Hvað á ég að gera við allar nýju tilfnefningarnar í keppnina um fegursta orð íslenskrar tungu?
19.7.2007 | 17:27
Sum ykkar hafið fylgst með þessari keppni um fegursta orð íslenskrar tungu frá upphafi, önnur skemur og sum jafnvel að koma inn á síðuna í fyrsta sinn. Keppnin er komin langt og valið stendur núna aðeins um þau 12 orð sem fengu flestar tilnefningar á meðan tekið var á móti tilnefningum. Nú er búið að loka fyrir tilnefningar, auk þess að eyða nokkrum tíma í að gera upp á milli þeirra 87 orða sem voru tilnefnd tímanlega. Og eftir standa þau 12 orð sem sjást hér í skoðanakönnuninni á vinstri hönd. Endilega veljið ykkar orð, ef þið eruð ekki búin að því.
En ... vandinn er sá að enn streyma inn tilnefningar um flott orð, þær eru orðnar hátt á annað hundrað ef ekki að nálgast þriðja hundraðið. Meira að segja í símtölum koma upp ný orð sem fólk vill koma að, lausaleikur, til dæmis. Og öll þessi glæsilegu orð, hvað á ég að gera við þau? Opin fyrir öllum tillögum. Ég safna þeim alla vega saman. Kannski þarf ég að koma þeim fyrir á vefsíðu og halda aðra keppni. Kannski vilja aðrir aðilar taka við. Fjölmiðlar eru farnir að hafa áhuga á málinu og þetta er áhugaverð glíma við að gera það rétta, sýna öllum orðum fullt réttlæti innan þess lausa og skemmtilega ramma sem bloggið er og verður.
Flokkur: Menning og listir | Breytt s.d. kl. 17:29 | Facebook
Athugasemdir
Rún er fegursta orð íslenskrar tungu.
mín skoðun og örugglega margir sammála ef pælt er í því.
Kristrún Ósk Eggertsdóttir 19.7.2007 kl. 19:39
Sting upp á orðinu drengur.
Hann var drengur góður
Svanur Jóhannesson 19.7.2007 kl. 19:39
Blómstur er fallegasta orðið
Jóhanna 19.7.2007 kl. 19:56
Mér finnst kvensnipt sárlega vanta á þennan lista. Og seiðskratta.
Kolgrima, 19.7.2007 kl. 21:07
Birta...
Svavar 19.7.2007 kl. 21:58
Sá umfjöllun um þessa keppni í fréttum í kvöld og má bara til með að láta vita af einu af fallegustu orðum íslenskrar tungu að mínu mati og er það orðið "röðull"...en þar sem tilnefningum er lokið ætla ég að gefa "ljósmóðir" mitt atkvæði. Frábær hugmynd og gæti orðið að árlegum sið, jafnvel kosningu um "orð ársins" :)
Kristín Arnþórsdóttir 19.7.2007 kl. 23:26
Ljósmóðir fær mitt atkvæði.
Nóttin fellir friðarlín - yfir faðmlög mín og þín - er afar fallegt.
JT
Jóhann Tómasson 19.7.2007 kl. 23:55
Sæl öll, sá þetta fyrst í fréttum kvöldsins og þykir mikið til koma. Mér finnst tilvalið að safna orðunum saman á slóð svo að fólk geti skoðað, og einnig fyndist mér frábært ef að fólk myndi segja hvað þeim finnst fallegt við orðin!! Sjálf kaus ég orðið Eilífð því mér finnst það renna mjög vel í munni auk þess sem það inniheldur bæði EI og Ð, þe tvö af sérkennum okkar tungu. Smekkur manna er misjafn og finnst mér sum orð á listanum ekki höfða til mín og langar því að heyra hvað fólki finnst fallegt við þau :)
kv. MS
María 20.7.2007 kl. 02:09
Frábært, frábært, frábært! Held að þetta verði árviss atburður! Orð ársins ... Sá minnst á þetta í 10 fréttum í gærkvöldi, kíki á aðalfréttirnar í gegnum Netið. Frábært og verðskuldaður áhugi, þetta er brilljant hugmynd!
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 20.7.2007 kl. 07:57
Takk öll fyrir góðar tillögur, yndisleg orð og góða þátttöku. Og Árni, þú hittir naglann á höfuðið, þetta er efni í sýningu!
Anna Ólafsdóttir Björnsson, 20.7.2007 kl. 08:01
Veit þú ert ekki að biðja um tilnefningar en má til með að nefna orðið "fiðrildi" sem mér finnst eitt fallegasta orð íslenskrar tungu, hljómar vel og auk þess eru fiðrildi falleg dýr.
Tek undir með Maríu, það væri gaman að sjá ástæður fyrir vali á orðunum, mér finnst eins og sum þeirra séu þarna aðeins út af merkingu orðsins, ekki orðinu sjálfu (eða er ég kannski sjálf blinduð af merkingu orðsins fiðrildi )
Fríða 20.7.2007 kl. 08:33
Það fer ekkert á milli mála að sum orðin eru aðallega út af jákvæðri merkingu en önnur af hljómfegurð, sem betur fer hafa margir komið með skemmtilegar röksemdir fyrir vali sínu.
Anna Ólafsdóttir Björnsson, 20.7.2007 kl. 09:12
Sting upp á orðinu sólskríkja
Þuríður Kristjánsdóttir 20.7.2007 kl. 11:17