Týnd tónlist (og ljóð)
5.6.2007 | 00:30
Veit ekki hvort það var hér eða á öðru bloggi sem ég sagði frá því þegar ég fann löngu týnda plötu, Fresh Liver, með Scaffold og pantað. Tók tímann sinn að fá hana til landsins, en hingað er hún komin og ég auðvitað búin að fatta að ég kann hana utanað eða því sem næst. Tónlistin er skemmtileg, í anda annarra Scaffold laga svo sem Lily the Pink og Thank U very much, með smá Zappa fíling í bland, en það sem betra er, ljóðin eru ennþá skemmtilegri og sömuleiðis hálfgerðir leikþættir í rosalega enskum anda. Þannig að nú er hægt að rifja upp þetta eðalefni, sem er orðið ansi fágætt, og kynna fyrir nýjum kynslóðum.
Veit að fyrir norðan er Gunna vinkona og kann líklega jafn mikið utan að af og ég. Svona gamla frasa eins og:
- Wasn't a bad party ...
- Except for the people.
- People always spoil things ...
Mig minnir að einhver hér hafi sagt mér að Roger McGough (ljóðskáldið í hópnum, á eina fína bók eftir hann) eða Mike McGear (bítlabróðirinn í bandinu, bróðir Paul McCartney) sé ekki lengur í tölu lifenda, mikil synd, einkum ef McGouch hélt áfram að yrkja og hrökk svo uppaf. Hef ekki fylgst með honum á netinu, en - andartak - eftir smá uppflettingar sé ég að hann er enn að og orðinn enn virtari en þegar ég var að kaupa fyrstu bókina hans. Veit ekki um afdrif Mike McGar, virðist vera að hann hafi tekið upp McCartney nafnið síðar (aftur) hins vegar er Adrian Henry, félagi þeirra í hljómsveitinni dáinn. Og annað skemmtilegt sem ég sá, Scaffold og Bonzo Dog sameinuðust í the Grimms. Langar að fletta þessu gamla dóti aftur, það hefur elst misvel, en margt furðu vel. Svo á ég líka smávegis af indjánatrommutónlist frá New Mexíkó ferðinni um páskana, sem ég þarf að gefa mér tíma til að hlusta á. Þótt ólesin bók sé nauðsynlegri en diskur sem ekki hefur fengið hlustun, þá telst hvort tveggja til andlegra nauðþurfta.
Athugasemdir
Mér finnst svo gaman þegar þú kemur með svona frásagnir úr fortíðinni. Um leið og ég las mundi ég texta. Hehe
Jenný Anna Baldursdóttir, 5.6.2007 kl. 12:06