Grasofnæmi og andúð sumra á köttum

Þegar við Ari minn ákváðum, barnung, að byggja okkur hús hér á Álftanesi, þá létum við burðinni í þakinu miðast við níðþungt torfþak. Síðan kom í ljós að dóttir okkar með er heiftarlegt grasofnæmi og sonur okkar með heyofnæmi, þannig að horfið var frá því snarlega. Hins vegar er tún fyrir utan húsið og svo slatti af öðrum mis-vingjarnlegum jurtum, nokkuð villt allt saman. Gráa beltið kringum húsið hrekkur skammt, enda ekki nema 1-3 metra fyrir utan malbikaða planið okkar. Þannig að við erum á mjög gráu (les grænu) svæði heilsufarslega fyrir krakkana okkar.

En það er segin saga, ef fréttist af ofnæminu þá eru fyrstu viðbrögð svo óskaplega margra: Verið þið þá ekki að losa ykkur við köttinn? (áður kettina). Nei, ekkert frekar en hneturnar í eldhússkápnum! Allt of margir nota ofnæmi sem skálkaskjól til að hata ketti og ég hef bara aldrei skilið það. Fjölbýlishúsalögin hafa verið freklega misnotuð af fólki sem skákar í skjóli ofnæmissjúklinga til að skipta sér að lífsstíl annarra. Eitt sinn lenti ég í því að þurfa að svara ofstækisfullri manneskju sem vildi gera ketti útlæga úr öllum fjölbýlishúsum vegna mögulegs ofnæmis og ég sagði sama aðila að ég væri til í að skrifa undir það um leið og grasi yrði útrýmt með öllu. Ég ber fulla virðingu fyrir ofnæmi og vil síst af öllu stuðla að því, en þetta er nokkuð sem fólk lærir að lifa með, krakkarnir mínir sem aðrir, ekki auðvelt, en þau reyna ekki að umbylta lífsstíl allra annarra.

Þegar hundabann var í Reykjavík (man það vel) þá var einn afbrotahundur í eigu fólksins á móti á Nýlendugötunni. Hann bjó á fjórðu hæð og fór aldrei út nema undir styrkri stjórn eigenda sinna, meðal annarra unglingsstráks sem seinna varð þekktur í tónlistarheimi landsins. Það var aldrei ónæði af hundinum en iðulega var hins vegar hópur geltandi barna fyrir neðan gluggann sem ullu verulegu ónæði fyrir mig og ungbörnin á heimilinu, en í glugganum á fjórðu hæð sat hundurinn og horfði með fyrirlitningarsvip á börnin sem geltu frá sér allt vit. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

 Aldrei of oft bent á það hvað fólk misnotar ofnæmi til að ná sér niður á nágrönnum sem þykir vænt um gæludýrin sín? Sofnaði ekki breytingarfrumvarpið við fjöleignahúsalögin í nefnd? Bestu kveðjur til Simba og annarra ferfætlinga (mjá).

HG 7.6.2007 kl. 22:13

2 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Simbi þakkar kveðjurnar náðarsamlegast.

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 7.6.2007 kl. 22:35

3 identicon

Nú getur þú kannske hjálpað mér, en gefa kettir ekki frá sér ensím, sem vekur upp ónæmisviðbrögð hjá fólki, en hundar EKKI???

Er virkilega til hundaofnæmi? Heitir það ekki bara "fúll á móti" ofnæmi??

Guðni Ólason 8.6.2007 kl. 01:02

4 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Hundabannið í Reykjavík var ekki hægt að reka í skjóli ofnæmissjúklinga, heldur eitt af þessum ,,af því bara" bönnum - eða ,,fúll á móti" bönnum, sem er jafnvel enn betra orðalag. Þegar átti að aflétta því (eða veita undanþágur) þá risu upp meintir málsvarar hunda og vildu nú banna hunda af því það væri ekki í þágu hundanna að leyfa þeim að búa í þéttbýli (!) af því það væri eðli hunda að skokka léttir um grundir á eftir rollum. Ég hefði viljað sjá 3ja kílóa yndislegan gólfmoppuhund þurfa að reka rollur, hefði aldrei drifið yfir fyrstu þúfuna. Einn meðalstóran þekki ég meira að segja sem fékk að fara með hestafólki yfir Kjöl, og það þurfti auðvitað að reiða greyið! 

