Illugi hitti naglann á höfuðið og Katrín hrakti mýtur
5.6.2007 | 22:13
Frábærar pallborðsumræður nýrra þingmanna á aðalfundi Heimssýnar í dag. Katrín Jakobsdóttir, Bjarni Harðarson og Illugi Gunnarsson tóku þátt í pallborðinu og voru hvert öðru betra. Gott að eiga slíka málsvara á þingi gegn innlimun okkar í Evrópusambandið.
Ein af þeim rökum sem oft eru notuð fyrir innlimum okkar í Evrópusambandi eru þau að okkur vanti ,,evrópskt verðlag" sem á að vera svar við öllum okkar vanda. Vissulega gremst flestum verðlagið á Íslandi, en það er frekar þreytandi að hlusta á þessa síbylju um að í ,,Evrópu" (les Evrópusambandslöndunum) ríki eitt verðlag. Það eru alls konar launagreiðslur og alls konar verð í gangi. Svo ég geri orð Illuga að mínum þá er álíka gáfulegt að tala um sam-evrópskt verðlag og sam-evrópskt veðurfar. Og spurningin er líka hvort fólk er tilbúið að taka við öllu sem tilheyrir Evrópusambandinu, atvinnuleysinu og doðanum í tilverunni þar líka? Eða það sem mér finnst vega þyngst, afsal sjálfsákvörðunarréttar í hendur á fulltrúm sem aldrei hafa verið kjörnir (ekki Bandaríki Evrópu heldur Sovétríki Evrópu, eins og Bjarni kallar ESB). Katrín benti á að Evrópusambandssinnar væru með þessum verðlagsfrösum að finna sér nýjar klissjur, af því sú gamla hefði verið hrakin. Fyrir ári eða svo heyrði maður síbyljuna að við ættum að ganga í Evrópusambandsins af því við sætum hvort sem er undir 80% af lögum bandalagsins, en sú bábylja hefur verið hrakin af Evrópustefnunefndinni og núna heyrir maður þetta nánast aldrei, nema hjá einhverjum eftirlegukindum sem ekki vita betur. Staðreyndin er sú að rétta prósentan er um 20% eftir að Evrópustenfunefndin lét rannsaka það.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:45 | Facebook
Athugasemdir
Ég hef aldrei skilið,af hverju við sækjum ekki um að ESB,svo við vitum með vissu hvað er í boði t.d.í sjávarútvegsmálum.Þeir sem best til þekkja telja mjög ólíklegt að Rómarsáttmálnum yrði beitt gegn Íslandi og Noregi.Heldur yrði gerður ákveðinn viðskiptasamningur,vegna hagsmuna ESB að tyggja þeim nægan fisk í framtíðinni.Stærstu hagsmunir við inngöngu væru t.d.2-3 sinnum lægri óverðtryggð íbúðarlán,sem er náttúrlega stærsti kosnaðarliður hvers heimilis,helmingi lægri vextir á almennum lánamarkkaði og um helmingi lægri matvara.Þá erum við með handónýtan gjaldmiðil,sem m.a.leiðir til óörykkis í verðlagsmálum og erlendir aðilar vilja ekki fjárfesta í ísl.fyrirtækum.
Menn tala gjarnan með réttu um atvinnuleysið í ESB löndum.Frjálst flæði fólks frá þessum svæðum er til Íslands og við getum vænst mikils atvinnuleysis af þeim sökum í framtíðinni.
Við eigum að mínu viti að sækja um aðild og rannsaka vel hvað í boði er.Rétt er að hafa í huga að við uppfyllum ekki mörg af skilyrðum ESB til inngöngu vegna hvers konar fjármálaóreiðu og gæti tekið mörg ár að kippa því í liðinn.Þjóðin hefði alltaf síðasta orðið í þessum efnum.
Kristján Pétursson, 5.6.2007 kl. 23:30
Heil og sæl, mín kæra! ESB á dagskránni hjá þér núna! Ja, hérna hvar er best að byrja? Ég vona að það flokkist undir ókurteisi þótt ég byrji á því að gera athugasemdir við athugasemdir Kristjáns Péturssonar, því ég hreinlega get ekki setið á mér.
"Þeir sem best til þekkja telja mjög ólíklegt að Rómarsáttmálnum yrði beitt gegn Íslandi og Noregi." Hverjir eru þeir þessir sem "best" þekkja til? Jú, þeir eru auðvitað jafnmargir og fólki hentar hverju sinni að tefla fram til að leggja áherslu á mál sitt. En hvers vegna að hafa þá nafnlausa? Sá sem ég hlusta hvað mest á og tek mest mark á heitir Ragnar Arnalds og á dauða mínum á ég nú frekar von en að hann taki undir ofanritaða tilvitnun og fullyrðingu. Rómarsáttmálanum er ekki beint gegn einum eða neinum, hann er einfaldlega grundvallarplagg þessa apparats sem í dag kallast upp á íslensku Evrópusambandið, en hefur áður gengið undir æðimörgum heitum.
"Stærstu hagsmunir við inngöngu væru t.d.2-3 sinnum lægri óverðtryggð íbúðarlán"... Þetta er ekki hægt að fullyrða. Eins og Anna hefur eftir Illuga þá er ekkert samevrópskt verðlag og samevrópskt veðurfar. Sama er að segja um þessa fullyrðingu ..."helmingi lægri vextir á almennum lánamarkkaði og um helmingi lægri matvara." Ef þoka á málinu áfram þá verða menn að gjöra svo vel og færa rök og dæmi fyrir því sem þeir segja.
"Heldur yrði gerður ákveðinn viðskiptasamningur,vegna hagsmuna ESB að tyggja þeim nægan fisk í framtíðinni." Innganga lands og þjóðar í Evrópusambandið snýst ekki um viðskiptasamning. Hún snertir allir hliðar samfélaga!!! Hvað það varðar að tryggja (hvorki meira né minna) ESB-þjóðum nægan fisk í framtíðinni, þá segi ég ekki annað en: Hvers eiga Íslendingar að gjalda? Það er liðinn rétt rúmur sólarhringur síðan enn á ný voru sagðar fréttir af bágu ástandi nytjafiska í landhelgi Íslands. Við þær aðstæður frábið ég mér að Íslendingum verði fært það verkefni í hendur að "tryggja þeim (ESB-þjóðum) nægan fisk í framtíðinni! Íslendingar hafa oft sýnt að þeir eru hörkuduglegir og útsjónarsamir en þeir brauðfæða ekki 300 milljónir manna (eða hvað eru íbúar ESB-landanna margir?) Jesús mettaði lýðinn með lygilega litlu hráefni (6 fiskum ef ég man Biblíusögurnar rétt), en ég hef ekki þá trú á þjóð minni að hún feti í hans spor.
Anna, er það ekki rétt munað hjá mér að þegar Írar tóku upp evruna þá hækkaði verðlag þar um allt að 25% nánast eins og hendi væri veifað? Þeir brostu ekki út að eyrum Írarnir og Ítalirnir sem ég ræddi við fyrsta árið eftir að gjaldmiðlarnar þeirra voru lagðir niður og evran tekin upp.
Ég geri ekki lítið úr því að það er sitt lítið sem þarf að laga hér á landi, en frelsarinn minn í þeim efnum heitir ekki Evrópusambandið. Það kemur ýmislegt gott frá öðrum þjóðum og sjálfsagt að eiga sem mest og best samskipti við þjóðir heimsins, heimsins alls en ekki að múra sig inni í Evrópusambandinu.
Ég held að það sé löngu kominn tími til að Evrópusambandið verði rætt hér á landi án sleggjadóma. Því fullyrðingar um hvað allt yrði hér blómlegra og vænlegra bara ef þessi blessaða eyþjóð kæmist nú inn í Evrópusambandið er orðin æði þreytandi. Við, andstæðingar þess að Ísland og Íslendingar, verði sett þangað inn þurfum engu að kvíða í þeim efnum, því ólíkt mörgum aðdáendanum þá höfum við í mörg ár átt mikil og náin samskipti við skoðanasystkini okkar víða í Evrópu, sem sum eru innan sambandsins en önnur utan þess: Fulltrúar Heimssýnar og áður Samstöðu hafa ekki tileinkað sér þau vinnubrögð að slengja fram fullyrðingum í tíma og ótíma, heldur hafa þeir lært heima. Samtökin eiga gott safn gagna máli sínu til stuðnings og líklega er kominn tími til að taka slaginn, ræða málið málefnalega og leggja fram gögn máli sínu til stuðnings. Andstæðingarnir eiga að sjálfsögðu að gera það sama.
Ekki bjóða okkur upp á fullyrðingar um lágt vöruverð og lága vexti. Gjörið svo vel og sýnið okkur gögn máli ykkar til stuðnings.
Að endingu fyrir þá sem vilja setja sig inn í málið skoðið þessa heimasíðu: Heimssýn.is Ef umræðan á að vera málefnaleg þá verða báðir hópar að kynna sér báðar hliðar og því spyr ég: Hver er slóðin inn á ykkar heimasíðu?
Að endingu, fyrirgefðu Anna, hvaða þetta er langt. Það var ekki ætlun mín að leggja síðuna þína undir mig.
Helga 6.6.2007 kl. 00:29
Takk Helga, hjörtu okkar slá í takt í Evrópusambandsmálum, ég veit ekki betur en það sé rétt munað hjá þér varðandi Írana, og annað sem gerðist í leiðinni var að þeir lentu í vítahring verðhækkana, m.a. á húsnæði, um svipað leyti, en þá var nefnilega komið að því að ,,kynningarafslátturinn" sem þeir fengu fyrir að ganga í Evrópusambandið kom á fullum þunga í hausinn á þeim og þeir fóru að greiða æði mikið með sér á sama tíma og verðlagið rauk upp. Ég get tekið undir öll svörin sem þú veitir Kristjáni og þakka þér bara kærlega fyrir að tína til atriði sem ég hefði eflaust gleymt.
Anna Ólafsdóttir Björnsson, 6.6.2007 kl. 00:40
Eftir að ég sendi athugasemdina hér að ofan þá tók ég eftir því að orðið EKKI vantar í setningu í fyrstu efnisgrein og bið ég Kristján afsökunar á því, því þótt við séum ósammála um ESB þá á hann alla virðingu og kurteisi skilið.
Setningin á að sjálfsögðu að hljóma þannig: Ég vona að það flokkist EKKI undir ókurteisi þótt ég byrji á því að gera athugasemdir við athugasemdir Kristjáns Péturssonar, því ég hreinlega get ekki setið á mér.
Helga 6.6.2007 kl. 00:42
ummm miðað við þátttakendurna sem þú nefnir þá virðast þetta sko hafa verið hreint ljómandi umræður
halkatla, 6.6.2007 kl. 13:51
Við getum náð þessum markmiðum öllum af eign rammleik og losnað þar með við vandamál sem raunar eru þegar orðin vandamál... Krónan má hins vegar fjúka!
Hrúturinn 6.6.2007 kl. 14:39
Við getum náð þessum markmiðum öllum af eigin rammleik, m.a. með samstarfi við þjóðir utan ESB, og losnað þar með við vandamál sem raunar eru þegar orðin vandamál... Krónan má hins vegar fjúka!
Hrúturinn 6.6.2007 kl. 14:41
Eru Danmörk og Svíþjóð "innlimuð" í eitthvað annað ríki þó þau séu aðilar ESB?
Helgi Jóhann Hauksson, 6.6.2007 kl. 17:06
Gjaldmiðillinn og aðild að Evrópusambandinu geta alveg verið aðskilin mál, og það er gaman að þú skulir nefna það, Hrútur, því þetta barst líka í tal í þessu ágæta pallborði, sem var mjög fínt, eins og Anna Karen gat sér réttilega til.
Anna Ólafsdóttir Björnsson, 6.6.2007 kl. 18:05
Varðandi innlimunina, þá stefnir Evrópusambandið sannarlega sjálft að því að verða að stórríki og þar ræður nú þegar skrifræðið ríkjum. Þeir eru æði margir Danirnir og Svíarnir sem líta svo á að löndin þeirra hafi verið innlimuð í stórríki.
Anna Ólafsdóttir Björnsson, 6.6.2007 kl. 18:08
Fyrir rúmlega sex áratugum fagnaði þjóðin fullveldi á Þingvöllum. Margir fylltust klökkva á þeirri hátíðarstund og sumir grétu. Himininn grét líka af fögnuði með þessari þjóð sem nú hafði séð aldagmlan draum rætast.
Nú skipta þeir tugum þúsunda sem leika landmunir til að selja af höndum okkar þetta frelsi og segjast í það minnsta vilja fá að sjá hvað sé í boði.
Sjálfstæði þessara þjóðar er á uppboðsmarkaði. Á ekki bara að halda axjón eins og í gamla daga og kanna hver býður best?
Þegar þessi umræða fer í gang fyllist ég einhverri snautlegri kennd. Og þá kemur mér í hug samtal Arneusar og von Úffelin úr Íslandsklukkunni þar sem nefndir eru barður þræll og feitur þjónn.
Þeir lesendur bloggsins sem eiga þá bók mega gjarnan fletta upp þeim kafla.
Svo þakka ég þér frænka mín fyrir að vekja þessa umræðu.
Árni Gunnarsson, 6.6.2007 kl. 19:47