Ljúfsárt að kveðja Álftaneskaffi
13.7.2023 | 19:59
Í dag fórum við systur mínar og dóttir í síðasta sinn á Álftaneskaffi, því verður endanlega lokað eftir einn og hálfan tíma. Hanna mín hafði pantað borð í sínu nafni og þegar ég komst í biðröðinni góðu (allir vildu koma hingað seinasta daginn) sagði Sigrún vert að borðið okkar væri tilbúið, ,,where everybody knows your name" var sagt í frekar vinsælli sjónvarpsseríu. Stemningin var ljúfsár, margar góðar minningar frá seinustu átta árum og Álftnesingar og ættleiddir Álftnesingar, vinir Álftaneskaffis, fjölmenntu. Við sátum úti um stund en síðan við borðið okkar, úti var kona að taka við stórum stafla af pítsum, ekki af því von væri á mörgum gestum, heldur til að eiga næstu daga og síðan í frysti þar til hún fyndi einhvern sem kæmist í hálfkvisti við snillingana Skúla og Sigrúnu. Nína fékk síðasta súrdeigsbrauðið, ég uppáhaldssalatið mitt í kassa til að taka með, snúðarnir voru borðaðir beint úr ofninum og þó var vitað að Skúli hefði mætt eldsnemma til að mæta eftirspurninni sem var fyrirsjáanleg.
Hef ekki tölu á því hversu marga vini mína og ættingja ég hef dregið á Álftaneskaffi á þessum árum. Gönguhópa, sundgrúppur, elsku bekkjarsystkinin mín sem nú hafa þegar haldið uppá 50 ára stúdentsafmælið, hér hitti ég Rósu mína í síðasta skiptið nú nýverið og svo ótal marga fleiri hef ég hitt og notið stunda með á þessu einstaka kaffihúsi. Og svo auðvitað hana Gurrí sem er að mínu mati og margra annarra okkar helsti kaffisérfræðingur. Vatnslitamyndin við þessa færslu er af henni frá því fyrir þremur árum, en við höfum stundum hist hér, stundum með Hildu systur hennar en oftar einar. Hinar myndirnar eru frá í dag af þreyttum Skúla og Sigrúnu, hafi þau þökk fyrir þrautseigjuna og njóti vonandi vel þess að fá að hvíla sig eftir þessa törn sem bæði hefur staðið í átta ár og líka og einkum þó í dag, þegar við kveðjum. Spjallað var venju fremur mikið milli borða, sem þó er alsiða á Álftaneskaffi, tregablandnar ástar- og saknaðarkveðjur heyrðust úr hverju horni.
Játa það alveg að ég felldi tár þegar ég fór, en við Nína systir, erkikaffihúsafélagi minn, erum lausnarmiðaðar og munum nú færa okkur (aftur) á Súfistann, bókakaffið í Hafnarfirði og Te og kaffi í Garðabæ, sem hefur opið frameftir alla virka daga. Álftaneskaffi hefur runnið sitt skeið og skilur eftir ótal yndislegar minningar, lifi góð kaffihús!