Þú verður að ... nei, alls ekki!

Fyllist alltaf alvarlegum efasemdum þegar einhver (stundum æst og) örugglega rosalega velviljuð manneskja byrjar setningar sínar á: ,,Þú verður að ..."

Nei, ég verð ekkert að, þótt þessi einstaklingur segi það. Eftir að ég ánetjaðist vatnslitamálun heyri ég stundum þessa setningu: ,,Þú verður að mála eitthvað á hverjum degi!" Þetta getur verið rétt fyrir þessa tilteknu einstaklinga, en örugglega ekki fyrir alla. Það merkilega er að þeir sem segja þetta eru alls ekki það fólk sem er hæfileikaríkast af þeim vatnslitamálurum sem ég hef verið svo heppin að kynnast. Engu að síður grunar mig að einhverjir þeirra lifi eftir þessu, meðvitað eða af tilviljun. En þeir hafa látið mig í friði fram til þessa. Stundum er eitthvað sem knýr mig til að vatnslita á hverjum degi, jafnvel oft á dag, en á milli koma mislöng tímabil sem ég læt það vera. 

Annað eldra dæmi (og náskyld yngri útgáfa af því) er setningin sem ég heyrði oft rétt eftir að ég hryggbrotnaði eftir að hafa dottið af hestbaki. ,,Það er ekki hægt að vera í hestamennsku nema öll fjölskyldan sé með." Rangt, það er vel hægt. Vissulega elskaði ég hestamennsku á unglingsárum, áður en ég lenti í slysinu, og var svo lánsöm að vera heimagangur hjá Heidi á Bala, fá að fara á reiðnámskeið og í ótal hestatúra með hestaleigunni, ef ekki var fullt í hópunum. Átti minn uppáhaldshest, hann Prins, og þetta voru góðir tímar. Skikkaði aldrei foreldra mína með mér. Þegar ég hætti útreiðum á fullorðinsárum, eftir slysið mitt, þá var það aldeilis ekkert vont fyrir fjölskyldulífið. Meðan börnin voru ung (þau urðu aldrei hestafólk) var meira að segja bara fínt að einhver væri heima að líta til með þeim, meðan minn maður var í reiðtúr. Einna mestur atgangur var í einstaklingi sem hældi sér fyrir að koma börnum sínum aftur á hestbak eftir sérhverja byltu, sem voru grunsamlega margar. Held að ekkert barnanna hafi heillast á endanum og ekki tryggði þessi lífsspeki hjónaband foreldranna heldur, sem samanstóð af einstaklingi sem elskaði hestamennsku og maka sem ég held að hafi ekki haft mikinn áhuga á henni. En ,,það var ekki hægt að vera í hestamennsku nema öll fjölskyldan væri með."

Þegar ég byrjaði í golfi fyrir rúmum áratug heyrði ég einstaka sinnum sama sönginn, en hafði lært af reynslunni og datt ekki í hug að skikka eiginmanninn, sem elskar enn hestamennsku og hefur engan áhuga á golfi, til að vera með mér í þeirri iðkan. Ég verð nefnilega ekki að ... né heldur hann, eða neitt ykkar, frekar en þið viljið. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband