Er húmorsleysi glæpsamlegt?

Þegar ég var 16-17 ára og skrapp að heilsa upp á gamlan uppáhaldskennara á kennarastofu gamla gaggans míns (þetta orðalag skilur fólk á mínum aldri) lenti ég í orðaskaki við annan kennara í fjarveru þess rétta. Efnið var hvort húmorsleysi væri hættulegt eða jafnvel glæpsamlegt, eða ekki. Auðvitað gáleysistal ungs beturvitrungs sem var að reyna að slá næstum miðaldra kennara út af laginu. Ég var sem sagt sú sem hélt því fram að húmorsleysi væri hættulegt ef ekki glæpsamlegt. Hann reyndi að tala um fyrir þessari harðbrjósta unglingsstelpu. Seinna kom reyndar í ljós að þessi maður var ekki sérlega vandaður pappír, en það vissi ég ekki þarna. Húmorslaus eða -lítill hefur hann þó alla tíð verið. 

Datt þetta í hug út af dálitlu í kvöld og þá rifjaðst líka upp fyrir mér alveg yndisleg ritdeila sem ég lenti í í norskum hannyrðahópi á samfélagsmiðli fyrir nokkrum misserum. Þessi hópur gaf sig út fyrir að hafa auga fyrir húmor í hannyrðum og það fannst mér spennandi. En þarna, af öllum stöðum, lenti ég sem sagt algerlega óvart í harðri ritdeilu við sjálfskipaðan hrútskýrara um óleysta stærðfræðiþraut (ekki handavinnuna), en ég hafði vogað mér að sauma útsaumsverk út frá ferli þessarar stærðfræðiþrautar, sem byggð er á glæru skólabróður míns úr tölvunarfræðinni. Og mér fannst það náttúrulega mjög fyndið.  

Henti mér auðvitað í snatri út úr þessum hópi og átti ekki orð yfir fáránleika málsins. Þetta var hannyrðahópur! Á ekki ýkja skarpa mynd af útsaumsverkinu og frummyndin er geymd á góðum stað svo ég birti bara mynd af tveimur gleðigjöfum á pöbb í Englandi í staðinn. 

65908469_10219648851470276_2126216829671047168_n

Því miður henti ég mér út úr hópnum áður en ég var búin að finna réttu greinina sem sýndi svo ekki var um villst að þar að auki hafði ég rétt fyrir mér varðandi þrautina og hann alrangt. Sá smá eftir því að hafa verið svona bráðlát ... en veit ekki hvort hinir Norðmennirnir í hópnum hefðu haft húmor fyrir því. Aftur á móti voru mínir vænu FB-vinir ábyggilega sammála mér ef ég hef haft rænu á að segja þessa furðusögu þar, sem mér þykir líklegt. 

Skil svo þessa spurningu eftir hjá ykkur, kæru blogglesendur mínir, og efast ekki um að þið eruð bæði mildari og mun síður dómhörð en ég.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband