Yfirbragð eða merking? Fegursta orð íslenskrar tungu valið

Ég hef fengið margar skemmtilegar tilnefningar og athugasemdir í leitinni að fegursta orði íslenskrar tungu. Rökstuðningurinn sem fylgir tilnefningunum er svo skemmtilegur og oft svo fallegur líka. Og svo koma spurningarnar: Eiga tilnefningarnar að byggjast á merkingarlegri fegurð, eða hljóðfræðilegri? var ein spurningin sem ég fékk. Því er til að svara að keppnin lýtur sínum eigin lögmálum og fer þangað sem þátttakendurnir leiða hana. Mitt er eingöngu að leggja til rammann. Mér sýnist á tilnefningunum að hvort tveggja ráði för, ekki síður merkingin, það eru æði mörg jákvæð og skemmtileg orð tilnefnd. Húmor og vangaveltur um tungumálið hafa líka greinilega áhrif.

Í fyrri tilraunum mínum, sem aldrei náðu þessu flugi sem við erum komin (saman) á núna, þá held ég að hljóðfræðileg fegurð hafi algerlega ráðið ferð. Mig minnti endilega að himinblámi sem Gurrí tilnefndi hefði sigrað, en það orð fékk bara 3% atkvæða. Blikur var orðið sem sigraði þar, jöfn í öðru og þriðja sæti voru öldugjálfur og brynja. 

Tvöfalt afmæli truflaði mig í að taka saman lista yfir þær tilnefningar sem eru komnar inn, en þær eru allar sjáanlegar í athugasemdakerfinu. Spurning hvort ég á að raða orðunum eftir því hvenær tilnefningar bárust eða í stafrófsröð? Auðvitað væri mest gaman að raða þeim eftir því hvernig þau passa saman, mér finnst til dæmis varla hægt að setja saman orðin jæja og himinblámi. En eflaust er það smekksatriði. Röðun er merkilegt fyrirbæri, bæði í nýja faginu mínu, tölvunarfræði, og eins í hugvísindum og listum, þar sem ég á bakgrunn. Bara eitt atriði, hvernig fólk raðar bókunum sínum í hillur, er heilmikil stúdía.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurgeir Orri Sigurgeirsson

Erfitt að segja hvað sé fegursta orðið. Þau eru svo mörg, sá þetta bara áðan. Fjaðrablik Jónasar er fallegt. Ljósmóðir er líka fallegt. Stundum finnst mér eitthvert orð vera afar fagurt, en ég man ekkert í svipinn. Skrautfjöður, nauðlending, brigsl. Þau eru svo mörg. En þetta er skemmtilegur leikur.

Sigurgeir Orri Sigurgeirsson, 6.7.2007 kl. 23:51

2 Smámynd: krossgata

Fyrir mig er breytilegt frá einum tíma til annars hvað mér finnst vera fallegasta orðið eða besta orðið.  Besta orðið er ekki endilega það fallegasta heldur.  Núna til dæmis á ég erfitt með að gera upp á milli hvort ég styðji orðið ljósmóðir, sem mér finnst bæði hljóma fallega og hafa fallega merkingu eða öndvegi, sem mér finnst sterkt orð en ekki eins hljómfagur og ljósmóðir. 

Á endanum held ég að ég styðji öndvegi, það hefur eitthvað svo djúpar rætur.  Streymi, straumur eru annars falleg orð, var búið að tilnefna þau?

krossgata, 7.7.2007 kl. 00:05

3 identicon

jamm .  Eitt er víst að við orð og merking orðanna fylgist að.  Orðið "Helvíti" verður varla valið enda orðið neikvætt.

 En orð , eins og Túnfífill,  Snjóþekja, Þingvellir, ljósmóðir, himinblámi, Dalalæða, Englasöngur og fullt af öðrum koma sterk inn. 

Þetta er afar erfitt verkefni.  En skemmtilegt.

Jónas 7.7.2007 kl. 00:10

4 Smámynd: Thelma Ásdísardóttir

Ég hef alltaf verið heilluð af orðinu "Firrð", svo fallegt orð yfir fjarlægð og fer sérlega vel með orðinu "Nánd"

"...Í firrð og nánd þig finna má

stafa nú ljósgeislum stjarnan smá"

Thelma Ásdísardóttir, 7.7.2007 kl. 00:39

5 Smámynd: Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir

nú vil ég nefna til sögunnar orðið...Andvari

Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir, 7.7.2007 kl. 08:31

6 identicon

Skemmtilegt uppátæki hjá þér.

Ég tilnefni orðið þel margra hluta vegna

Helga 7.7.2007 kl. 13:07

7 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

Morgunroði...er það ekki svolítið fallegt orð? Hljómar allavega vel.

Halldór Egill Guðnason, 7.7.2007 kl. 15:38

8 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

Eirð er fallegt orð.

Heimir Lárusson Fjeldsted, 7.7.2007 kl. 20:17

9 Smámynd: Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

Datt eitt í hug sem mér finnst fallegt ... FJARSKI. Vil þó ekki tengja það orðinu "fjarskalega" sem var algengt í gömlum barnabókum. Líst vel á það sem komið er. Hlakka til að sjá meira!

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 8.7.2007 kl. 01:33

10 identicon

Af þessum 13 orðum sem eru nú á síðunni kýs ég  í þessari röð: andavari, blær, hrynjandi, firrð, dalalæða.  Tel að valið tengist eigin nafla. þ.e. náttúru- og ljóðaunnanda fyrst og fremst.  Orðið móða í merkingunni lækur, á,  finnst mér líka fallegt.  Sögnin 'að dúra' finnst mér líka falleg, 'það dúraði á milli vindkviða'. Orðið þýðir að blunda eða slota, lægja snöggvast.

Kv. Sesselja

Sesselja Guðmundsdóttir 19.7.2007 kl. 19:55

11 identicon

Kórgeislun er afar fallegt orð og ber með sé kröftug myndræn hughrif. 

Skemmtileg dægradvöl:) leikum okkur með orð.  

Viðar Aðalsteinsson 19.7.2007 kl. 20:01

12 identicon

Sael,skemmtileg keppni. Fegursta islenska ordid hefur mer lengi thott vera ordid gullhamrar. Mer finnst thad endurspegla natturu islands vel auk thess sem merking thess er i senn jakvaed og glaesileg.

Gangi ther vel,

Ragnhildur.

Ragnhildur Arnljotsdottir 20.7.2007 kl. 11:11

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband