Verður Íslandi drekkt í skógi ? Virkjanablús 2. hluti

Stóriðja, virkjanir, stóriðja. Það er eins og aldrei áður hafi verið eins mikið kapphlaup um að virkja meira og koma meiri stóriðju á. Öllum brögðum er beitt, forstjórnar mæta með alls konar gylliboð fyrir sveitarstjórnir í meintum virkjana- og stóriðjusveitarfélögum og það nýjasta: Ekkert mál að uppfylla Kyoto, bara að planta 100 milljónum trjáplantna. Skógrækt er ósköp hugguleg en í guðanna bænum ekki drekkja landinu í skógi! Ég er næstum farin að iðrast þess að hafa keypt mér syndaaflausn á volvo-inn minn undir dulnefninu kolefnisjöfnun.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Einar Þór Strand

Sástu ekki strax að þetta er svindl, ég hef alltaf haldið að þú svo klár að þú myndir ekki láta gabbast.

Einar Þór Strand, 25.6.2007 kl. 20:17

2 identicon

Ég missti kjálkann niður á ég veit ekki hvað þegar ég horfði á þessa frétt. Ég hef undanfarið verið að dásama það við ýmsa hvað við eigum gott hér að landslagið skuli ekki meira og minna vera hulið vegna hárra trjáa. Rifjaði t.d. upp þegar ég keyrði frá flugvelli í Norður-Svíþjóð og upp í einhvern smábæ, enn norðar. Ég sá ekkert nema tré á leiðinni og var satt að segja orðin dálítið pirruð á að sjá ekki einu sinni neitt af Svíþjóð þó að ég keyrði um hana í tvo eða þrjá klukkutíma. Ég man hvað ég varð svo ánægð þegar ég komst að því að hótelið sem ég átti að gista á var skíðahótel hátt uppi í einhverri hlíð. Loksins þegar ég var komin þangað sá ég útlínur af einhverju landslagi. Ég vil EKKI drekkja Íslandi í skógi takk fyrir!

Anna Ólafsdóttir (anno) 25.6.2007 kl. 20:21

3 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Nei, ég er ekki svo klár að fatta hvert svindlið er? Fæ ég aðstoð?

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 25.6.2007 kl. 20:33

4 Smámynd: Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

Það er ömurlegt að keyra um Svíþjóð og Finnland, alla vega sums staðar. Ég afplánaði langa rútuferð þar sem ekkert sást nema hálfdauð tré (úr mengun) við veginn og aðeins lífvænlegri tré lengra frá! Hafa Norðmenn og Svíar nokkurt fjarlægðaskyn? Ja, alla vega ekki þeir sem ætluðu að skreppa frá Skaftafelli upp á Vatnajökul þennan klukkutíma sem rútan stoppaði!

Það er mikill kostur hér á Íslandi að hafa útsýni. Tek sko undir þetta hjá þér. 

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 25.6.2007 kl. 21:10

5 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Nonni frændi var heldur betur orðinn uppgefinn á Svíþjóð eftir að hafa búið þar um tíma. Samt held ég að tré fari Svíþjóð og Finnlandi betur en Íslandi. Allt er gott í hófi, allt í lagi að hafa nokkra góða trjálundi.

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 25.6.2007 kl. 21:28

6 Smámynd: Ester Sveinbjarnardóttir

Það er líka mikil árátta hérna á Íslandi að planta trjám við þjóðveginn.

Ester Sveinbjarnardóttir, 25.6.2007 kl. 21:30

7 identicon

Ég sá ekki umrædda frétt en hef nú engu að síður skoðun á málinu (bloggeigandi á líklega ekki von á öðru ). Það gerist, held ég, seint að Íslandi verði "drekkt" í skógi, svo því kvíði ég ekki. En ég er sammála ykkur um að það er lítið spennandi fyrir Íslendinga að aka tímunum saman og sjá ekkert nema skóg og reyna að gera sér í hugarlund hvernig hæðin að baki skóginum lítur út, eins og ég gerði þegar ég ók Tékkland þvert og endilangt fyrir fáum árum.

Tékknesk vinkona mín, sem býr hér á landi hálft árið og heima í Tékklandi hinn helminginn, og hefur gert í nokkur ár, byrjaði lengi vel alla daga á því að fara upp í Öskjuhlíð til að vera innan um tré (frá blautu barnsbeini var skógur hluti af henni). Þegar hún síðan eftir nokkurra ára búsetu hér á landi hringdi til mín einn morguninn og spurði hvort ég væri til í að fara í göngutúr meðfram Sæbrautunni varð ég orðlaus. Meðan ég leitaði að e-u til að segja náði hún að bæta við: "Þetta er dagurinn sem ég er búin að bíða eftir. Núna held ég að ég sé að verða íslensk því mig langar niður að sjó. Mig langar að njóta útsýnis". Ég er sammála vinkonu minni um að Íslendingar þurfa útsýni, m.a. fjallasýn til að líða vel og finna sig. Og þá rifjast upp fyrir mér, Anna, þegar við þutum báðar niður að sjó í Trieste: Þú til að skoða bátana og ég til að horfa á sjóinn.

En þá að því að það sé í lagi sé að subba út bara ef trjám er plantað í staðinn og það þykir mér vera alvarlegasti þátturinn. Ég veit ekki betur en að Kyoto-bókunin styðjist við hugmyndina sem á íslensku er kölluð sjálfbær þróun (sustainable development). Sjálfbær þróun byggir ekki á því að subba megi út (t.d. með álverum) bara ef e-ð jákvætt er gert í staðinn - eins og mér virðist margir "halda".  Nei, sjálfbær þróun byggir á fjórum meginstoðum og þær eru efnahagslegar, félagslegar, menningarlegar og umhverfislegar og jafnvægi verður að vera milli þeirra allra. Jafnvægi er hér lykilatriði. Fyrirtæki sem ætlar að sóða út íslenska náttúru og koma sér í mjúkinn hjá þjóðinni með því að planta trjám er því að nýta sér hugmynd (sjálfbær þróun) sem hefur á sér gott orð, en um leið er það að lítilsvirða það sem hún felur í sér. Það er það sem mér þykir verst að hugsanlega vilja ráðamenn taka þátt í þeim sóðaskap og lítilsvirða alþjóðlegt verkefni sem byggir á skynsamlegri framtíðarsýn.

Að lokum þá bind ég vonir við Þróunni umhverfisráðherra og trúi því að sjái hún möguleika á að stöðva þessa gengdarlausu áfergju í að eyðileggja Ísland með virkjunum og stórirðju þá gerir hún það. Þurfi hún að lúta í lægra haldi þá grunar mig að álverin standi traustari fótum á Íslandi en mér og líklega ykkur hinum líka hefur verið sagt.

Helga 25.6.2007 kl. 22:01

8 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Spurning hvað Þórunn er í góðum félagsskap (þá á ég við hugarfar meirihluta samstarfsfólks hennar í ríkisstjórn) og hvers réttsýnir umhverfisverndarsinnar mega sín. Mér finnst allt stefna í það að ekki verði mikið hlustað á þau. Og það er hrikalegt. Vissulega skrifa ég ekki undir þá skrumskælingu á sjálfbærri þróun sem þessi kolefnisjöfnun er, en það þarf samt að taka hana alvarlega ef þetta skyldi nú vera það sem tekið verður mark á, og ekki get ég nú heyrt betur. 

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 25.6.2007 kl. 23:39

9 identicon

Sammála þér um hér skiptir máli hvernig félagsskapurinn er og Þórunn er ekki öfundsverð. Mig grunar að hún þurfi að taka á öllu sínu næstu vikurnar - spurning hvert það leiðir. En bestu óskir til hennar.

Frá því ég var hér fyrr í kvöld hef ég horft á umrædda frétt. Ég held að það þurfi ekki að hafa mörg orð um það að stóriðjan og áliðnaðurinn veit upp á sig skömmina og sökina. Það grípur enginn til svona orðalags nema hann hafi e-ð að fela og kjósi að pakka því inn í huggulegar umbúðir.

Hvað er okkur hinum ætlað að hugsa næstu daga þegar talað verður um verkefnið að "kolefnisjafna"? -Eigum við þá hugsa að loksins sé nú komið að því að "kolefnisjafna" landið sem hefur verið svo óskaplega "ókolefnisjafnað" til þessa að ekki má lengur við una.  Fjandakornið, vonandi sér fólk í gegnum feluleikinn sem hér er verið að koma af stað.

Já, Anna, það þarf að taka þetta sem kallað er "kolefnisjöfnun" alvarlega - mjög alvarlega. Þetta orð ætti að hringja viðvörunarbjöllu í hverjum kolli og fá fólk til að spyrja: Hvað eru þeir nú að bralla? Hvað þeir þurfa að fela með þessu orði sem lítur svo fræðilega út... þar til.. skoðað er hvað liggur að baki því!!!

Helga 26.6.2007 kl. 00:21

10 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Svo upptekin af þessari umræðu, Helga, en ætlaði að spyrja að allt öðru. Ég er ekki viss hvort ég fékk sms eða ekki í dag (símarnir mínir svolítið batteríslausir og minnisfullir og ég missti út einhver sms)? Fékk ég sms frá þér (mér finnst of seint að senda sms til þín núna) og ef svo var var það jákvætt eða neikvætt?

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 26.6.2007 kl. 01:07

11 identicon

Takk fyrir að spyrja. Nei, þú fékkst ekki sms í dag, en ég sendi þér á morgun.

Helga 26.6.2007 kl. 01:40

12 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Ég hef einmitt verið að velta þessu fyrir mér.  Skógrækt er af hinu góða, og ég hef sjálf plantað mörg þúsund trjám hér í nágrenni við mig.  En það er bara ekki sama hvernig að þessu er staðið.  Og eins og þetta lítur út með kvóta og kolefnisjöfnun eins og það heitir víst nýjasta æðið.  Þá ber þetta svo sannarlega keim af populisma og græðgi en ekki hugsjón, eða til að klæða landið okkar skógi á skynsamlegan hátt.  Því eins og fram hefur komið hér, þarf að huga að því hvar er plantað og hvað fær að vera í friði og njóta sín sem íslenskt landslag og náttúruperlur.  Það er auðvelt að skemma og erfitt að snúa því til baka sem vitlaust var gert í upphafi.   Þetta æði er ekki af hinu góða að mínu mati.  O undirliggjandi græðgin í orkufrekan iðnað er hrollvekjandi.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 26.6.2007 kl. 08:47

13 Smámynd: Steinunn Helga Sigurðardóttir

sammála síðasta ræðumanni. elska skógana í danmörku ! elska víðátturnar á íslandi.

skil ekki þessa stóriðju árattu 

ljós til þín

steina 

Steinunn Helga Sigurðardóttir, 26.6.2007 kl. 09:43

14 Smámynd: Björgmundur Örn Guðmundsson

Ísland var skógi vaxið milli fjalls og fjöru hér áður fyrr og því ekkert því til fyrirstöðu að endurheimta landið aftur. Lágvaxinn birkigróður gæti sómst sér vel.

Þetta þarf hins vegar allt að vanda en við megum ekki festast í viðjum eigin skotgrafa því ég held að þessi hugmynd sé skoðunar virði, spurning hvort við ættum ekki að ganga lengra og gróðursetja erlendis líka þannig erum við ekki að kaffæra landinu í skógi (sem reyndar var hér áður) en leggja okkar að mörkum að kolefnisjafna landið.

Þetta er mjög áhugaverð umræða sem á eftir að spinnast út frá þessari hugmynd, um að gera að kasta henni ekki út af borðinu strax þó hún tengist álverum.

Björgmundur Örn Guðmundsson, 26.6.2007 kl. 15:01

15 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Ég mátt bíða æði lengi eftir seinustu, ágætu, ábendingunni. Hélt hún kæmi fram fyrr. Þegar ég var að læra sagnfræði fyrir æði mörgum árum var grimmt deilt um hvort Ísland hefði verið viði vaxið milli fjalls og fjöru eða víði (og þar með kjarri) vaxið. Lönd taka hins vegar breytingum í aldanna rás og ég held að umræðan hér á síðunni beri með sér að við flest viljum ekki glata of miklu af útsýninu og sá fjöldi trjáplantna sem hér um ræðir vekur óneitanlega umhugsun. Varðandi kolefnisjöfnun út af stóriðju, þá held ég hins vegar að sú syndaaflausn dugi ekki til að sannfæra okkur sem höfum efasemdir um þá atvinnustefnu og þá gróðureyðingu sem af henni leiðir í formi virkjana. Og það fæ ég ekki séð að verði jafnað neins staðar. En gróður er góður, á réttum stöðum alla vega.

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 26.6.2007 kl. 17:00

16 identicon

Í framhaldi af athugsemd BÖG þá held ég að það sé rétt að undirstrika hvað margt fólk er ginkeypt fyrir hlutum ef þeir eru bara settir í söluvænlegar umbúðir (innihaldið óskilgreint, þörfin óskilgreind, ástæðum haldið leyndum, en umúðirnar eru söluvænlegar).  Kolefnisjöfnun? Hvað þýðir þetta? Hvaðan sprettur þörfin? Hvað er þetta langt ferli? Hvenær verður jöfnun náð?

Helga 26.6.2007 kl. 17:22

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband