Þú ættir endilega að ,,láta" hann hlæja í útvarpið!

Þegar ég byrjaði í blaðamennsku og þáttagerð fyrir útvarp, rétt tæplega þrítug, fann ég vel fyrir því hvað margir höfðu sínar eigin hugmyndir um hvernig þætti ég ætti að gera. Þetta var heldur skárra þegar ég fór í pappírsblaðamennsku, þá var auðveldara að útfæra þær hugmyndir sem voru raunverulega bitastæðar á sinn hátt. Núna get ég hlegið að því, en mér var ekki hlátur í hug þegar manneskja mér nákomin vildi endilega að ég tæki blásaklausan, sameiginlegan vin í útvarpsviðtal af því hana langaði svo óskaplega að heyra dillandi hláturinn hans í útvarpi. Það var þrautin þyngri að finna undir hvaða yfirskini ég lokkaði hann í viðtal, en vegna velvilja í garð þessarar konu tókst mér loks að ná honum í viðtal í þætti um húsbyggingar og meiningin var að ,,láta" hann hlæja, enda var það verkefnið sem mér hafði verið falið. Hann var auðvitað gaddfreðinn í þessu viðtali og það seinasta sem honum hefði dottið  í hug þann daginn var að hlæja. Röddin kreist og kvalin og sama þótt ég hefði fundið alla heimsins fleti á því að gera listina að byggja að fyndnu útvarpsefni, vitnaði meira að segja í Gísla J. Ástþórsson, ekki tókst mér svo mikið sem að kreista fram bros (enda hefði það ekki sést í útvarpi). 

Lítið skárra var það þegar frændi minn vænn króaði tvo sæmilega þekkta karla af í lyftu í London þegar þar stóð yfir samveldisráðstefna. Hann gerði sér lítið fyrir og tók við þá óralöng viðtöl ,,handa mér" og afhenti mér síðan spólur með hátt í tveggja tíma efni, ómarkvissu og ekkert voðalega áhugaverðu. Fór í gegnum efnið með það fyrir augum að fylla í skörðin og skýra orð þeirra betur og samhengið sem Íslendingar þekktu ekki nema takmarkað. Þetta hefði getað orðið skítsæmilegur þáttur, en reyndist þegar til átti að taka mæta fullkomnu áhugaleysi hjá útvarpsfólkinu og þetta var í eina skiptið sem hugmyndum ,,mínum" að útvarpsþáttum var hafnað. Ég fékk náðarsamlegast að búa til 10 mínútna innskot í morgunþátt sem Páll Heiðar og Sigmar B. voru þá með á útvarpinu eina.  Hrikalega mikil vinna og afraksturinn að vísu alveg þokkalegur, en ég hefði aldrei í lífinu gert þetta að umfjöllunarefni ef ekki hefði verið fyrir ,,hjálpsemi" frænda míns. Þrátt fyrir skaðræðis gott uppeldi lærði ég fljótlega að segja nei og/eða humma svona sértækar hugmyndir ákveðið fram af mér.

Aftur á móti eru ábendingar, sem eru ekki svona sértækar, oft upphafið að stórskemmtilegum viðtölum og greinum, en æ, ekki biðja okkur um að ,,láta" einhvern hlæja í útvarp eða henda í okkur haug af óklipptu efni og segja okkur að gera úr því kraftaverk. Meira að segja komandi páskar geta ekki reddað því. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband