Stríð og friður í Reykjavík
9.10.2007 | 21:32
Stríðið undanfarna daga í kringum REI hefur verið undarleg uppákoma og einhvern veginn finnst mér að sú saga sé ekki fullsögð enn, þótt viðburðarrík sé. Tilurð sögunnar er auðvitað sorglegt dæmi um blindu í kjölfar valds. Helga spyr í fróðlegum pistli í fyrri umræðu um sama efni hér á síðunni hvort vald spilli - hugleiðingar hennar standa fyrir sínu og ekki þarf vitnanna við, oft er hún einmitt fylgifiskur valdsins, spillingin.
Þess vegna er mannbætandi að sjá að ekki nota allir vald sitt á sama hátt. Seint verður því neitað að Yoko Ono og John Lennon voru meðal valdamestu persóna listaheimsins meðan þeirra beggja naut við. Auðvitað gengu þau gengum hæðir og lægðir, en það verður ekki af þeim skafið að þau hafa verið meðal öflugustu talsmanna friðar í heiminum. Yoko hefur haldið merkinu á lofti og ég þarf ekki að rekja hvers vegna augun beinast nú að henni hér á Íslandi. Sá súluna fallegu úr Reykjavík um helgina, en þá var greinilega prufukeyrsla í gangi, en þarf eflaust að fara í smá útúrdúr úr ljósamenguninni í götunni minni hér á Álftanesi til þess að upplifa hana núna á eftir. Hlakka til. Það pirraði mig ekki einu sinni að sjá Vilhjálm borgarstjóra í öðru hlutverki í kvöld en undanfarna daga, hann er vissulega gerandi í því stríði sem stendur í borginni út af REI en hann fékk að taka þátt í merkilegri friðarhátíð í kvöld og þökk sé listakonunni Yoko Ono fyrir að framkvæma þennan fallega draum hér á heimaslóð okkar Íslendinga. Mig grunar að þessi fallega gjöf muni hafa dýpri áhrif á umhverfið en okkur grunaði þegar þessi hugmynd kom fyrst til tals.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Tek undir með þér að þessi gjöf, sem sannarlega er falleg, muni hafa djúp áhrif á umhverfið. Látlaus og bjartur minnisvarði um fallega hugsun og góðan vilja.
Ekki ætla ég að leika spákonu en leyfi mér þó að halda að þessi súla verði strax tákn fyrir Reykjavík og Ísland í huga margra.
Stjórnvöld hafa ekki staðið sig í að gefa ferðamannalandinu Íslandi ímynd. Tilfinning mín er sú að japanska listakonan Yoko Ono hafi tekið að sér það verk og finnst hún hafa gert það með miklum sóma.
Má ég í lokin auglýsa hér að á morgun, miðvikudag, kl. 16:00 verður hneykslið innan OR tekið fyrir á fundi í borgarstjórn Reykjavíkur og hvetja fólk til að standa með skoðunum sínum með því að koma á pallana.
Helga 9.10.2007 kl. 22:20
Ég var stödd í garði á Langholtsveginum í kvöld þegar ég leit upp og sá friðarsúluna. Mér fannst hún mjög falleg og ég hlakka til að sjá Spaugstofuna næsta laugardag
Oddrún , 9.10.2007 kl. 23:34