Fyrsti heili vinnudagurinn í nýju vinnunni - vinnutækni, straubretti og týnd og fundin vinna

Naut þess út í ystu æsar að skipuleggja sjálf vinnu og skóla í dag. Mætti upp í háskóla seint í morgun en tími féll niður, þannig að ég notaði þennan óvænta tíma til að versla einhverja hollustu í matinn, sólstól (bókastand) PBC Medium_stripe_lowresfyrir þykku bækurnar mínar og kaupa búkka undir stóru plötuna sem hefur þjónað sem alls konar borð á vinnusvæðinu uppi. Ætla að láta mig hafa það að koma upp vinnuaðstöðu í hálfkláraða fjölnotaherberginu uppi, lærði nefnilega mikið um þægilega vinnuaðstöðu og vinnutækni í Ungverjalandsferðinni. Á greinilega dóttur sem hefur hitt á flest það besta sem hentar mér í náms- og vinnutækni.

Ekki svo að skilja að litla vinnuhornið á ganginum/holinu, þar sem ég sit nú, verði alveg vanrækt, þar sem ég nýt þess mjög að breiða úr heimildum af ýmsu tagi á þægilegasta bráðabirgðaborði sem til er, straubretti heimilisins. Það er alveg ótrúlegt hvað það er handhægt að grípa til svoleiðis bráðabirgðaborða. 

Svo greip ég með mér skrifborðsstól á innan við 3000 kall í leiðinni, mér er að vísu sagt að hollusta slíkra stóla sé í takt við verðlagninguna, en þessi virkaði bara þægilegur. Svo endaði ég auðvitað með allt dótið í horninu mínu í stofunni, setti útvarpið á fullt, fína músík og fór að vinna. Náði góðri törn, dottaði í sófanum í þann mund sem von var á hinum fjölskyldumeðlimunum heim (tryggir hæfilega stuttan blund) og svo tók við önnur vinnutörn. Var bara harla ánægð með þær smábreytingar sem ég gerði á handritinu sem ég sendi til enduryfirlestrar eftir nokkra daga. Smá símaskipulagning líka. Sem sagt, harla gott, eða ... skjalið mitt var allt í einu horfið. Hvernig sem ég leitaði, og er nokkuð glúrin á því sviði, þá fannst það bara ekki. Áttaði mig strax á því að ef til vill hefði ég vistað afritið sem ég var að vinna í í Temp möppu. Og það er ekki öruggasti staður í heimi. En hjúkk, sonurinn á heimilinu er tölvusnillingur, og fann skjalið. Spara skýringarnar á því hvers vegna hvorki leit né ,,Recent items" fann þetta, en það hafði sem sagt lent í zip fæl.

Og mér er stórlega létt. Ekki bara vegna þess að nokkurra tíma vinna bjargaðist, heldur vegna þess að mig langaði ekkert í eitthvað svona ,,fall er fararheill" dæmi. Þvert á móti þá finnst mér bara allt í lagi að hlutirnir gangi skikkanlega fyrir sig. 

Bókasólstóllinn: Ég ætlaði að kaupa rosalega flottan, meðvitaðan úr timbri með smekklegu efni, en fyrst hann var ekki til í réttri stærð þá var bara að gera þetta nógu ýkt. Meðfylgjandi mynd er af þeim sem ég valdi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Það var eins gott að það kom skýring á myndinni þarna í lokin. Hafði horft á hana og hallað haus á víxl -- hvað? Ungversk undrauppfinning? Nýtísku kínverskur reiknistokkur? Forsniðið listaverk á trönum?

Velkomin heim, samt…

Sigurður Hreiðar, 24.10.2007 kl. 08:00

2 identicon

Ég á nákvæmlega svona nema þetta hvíta er í viðarlit hjá mér. Þessi græja er ómissandi. Næsta skref hjá mér verður að fá mér stand fyrir uppskriftabækurnar.

Anna Ólafsdóttir (anno) 24.10.2007 kl. 09:23

3 Smámynd: Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

Ef ég fer aftur í háskólann mun ég fara til Ungverjalands og plata hana til að skipuleggja námið mitt eins og hún gerði síðast ... með nokkrum setningum. Æ, hún er svo mikið æði hún Hanna mín. Væri alveg til í símtal við þig fljótlega. Miss you!

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 24.10.2007 kl. 10:01

4 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Takk, það eru einmitt 3 kostir við að fara til útlanda, hlakka til að fara, njóta þess að vera þar og fá svona krúttleg: velkomin heim komment.

Af hverju er ég ekki hissa, nafna, á því að þú skulir hafa valið svipaðan bókasólstól? Ég er þegar búin að uppgötva að mig vantar næstu stærð fyrir neðan og það er á innkaupaáæltuninni minni.

Við þurfum að hittast, Gurrí, ég ætla ekki að bíða til jóla með að afhenda þér baðbomburnar! En símtal kemur til greina líka sem fyrsta skref.

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 24.10.2007 kl. 10:45

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband