Magnaðir miðlar - kosning um fegursta orð íslenskrar tungu heldur áfram enn um sinn
20.7.2007 | 08:13
Mér finnst bloggið magnaður miðill. Það sem er svo magnað er ,,gagnvirknin" (hér vantar okkur betra orð - lýsi eftir því ;-). Frá því kosningin um fegursta orð íslenskrar tungu hófst hér á einkafjölmiðlinum mínum sem líkist frekar stofu með fullt af gestum, kunnugum og ókunnugum, sem spjalla saman og koma með skemmtilegar athugasemdir, hefur verið stöðug þátttaka í því góða verkefni að finna fegursta orð íslenskrar tungu.
Í gær blönduðust síðan fjölmiðlar, fyrst Sandkornið hjá DV og síðan sjónvarpið, í málið. Og kosningin, sem var dala, tók stórt stökk upp á við. Magnaður miðill, sjónvarpið, og fréttakonan sem hélt utan um málið hafði skemmtilega og ferska sýn á þetta uppátæki. Tókst alla vega að koma mér á óvart þegar hún spurði hvort ég ætlaði ekki að standa fyrir kosningu um ljótasta orðið ;-) Það mun ég reyndar ekki gera, en fyndin spurning.
Enn leiðir orðið ljósmóðir kosninguna en bilið minnkar stöðugt milli þriggja efstu orðanna og orðið dalalæða sækir fast að ljósmóður, þannig að hver verður að styðja sitt orð. Ég hef látið huggast yfir vandræðunum sem ég var að komast í vegna allra góðu ,,nýju" tilnefninganna. Þessi orð eru ekki týnd, þau verða annað hvort sýnd á góðum stað eða með í næstu keppni.
Flokkur: Menning og listir | Facebook
Athugasemdir
Frábær hugmynd og gaman hvað margir taka þátt í kosningunni. Látum ljótasta orðið eiga sig.
Eg. 20.7.2007 kl. 08:26
Held að Dalalæða ætli að taka þetta ... svaka er orðinn lítill munur á þessum efstu. Sá orð í gær hjá þér, röðull, mér finnst það líka rosalega fallegt! Það er svo mikið til af fallegum orðum! Helgarknús á þig.
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 20.7.2007 kl. 08:32