Útvarp

Í mínum huga er ,,útvarpið" það sem núna er kallað Rás 1. Þar er mesta dagskrárgerðin, ennþá talsverð, endurtekningarnar trufla mig minna en marga aðra. Enn eru framleiddir þar yndislegir talmálsþættir sem leiftra af hugmyndaflugi og skemmtilegheitum og síðdegisútvarpið á Rás 1 oft áhugaverðara en umfjöllun um matarhátíðir og misáhugaverð þjóðmál.  

Vissulega hlusta ég á hlaðvarp úr ýmsum áttum (meðal annars efni frá Rás 1) en það eru forréttindi að geta kveikt á útvarpi og fengið í hausinn: Áfram kristmenn, krossmenn, sungið hástöfum í morgunþætti KK eða Ísland úr Nató (kátt lag: Waltzing Mathilda) úr einum af hinum frábæru Hljóðrásarþáttum nú í sumar. KK spilar líka Zappa reglubundið.

Oft vakna ég, morgunsvæfa konan, milli klukkan sex og sjö á morgnana þegar morgunhressi maðurinn minn er á leið til vinnu eða annarra morgunstarfa, og set á útvarpið á. Svo fer það á ýmsa vegu hvort er svo sofnuð aftur eða næ Arthúri Björgvin á þriðjudögum kl. 8:05 eða Boga á fimmtudögum kl. 7:33. Annars er bara að spila það eftirá. 

Nú á ég auðvitað skemmtilega spilunarlista á Spotify og nota alls konar efni á YouTube, en ekkert jafnast á við að detta ofan í eitthvað sem ég hefði aldrei haft fyrir að finna mér sjálf til, þótt ég sé ólöt við það. 

Margir sakna fyrri tíma hjá útvarpinu og allra þáttanna sem hurfu, þegar nýir þættir voru sí og æ teknir yfir þá gömlu, enda gæðasegulbönd dýrt spaug. Ég var svo lánsöm að vera mjög virk í dagskrárgerð hjá RÚV sem þá var eitt og allsyfirráðandi á árunum 1979 til 1983 og svo af og til eftir það allt fram á þessa öld. Nú dett ég inn í þætti sem aðrir sjá um, kannski svona á tveggja-þriggja ára fresti. Og þótt fæstir noti nú orðið okkar úrvalslið tæknimanna, einstaka gerir það, þá get ég fullyrt að margt er gríðarlega vel gert, gott, frumlegt, skemmtilegt og spennandi og enn að finna í dagskrárgerð Rásar 1. 

Rétt áður en nýju útvarpsstöðvarnar voru að koma á sjónarsviðið var eitt af verkum mínum í blaðamennsku að skrifa stöku sinnum dagskrárumfjöllun í DB/DV. Meðfylgjandi er ein slík, skrifuð meðan ég hélt ekki að ég mundi vinna meira fyrir útvarpið. Sem betur fór reyndist það rangt. Hér er orðið ,,skranbúð" notað sem gríðarlegt hrósyrði vegna þess að einhver skólafélagi minn sagði um einn skemmtilegasta og hæfileikaríkasta kennarann sem kenndi okkur sagnfræði, Ólaf heitinn Hansson: ,,Mér þætti gaman að sjá í heilann á honum, hann er eins og skranbúð". Þetta var greinilega illa meint, enda manneskjan meira á þeirri línu að vilja að fólk væri sérfræðingur í breiðum sérhljóðum í Austur-Skaftafellssýslu, en að það vissi hvað væri að gerast í gervöllum heimininum í fortíð, nútíð og framtíð. Í því var Ólafur flestum öðrum mönnum snjallari. En það er efni í aðra færslu. 2025-07-21_19-36-45


« Síðasta færsla

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband