Í yndislegri, sólríkri orðleysisveröld
16.7.2007 | 09:19
Helgin var yndisleg, sambland af dugnaði, hvíld, einveru og félagsskap og umgjörðin fegurð Borgarfjarðar og sólin sem hefur sannarlega glatt okkur þetta sumarið, frá og með því að það kom. Við náðum í hestana hans Ara upp á Kjalarnes snemma á laugardagsmorgun og komum þeim í Skorradalinn til Halla sem verður ferðafélagi Ara í hestaferð eftir tvær vikur. Buðum nokkrum hestamönnum í miðdegismat á laugardaginn, og einkum var nú gleði hjá meðfylgjandi hundum sem fengu beinin úr hryggnum til áts og afnota á eftir. Svo fóru hestamennirnir að æfa sig og hestana, stutt á laugardeginum og miklu lengri ferð á sunnudeginum, en farið hægt yfir til að þreyta ekki hestana um of.
Heiti potturinn okkar sýnir nú hetjulega tilburði eftir nokkra byrjunarerfiðleika og í morgun, þegar við slitum okkur nauðug frá Borgarfirðinum, til að fara til vinnu, var hitinn kominn í 30 gráður að mati Ara. Þannig að eftir vinnu skal farið með vatnshitamælinn sem gleymdist aftur uppeftir. Þótt maður þurfi að vakna aðeins fyrr í vinnuna með því að búa uppfrá, þá er það vel þess virði. Kjartan vinnufélagi minn, sem hefur staðið í ströngu í ýmsum verkefnum með mér að undanförnu, kom í smá heimsókn úr næsta sumarbústaðahverfi í gærkvöldi, ásamt Berglindi sinni og Tinnu litlu og tíkinni Emily.
En mestalla helgina hef ég sleikt sólina, pikkað aðeins á tölvuna og lesið smá lokaverkefnisefni, á vindsæng á neðri pallinum í bústaðnum. Eftir að hafa lifað í heimi orða að undanförnu eru þessi orðlausu síðdegi skemmtileg tilbreyting. Vel hvíld og sólbrún er ég afskaplega sæl, en auðvitað kemur að því að við fáum okkur nettenginu í bústaðinn líka, en allt hefur sinn tíma.
Ég held að krökkunum okkar þyki alveg ágætt að hafa hitt heimilið út af fyrir sig á meðan foreldrarnir eru hálf fluttir upp í bústað, en svo er skipt um vaktir af og til og þau hafa átti sína góðu spretti uppfrá líka, Óli fyrr í sumar og Hanna núna í seinustu viku, þannig að það er með ólíkindum hvað einn sumarbústaður nýtist vel ;-)
Meginflokkur: Lífstíll | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:26 | Facebook
Athugasemdir
Þú ert forréttindakona Anna mín
Jenný Anna Baldursdóttir, 16.7.2007 kl. 10:20
Það er sannarlega rétt. Það er eins og allt hafi gengið upp seinustu árin, þótt við vinnum ennþá allt of mikið (þurfum að vinna í að koma þeim þætti tilverunnari í lag) þá er samt eins og við höfum meiri frítíma núna en áður og nýtum hann betur. Sumarbústaðurinn er auðvitað ekkert nema happ á happ ofan, byrjaði sem útborgun á húsi í Borgarnesi sem við áttum 17% í og endaði með að fá gefins heitan pott, með fullt af æðislegri heppi (og slatta af dugnaði) inni á milli. Þetta er sældarlíf, einkum þegar heimilið heima er enn í endurbyggingu og minnir stöðugt á óunnin verk. Held að krakkarnir hafi meira þol fyrir því ;-)
Anna Ólafsdóttir Björnsson, 16.7.2007 kl. 11:15