Ég hlakka svo til ...

Mér finnst tilveran yfirleitt mjög skemmtileg, oft það sem ég er að gera þá stundina, gleymi mér í skemmtilegum minningum og það sem ég er veikust fyrir, að hlakka til. Vera má að til sé einhver fín greining á persónuleikaröskun tilhlökkunarfíkla, en ekki þekki ég heiti yfir svoleiðis lagað. 

Núna er ég á einum slíkum tímamótum, á leið út í eftirlaunalífið í þriðja sinn á ævinni, alla vega í sumar, og ég hlakka svo til. Það æxlaðist reyndar þannig að seinast þegar ég fór á eftirlaun varði það bara í 6-7 vikur og inn í þann tíma komu jólin. Svo var ég óvænt komin aftur út á vinnumarkaðinn, nema þegar ég var upptekin við annað, aðallega ferðalög. Það var skemmtileg U-beygja, nógu skemmtileg til að ég gæti freistast aftur í einhverja launavinnu í haust, en núna er ekkert framundan nema eftirlaunalífið. Nenni ekki að blanda mér í umræðuna ,,ég hef aldrei haft eins mikið að gera og eftir að ég fór á eftirlaun" með fullri virðingu og algerri þátttöku í slíku. Var vissulega á eftirlaunum á aldrinum 65-69 ára en ég neyddist þá upprunalega til að segja föstu vinnunni minni lausri vegna annríkis. En núna sé ég tímana framundan sem tilhlökkunarefni vegna smáatriða sem skipta mig býsna miklu máli. 

Ég hlakka svo til að geta fengið mér gott kaffi latté á hvaða tíma sólarhrings sem er, án þess að þurfa að kenna því um ef ég skyldi sofa ,,of lengi" frameftir. Heima eða á kaffihúsum, hvort tveggja gott. Hef reyndar ekki orðið andvaka vegna kaffidrykkju nema þegar ég var í módelteikningu í Myndlistarskólanum í Reykjavík og fékk mér kaffi í öllum hléum frá kl. 19:30 til 22:30. Módelið þurfti 10 mínútna pásu eftir hverja 20 mínútna stöðu og við hin kaffi. Móðuramma mín drakk alltaf kaffi á kvöldin til að sofna betur og það var ekki koffínlaust. Hún var afskaplega virk (og skemmtileg) kona og hefði kannski verið sett á rítalín ef hún hefði fæðst 100 árum seinna.

Ég hlakka líka til að snúa sólarhringnum í ótal hringi ... allt eftir því hvað ég verð að gera hverju sinni. Geta haldið áfram með mynd sem ég er að vinna að fram eftir nóttu þegar ég vil, flakkað um heiminn án þess að finna nokkurn tíma fyrir þotuþreytu út af tímamismuni, það er ánægjulegur fylgifiskur óreglulegra svefnvenja. Sofið eins og ég vil án þess að þurfa að stilla vekjaraklukku, nema ég sé búin að ákveða að gera eitthvað tímaháð daginn eftir, en slíku held ég í algeru lágmarki.

Ég hlakka líka til að sjá hvaða óvæntu vendingar lífið mun hafa í för með sér, ef það á annað borð heldur áfram að koma mér á óvart. 

Ég hlakka líka til að finna út hver mín viðbrögð verða næst þegar hnippt verður aftur í mig og ég plötuð til að taka að mér eitthvert verkefni. Verð ég tilbúin í ,,eina lotu enn" eða er þetta bara orðið gott, fimm dagar í 72 ára afmælið? Hef alltaf verið gríðarlega heppin með vinnufélaga og fínustu fagnaðarfundir þegar ég hitti þá aftur eftir eitthvert hlé. Ófá skiptin sem ég hef kíkt við á gömlum vinnustöðum. Eins ófélagslynd og ég er að eðlisfari, þá getur blessað fólkið sem ég hef verið að vinna með bara ekkert að því gert að vera svona yndislegt eins og það hefur oftast verið.  

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband