Allt er vænt sem vel er Vinstri grænt

Trú mínum pistli frá í gær ætla ég að kjósa það stjórnmálaafl sem mér er kærast af þeim sem nú eru í boði, Vinstri græn. Við höfum oftast átt samleið og gildi hreyfingarinnar eru mín gildi, ekki síst kvenfrelsi, jafnrétti, félagslegt réttlæti og efling byggðar um allt land. 

Kosningarétturinn er ótrúlega mikilvægur og ég vona að sem flestir láti eigin sannfæringu ráða hvaða stjórnmálastefnu þeir kjósa að styðja, ekki eitthver önnur atriði. Hef heyrt mikið um að svokallaðar taktískar kosningar eigi það til að koma í bakið á fólki og það er varla neitt voðalega gaman. Meiri samúð hef ég með fólki sem upplifir að engu stjórnmálaafli sé treystandi og ,,þessir stjórnmálamenn" séu allir eins. Því get ég alla vega lofað að svo er ekki og verður áreiðanlega aldrei. Það að allir vilji sækja í að komast til valda er vinsæl skoðun, ef einhver er staðinn að því að vera ekki tilbúinn að gera hvað sem er til að komast í valdastóla er viðkomandi afgreiddur sem óstjórntækur eða áhættufælinn. Það upplifðum við í Kvennalistanum þegar ætlast var til að þau samtök kæmu í einhvers konar stjórnarsamstarf, en þegar ákveðnar réttlætiskröfur voru settar fram af hálfu okkar, þá vorum við ,,ósveigjanlegar".

Lengst af valdatíma stjórnar VG, Sjálfstæðismanna og Framsóknar voru hægri sinnuðustu stjórnarþingmennirnir kvartandi yfir því að VG væri að valta yfir Sjálfstæðismenn og réðu öllu. Innan VG þótti mörgum hins vegar að áhrif okkar væru ekki nógu mikil. Áhrifin sem  stjórnmálasamtök hafa eru ekki alltaf augljós. Margt af því sem VG hefur gert gott hefur lítið verið til umræðu, en skiptir máli. Mikilvæg skref hafa verið stigin í kvenfrelsismálum, því hef ég vel fylgst með en á öðrum jafnréttissviðum eru aðrir hæfari til að dæma. Mig langar að vitna í þungavigtarmanneskju á sviði jafnréttismála fatlaðra. Þuríður Harpa Sigurðardóttir hefur verið ein ötulasta talskona öryrkja seinni árin. Það kom samt mörgum að óvörum þegar hún tók sæti á lista VG núna fyrir kosningarnar. Hún segir í grein á Vísi: ,,Vinstri græn settu fram áherslur í ríkisstjórnarsamstarfinu um virðingu fyrir mannréttindum fatlaðs fólks þar sem markmiðið var að bæta lífskjör og lífsgæði þessa hóps og unnu markvisst að því að samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks yrði innleiddur og lögfestur. ... Mikil ábyrgð fylgir því að taka ákvarðanir um líf, heilsu og framfærslu einstaklinga. Tækifæri þeirra til samfélagsþátttöku og sjálfsagðra réttinda. Ég upplifði að bæði fyrrverandi forsætisráðherra og félags- og vinnumarkaðsráðherra vönduðu sig, og í snúnu samstarfi með öðrum stjórnarflokkum náðu þau að sigla þessu stóra máli í höfn." 

Eftir á að hyggja held ég að Sjálfstæðismennirnir sem höfðu áhyggjur af því að Vinstri græn hefðu mjög mikil áhrif innan ríkisstjórnarinnar hafi haft töluvert til síns máls. Fyrir mér er það hins vegar ekki áhyggjuefni, heldur gleðst ég yfir því.

 


« Síðasta færsla

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband