Skemmtileg ferð FONÁ (Fugla- og náttúruverndarfélags Álftaness) út í Rana í himnesku veðri - en ,,veðurfræðingar ljúga"
14.10.2007 | 14:37
Hér á Álftanesi eru mörg skemmtileg félög og eitt þeirra er FONÁ (Fugla- og náttúruverndarfélag Álftaness. Félagið stendur meðal annars fyrir gönguferðum um falleg svæði hér á nesinu, og ein slík var farin í dag, út í Rana, sem er sá hluti Bessastaðaness sem næstur er Garðabæ og Kópavogi. Mér er stundum kippt með í slíkar ferðir til að miðla sögufróðleik um nesið á vegum ýmissa félaga og gönguklúbba. Það tryggir mér ýmsa skemmtilega göngutúra árið um kring. Hóparnir eru misstórir en allar þessar ferðir eru hver annarri skemmtilegri og ferðin í dag var líklega sú fyrsta sem ég fór að hluta til á slóðir sem ég hef ekki áður gengið hér á nesinu, það er ysta leiðin út í Rana var mér gersamlega ný gönguleið. Margar álftir á leiðinni, þær hafa verið ábendandi á túnum og tjörnum hér að undanförnu, enda er þetta Álftanes. Þarna trítluðum við á milli hesta sveitunga okkar, sem voru í haustbeit og væntu mikils af okkur. Svolítið aðgangsharðir, en það var bara krydd í tilveruna. Við skoðuðum Skothús sem er hæsti punktur hins viðfeðma Bessastaðaness og gengum síðan seinasta spottann út í Rana í fjörunni og vorum þá komin ótrúlega nálægt Sjálandi í Garðabæ, Arnarnesi og Kópavoginum. Á myndinni er raninn eins og smá fingur sem bendir að Eskinesi og myndar um leið ós á Lambhúsatjörn, sem er nokkurn veginn fyrir miðju að neðan á myndinni. Þarna eru mýrar og móar, fallegar íssorfnar klappir og fjörur, mismunandi greiðar yfirferðar. Víkin við Ranann heitir Músavík en við fórum upp á land aftur áður en við komum í hana, enda greiðfærast þá leiðina til baka. Takk, FONÁ fyrir að drífa mig í þessa skemmtilegu ferð.
Veðurspáin var hins vegar frekar uggvænleg og allir pollagallar með meiru dregnir upp, þótt ekki væri hægt að finna allt til sem heppilegt hefði verið. En hvað sagði ekki skáldið: Veðurfræðingar ljúga! ... og það var rétt í dag. Við fengum ekki dropa á okkur þrátt fyrir úrhellisspá, heldur þvert á móti sólarglennu og indælis veður alla leið. Ég er reyndar mikill aðdáandi veðurfræðinga og veðurfregna, en í þetta sinn stóðust þessi brigslyrði, sem betur fer, og veðrið var gott, en eflaust hafa einhverjir tekið mark á spánni og hætt við ferðina, fyrir utan alla þá sem tóku kirkjukaffið framyfir. Það er alltaf vinsælt. En við göngugarparnir vorum brosandi hringinn eftir ferðina þar sem við mættum prúðbúnum kirkjugestum á hlaðinu á Bessastöðum við í polla/göngugöllunum og þeir í sparifötunum. Allir vonandi jafn uppnumdir og við eftir stefnumót við náttúru og sögu nessins okkar.
Flokkur: Menning og listir | Breytt s.d. kl. 14:59 | Facebook