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 8.6.2007 kl. 01:35

5 identicon

Einhverjar tillögur um hvert er hægt að flytja "fúlana á móti"? Hvar ætli þeim líði best miðað við "eðli" þeirra?  Bara svona að velta því fyrir mér hvort ekki megi létta þeim lífið! Kettirnir okkar hinna og hundarnir þvælast þá ekki fyrir þeim lengur.

HG 8.6.2007 kl. 01:50

6 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Bannáráttan tekur á sig ýmsar myndir og fyrir suma er einfaldlega vandlifað.  Takk fyrir pistla Anna mín.

Jenný Anna Baldursdóttir, 8.6.2007 kl. 02:07

7 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Ég elska þetta með ,,eðlið" hjá fúlum á móti :-D og kannski er minna vandlifað í sveitinni fyrir þá, annars vil ég sveitinni ekkert síður en þéttbýlinu betra en að sitja uppi með þá. 

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 8.6.2007 kl. 02:25

8 Smámynd: Ester Sveinbjarnardóttir

Það er mjög hvimleitt að þjást af ofnæmi og sumir elska dýrin sem þeir eru með ofnæmi undan, fólk með dýr þarf að sýna öðrum tillitsemi og átta sig á að heilsa manna er meira virði en það að hafa gæludýrið sitt hjá sér.  Ég á kött og konan sem býr í raðhúsinu við hliðina á mér er með ofnæmi fyrir köttum, ég sagði henni strax og hún flutti að ef nærveran við köttinn minn ylli henni kvilla þá myndi ég láta hann fara strax.

Sumir eru líka haldnir slæmri hræðslu fóbíu gagnvart dýrum, þeir eiga að geta gengið um götur án þess að lausir hundar eða með hundar með of langar ólar angri þá.  

Ég t.d. færi ekki fólki sem ég þekki með grasofnæmi blóm, eða alkahólistum vín, sumt er bara svo sjálfsagt í þessu lífi ;) 

Ester Sveinbjarnardóttir, 8.6.2007 kl. 03:54

9 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Held að ef allir sýna tillitssemi sé þetta auðvelt. RAunverulegt ofnæmi er alvarlegt mál, en það eru hinir sem skáka í skjóli þess sem ég er orðin langþreytt á. Varaðndi hræðslu þá er það auðvitað lögfundið að hafa hunda í bandi í þéttbýli og það er mjög eðlileg krafa. Kettir kássast nánast aldrei (ekki þeir sem ég þekki) upp á ókunnuga nema heima hjá sér.

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 8.6.2007 kl. 09:00

10 Smámynd: halkatla

frábær pistill!

ég hef svo oft heyrt þetta líka. Ofstækisfullir kattahatarar eru fleiri en mér finnst þægilegt. Svo þekki ég marga sem eru með kattaofnæmi, nokkrir þeirra áttu kött þegar það uppgötvaðist og gerðu það sem þarf til að halda ofnæminu niðri til að það kæmi ekki niður á köttunum. Nokkrir með ofnæmi eiga ekki kött en finnst hræðilegt að vera með ofnæmi og langar að fá sér kött, en geta það ekki af því að ofnæmið er svo slæmt og þriði hópurinn er víst með svo svakalegt ofnæmi að þeir geta hvorki né virðast fara inní hús þarsem köttur hefur búið. Ég býst við að ofnæmið sé misjafnlega slæmt, amk verður ein frænka mín alvarlega veik ef hún er lengi í sama herbergi og köttur. Og einn frændi minn er svo paranoid að hann verður veikur ef hann er einhversstaðar þarsem hann heldur að geti verið kattarhár. En afi minn var með ofnæmi og leyfði mér samt að fá kött. Það sást aldrei á honum að honum liði illa yfir því, við þrifum bara vel og svona, og hann forðaðist köttinn  

halkatla, 8.6.2007 kl. 11:40

11 identicon

Ég held að það passi að setja þennan link hér http://www.mbl.is/mm/frettir/frett.html?nid=1273982 Frétt af því að hugsanlega verði búið að finna lausn á ofnæmi eftir 10 eða 15 ár. Athyglisverðast þykir mér þó að talið er að um 20% Vesturlandabúa þjáist af ofnæmi vegna þess að þegar fólk agnúast út í dýr þá mætti halda að það væri málpípur 90% mannkyns en ekki 20% Vesturlandabúa. Sem sagt góðar fréttir fyrir kisur, hunda og tvífætta vini þeirra  og ekki síðast en ekki síst fyrir þá sem hafa ofnæmi.

HG 8.6.2007 kl. 22:47

12 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Mórallinn í sögunni er að hér á blogginu er rosalega mikið af góðu fólki, takk fyrir góða umræðu og best ef það hillir undir raunverulega lausn, tékkið á linknum.

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 8.6.2007 kl. 23:00

13 identicon

Takk fyrir pistilinn. Mér datt nú í hug að þessi hundur hafi átt heima á Nýlendugötu 20 og fyrsti stafur í nafni unglingspiltsins hafi verið Einar  ég átti nefnilega heima á þessari hæð á Nýlendugötu 20 fyrsta árið eftir að ég fæddist og var svo fastagestur á hæðinni fyrir neðan þar sem besta vinkona mömmu bjó. Gaman væri að vita hvort þetta er rétt

En ég hef alltaf átt mjög erfitt með að skilja þetta ofstæki sem ég vil kalla gagnvart dýraeign fólks. Svo fremi sem dýrin eru þokkalega vel upp alin á ekki að vera neitt mál fyrir fólk að vera í sambýli við þau.

Anna Ólafsdóttir (anno) 8.6.2007 kl. 23:02

14 identicon

 Held að ég skelli hér inn sætri sögu frá því í dag. Var í dag ásamt vinkonu minni að hreinsa garðinn hennar. Hundurinn á heimilinu lagði sitt af mörkum (eða þannig myndi hann orða það ); kötturinn var hins vegar lokaður inni vegna þess að henni var ekki treyst til þess að hlaupa ekki langt í burtu og koma þegar henni hentaði en ekki þegar kallað væri á hana - hún vorkenndi því sjálfri sér afar mikið og reyndi allt sem hún gat til að vekja athygli á bágindum sínum í eldhúsglugganum; nágrannatíkin tók þátt í hreinsuninni með því að leika við heimilishundinn helst á þeim blett sem við vinkonurnar vorum að hreinsa hverju sinni og síðast en ekki síst þá skoppuðu og hoppuðu 7 vikna gömul börn hennar út um allt og fannst lífið ógurlega skemmtilegt.   Samúðarkveðjur til þeirra sem sjá ekki fegurðina og sakleysið í dýrunum.

Helga 8.6.2007 kl. 23:25

15 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Rétt til getið, nafna mín, við bjuggum á 19B, rauða húsinu, miðhæð, og það var svo sannarlega Einar sem fór út með hundinn, jafnvel eftir að hann var orðinn flottur pönkari sem virtist í uppreisn gagnvart öllu, þá var alltaf vel hirt um þennan fallega hund. Ég á eitt sinn auglýst hlýðninámskeið fyrir hundaeigendur, að vísu held ég að það hafi verið handvömm en mér fannst hugmyndin góð, dýr eru yfirleitt ekki vandamál en þeir dýraeigendur eru til sem eru það.

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 8.6.2007 kl. 23:29

16 Smámynd: Gunna-Polly

Hér væru 5 kettir ef ég fengi að ráða en dóttir mín er með það mikið ofnæmi fyrir þeim að það er ekki hægt , hún hefur tvisvar verið hætt komin vegna þess og má ekki koma nálægt þeim og ekki hundum heldur þannig að það er til fólk sem er með slæmt ofnæmi fyrir hundum og köttum

Gunna-Polly, 10.6.2007 kl. 22:14

17 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Held að það verði aldrei of oft sagt að raunverulegt ofnæmi getur verið mjög alvarlegt og auðvitað þarf að bregðast við því með öllum tiltækum ráðum. Þess vegna finnst mér líka að þeir sem skýla sér á bak við þá sem eru með ofnæmi í raun og veru, séu að gera lítið úr þessum sjúkdómi með því að kalla Úlfur, úlfur að ástæðulausu. Hitt er vandmeðfarnara, sem Ester nefnir og er líka raunverulegur vandi, það er ótti við dýr, en þó held ég að með því að hafa hunda í bandi, sem er sjálfsagt, sé það nokkurn veginn leyst, því kettir gefa sig yfirleitt ekki að ókunnugum utandyra og eru auðhraktir á brott. 

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 11.6.2007 kl. 01:11

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband