Óhugnanleg áminning um upprisu fasíska afla í Ungverjalandi
22.10.2007 | 00:08
Helgarferðin okkar til Budapest tók óvænta stefnu í dag. Eftir yndislegan laugardag þar sem við skoðuðum borgina vel og vandlega og enduðum á siglingu um Dóná eftir myrkur, þá vöknuðum við sæmilega snemma á hótelinu okkar rétt við Hetjutorgið, fórum inn í garð að reyna að finna skáldastyttu og nutum fegurðar dagsins, þótt farið sé að kólna hér í Ungverjalandi, komið niður í 10-12 gráður á daginn. Svo var borðað á næsta horni, þar sem frægasti matsölustaður Ungverjalands er, en þegar út var komið sáum við mikinn viðbúnað lögreglu, frekar heimulegan þó. Sú sjón leiddi okkur á Hetjutorgið og þar var að safnast saman mannfjöldi. Við hefðum eflaust átt að ranka við okkur þegar okkur var réttur snepill með all mikið stækkaðri mynd af Ungverjalandi, frá eldri stórveldistímanum. En við héldum að þetta væri ef til vill angi af mótmælunum sem enn eru við lýði fyrir framan þinghúsið og hafa verið síðan þau bar hæst fyrir um það bil ári, eftir að forsætisráðherra landsins var staðinn að meinlegum lygum. Samt var eitthvað skrýtið, ekki beint ógn í loftinu heldur frekar óþægilegt andrúmsloft.
Ég gaf mig á tal við fréttamann sem var vel heima í málinu, sá reyndist frá Slóvakíu, sem á kortsneplinum er alveg innlimuð í Ungverjaland. Hann sagði mér að í dag ætti að taka inn nýja meðlimi í varðlið öfgahægrimanna (Ungverskt varðlið/her). Þetta varðlið var stofnað með 56 þátttakendum nú í ágúst og það þótti frekar ógnvekjandi, ekki síst fyrir þá sök að einkennisbúningurinn er nauðalíkur búningi nazistaflokks Ungverjalands á stríðsárunum og málflutningurinn óþægilega líkur. Það sem við urðum vitni að getur ekki annað en vakið óhug. Þegar ég kem heim til Íslands mun ég setja myndir, kannski videóklipp líka, ef þau heppnast. Þarna marseraði 5-600 manna sveit nýliðanna með 56 menningana í broddi fylkingar, þar af sexmenninga í hvítum kuflum fremst.
Þúsund til fimmtán hundruð manns fylltu Hetjutorgið og flestir fögnuðu en aðrir stóðu hnípnari hjá. Túristar röltu í kring og tóku myndir eða tóku ekki eftir neinu með kynningu á umhverfinu í eyrunum. Úr garðinum heyrðust af og til tónar úr flautum indjána frá Suður-Ameríku sem stungu í stúf við þjóðernistónlistina og hernaðarlegan bumbusláttinn meðan her varðliða marseraði inn á torgið. Ræðuhöld kölluðu á klapp og pú, en svo kom að aðaluppákomunni, þegar vel þjálfuð hersingin sór eið til að ganga inn í varðliðið. Allar hugmyndir okkar Hönnu um að skreppa í verslunarferð í bæinn ruku út í veður og vind. Við vorum slegnar óhug og ákváðum að fylgjast áfram með á færi, taka myndir og athuga hvert þessi uppákoma stefndi. Neðar í götunni þar sem hersingin kom var sýning á andfasískum plakötum í tilefni af þessum ,,hátíðarhöldum"en það las ég bara á netinu í kvöld. Rétt er að geta þess að hér er löng helgi vegna þess að á þriðjudag eru 51 ár frá innrás Rússa í Ungverjaland. Tímasetning hægri öfgamannanna er ekki tilviljun.
Slóvakski fréttamaðurinn var undrandi á því að leyft væri að hafa þessa innvígslu með þessum hætti, en rétt er að geta þess að í fyrra misstu stjórnvöld allt úr böndunum þegar þau reyndu að banna mótmæli og eru illa brennd enda ekki sérlega vinsæl. Þennan mótþróa gegn stjórnvöldum eru þessir hægri öfgamenn, sem bera mikinn svip af nýnasisma, að reyna að notfæra sér. Að hluta til hefur þeim tekist að fá til liðs við sig þá sem mótmæltu í fyrra, en þau mótmæli voru gegn forsætisráðherra og slökum stjórnvöldum sem glíma við mikinn efnahagsvanda og alls ekki með nýnasískum svip eins og stefna stjórnmálaflokksins sem ber ábyrgð á stofnun þessa varðliðs, Jobbik. Þessi flokkur hefur einkum beint andúð sinni að sígaunum hér í landi en málflutningur, söguleg skírskotun og táknmál eru undarleg blanda af aðdáun á stórveldisfortíð Ungverjalands, ást á einhvers konar norrænum táknum (rúnaskírskotun í anda nasískra flokka áberandi) og hernaðarhyggju, með aga, hrópum og alls konar ógeðfelldum svip.
Mér fannst nokkuð merkilegt að heyra það mat fréttamannsins fyrrnefnda að Slóvökum fyndist uppgangur þessarra nýfasísku afla í Ungverjalandi raunveruleg ógn. Smá flett eftir heimkomuna til Debrecen segir mér þó að fleiri eru farnir að taka þessa ógn alvarlega, mýmargar síður á netinu gera þetta að umfjöllunarefni (þótt vefútgáfu Budapest Times þyki sýnu verst að túristar tóku myndir af þessu) og New York Times tekur svo djúpt í árinni fyrir um viku í sinni vefútgáfu að segja að heimurinn ætti að beina sjónum að Ungverjalandi og hætta að hafa áhyggjur af hægri öfgamanninum Le Pen í Frakklandi. Annars er það vefútgáfa Sydney Morning Herald í Ástralíu sem greip þá stemmningu sem mér fannst vera á Hetjutorginu í dag einna best þeirra sem þegar hafa skrifað um málið. Við sáum nokkuð um fréttamenn á svæðinu, frá alls konar miðlum, Sky meðal annars, en samt grunar okkur að meiningin sé að reyna að halda þessu eins hljóðu og hægt er. Ungverjar eru stolt fólk og þetta er kannski ekki það sem helst er að státa sig af. Hlekkur að neðan í umfjöllun Ástralanna.
Greinilegt var að mikið var lagt upp úr að ekki yrðu uppþot. Geysimikill fjöldi lögreglumanna út um allt, einkum í hliðargötum og baka til við hús og torg. Ekki mjög sýnilegir þó en margir. Tveir brynvarðir lögreglubílar með rimlum, sýnilega akandi fangaklefar og ekkert smáir, fóru hjá. Þegar mótmælunum lauk var þó ljóst að ekki þurfti á þessum viðbúnaði að halda. Hvað næstu dagar bera í skauti sér er ekki gott að segja en vonandi bera Ungverjar gæfu til að sneiða hjá þessari óhugnanlegu þróun. Ég er fegin að vita dótturina í hinni friðsælu borg Debrecen, en hvorug okkar er svo græn að halda að ekki geti orðið öfugþróun. Fjöldi skandinavískra námsmanna hér um slóðir er þó ákveðinn kostur ef virkilega yrði viðsnúningur.
http://www.smh.com.au/articles/2007/10/22/1192940933468.html
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:15 | Facebook
Athugasemdir
Það var ágætur heimildaþáttur á DR í síðustu viku og heilt tema kvöld um þennan ungverska flokk, foringja hans og fleiri hægri öfgahópa í Evrópu - það væri kannski ráð líka að fá hann fluttan á RÚV.
María Kristjánsdóttir, 22.10.2007 kl. 00:19
Ja, þú segir sannarlega fréttir. Þegar ég talaði um ævintýri sem ávallt skjóta upp kollinum þar sem þú ert, þá átti ég nú ekki við neitt í líkingu við þetta. Segi ekkert í bili um það sem hugsanlega er að gerast í Ungverjalandi. Þarf lengri tíma til að hugsa.
Helga 22.10.2007 kl. 02:49
Takkk fyrir ábendnguna, María, held það væri margt vitlausara en að fá þennan þátt fluttann. Og Helga, öll ævintýri eru með einhverjum ógnum, en svo fer allt vel að lokum. Vona að lífið sé ævintýri.
Anna Ólafsdóttir Björnsson, 22.10.2007 kl. 05:57
Eitt enn, Helga. Það tók sig auðvitað upp gamall blaðamaður, sem auk þess hefur alvarlegan áhuga á pólitískri þróun í heiminum.
Anna Ólafsdóttir Björnsson, 22.10.2007 kl. 05:59
Vá, þetta var hrollvekjandi lesning.
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 22.10.2007 kl. 08:52
Heil og sæl Anna, og aðrir skrifarar !
Hvaða helvítis móðursýki; er þetta í ykkur, konur góðar ?
Guðríður ! Þú ættir að muna kapítalízku hrollvekjuna; hér heima fyrir, dags daglega, hvar sífellt grynnkar á pyngjum vinnandi fólks, sökum ásælni frjálshyggju stjórnardruslunnar og uppi vaðandi gróðaaflanna annarra.
Fasisminn; sem og kommúnisminn, voru á sinni tíð öflug mótvægi, við þann heimskapítalisma, sem er að ganga af öllu venjulegu mannlífi dauðu, í okkar samtíma, sem framtíð; að óbreyttu.
Með beztu kveðjum, úr Árnesþingi / Óskar Helgi Helgason
Óskar Helgi Helgason 22.10.2007 kl. 11:44
Eindrægni; og kjarkur, sumra okkar, að ÞORA að segja meiningu okkar, Tómas minn. Meðfram; eðal vatns uppsprettum, af Hengil svæðinu og nágrenni, nálgast Ölkeldu vatnið þeirra frænda minna, vestur í Staðarsveit, að gæðum; Tómas.
Lyddu hátturinn er; sem betur fer ekki öllum Íslendingum, í blóð borinn !
Hefir þú ekkert, af arðráni kapítalistanna að segja, Tómas minn ? Hefir þú aldrei verið hlunnfarinn í viðskiptum, Tómas ?
Mbk. / Óskar Helgi Helgason
Óskar Helgi Helgason 22.10.2007 kl. 20:24
Tek undir með þér Óskar. Mikil óskapleg guðsblessun sem bæði kommúnisminn og fasisminn bæði var og er fyrir gjörvallt mannkynið.
Jón Bragi Sigurðsson, 24.10.2007 kl. 20:11