jafnvel að þetta hafi verið alveg nothæfur fyrirlestur, en skrýtin var tilfinningin óneitanlega.
Það sem eftir lifði dags fór í ýmsar nauðsynlegar útréttingar og svo var alveg nauðsynlegt að leggja sig aðeins fyrir fund sem fyrirhugaður var í kvöld, enn og aftur um skipulag Álftaness. Fínn fundur, fyrirsjáanlegt nöldur (eðilega) út af ýmsu smálegu en í stærstu dráttum held ég að við séum komin með miðbæjarskipulag sem uppfyllir þarfir og væntingar flestra. Rosalega GRÆNT skipulag og allt er vænt sem vel er grænt, er það ekki?
Kynning á tillögum hefur verið mikil og góð, bæði gagnvirk með fundahöldum og svo á netinu. Hrifin af flestu í þessu græna skipulagi, þarf að taka afstöðu til eins nýs máls, þar sem ég er aðeins sveigjanlegri en ég hefði haldið.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook