Föstudagurinn laaaaaaaaaaaaaaaaangi framundan

Við erum ekkert svo fá sem munum þá tíð þegar föstudagurinn langi var enn lengri en á seinustu árum. Þegar allt var lokað, ekkert mátti, alla vega alls ekki spila á spil, og fólk átti bara almennt að vera grafalvarlegt í bragði. Enn eimir eftir af þessari tilhneigingu, ég kynnti mér um daginn hvaða kaffihús, það er að segja þau sem selja almennilegt kaffi (!) væru opin á föstudaginn langa og það kom í ljós að ótrúlega mörg af mínum uppáhalds voru annað hvort lokuð eða skelltu í lás um miðjan morgun (kl. 16 til dæmis) þann dag.

Eins og margir Íslendingar er ég alls ekki trúlaus og kunni ýmislegt sem ég lærði forðum í sunnudagsskólanum sem Inga og Sjöfn vinkonur mínar sáu um að ég sækti. En viðurkenni fúslega ákveðið kæruleysi í trúnni og föstudagurinn langi var kannski helst svolítið trúarlegur eftir að Ólafur fóstri minn uppgötvaði Jesus Christ Superstar og spilaði alltaf á föstudaginn langa. Merkilegt, þar sem hann sýndi yfirleitt lítinn áhuga á tónlist þar fyrir utan. 

Mig hlýtur að misminna að ég hafi einu sinni verið meðal læknanema í Debrecen yfir páska og annars árs nemar hafi átt að mæta til að æfa sig að kryfja lík einmitt á þessum fræga dánardegi, að vísu fyrir næstum 2000 árum (dánardægrið, ekki krufningin). 

Þó verð ég að játa að einu sinni naut ég virkilega góðs af því hversu langur föstudagurinn langi var. Þá var ég hjá henni Sigrúnu Guðmundsdóttur í skúlptúrtímum í Myndlistaskólanum og ákveðið var að hittast til að steypa styttur kl. 11 á föstudaginn langa. Þetta var óralangur dagur, en svo vel vildi til að fermingarveisla Óla okkar hafði verið daginn áður, og þótt ég hefði svarið það að ég væri alveg fullfær um að sjá um veitingar að þessu sinni, þá treysti fjölskyldan mín því greinilega ekki og húsið fylltist af brauðtertum og alls konar góðgæti, ofan á vel ríflegan skammt sem ég hafði útbúið með talsverðu stolti. Það vildi nefnilega svo til, sex árum fyrr, að hún Hanna dóttir okkar (þá 9 ára gömul) sagði með áhyggjusvip: Mamma, þú veist að þú verður að ferma í næstu kosningabaráttu. Og það gekk eftir. Hún var fermd fjórum árum síðar og meira að segja upplýsingahópur Kvennalistans kom með kræsingar, en systur okkar Ara, Elísabet og Síví, áttu samt stærstan heiðurinn það árið og ég nánast ekki nokkurn. Svo það var kannski ekki skrýtið að plan B hefði verið virkjað þegar næsta ferming var yfirvofandi (þótt engar kosningar væru).

376807_4207579426198_1134309722_n

Við vorum allar, nemendur Sigrúnar, í fullri vinnu á þessum tíma og sumar gott betur, svo það kom sér vel að þessi tiltekni föstudagur var svona voðalega langur. Afgangarnir úr fermingarveislu 2 reyndust okkur heilladrjúgir þennan dag (ekkert sérlega mikið af kjötmeti, svo því sé haldið til haga) enda vorum við að framundir miðnætti og vorum orðnar hæfilega ruglaðar í lokin, þótt engar væru hættulegu gufurnar, eins og í sumri myndlist. Til dæmis fékk steinsteypta styttan sem ég er að slá utan af á myndinni nafnið Klara Mikk, í höfuðið á sænskri blöndu sem ég bar utan á hana af því henni var ætlaður staður utan dyra. (Væntanlega eitthvað Clara Mix, glær blanda, býst ég við). Aðallega notað á legsteina, sem okkur fannst vel við hæfi. 

Komandi föstudag (langa) erum við tvær vinkonur frá þessum Myndlistarskólaárum að fara að hittast, já, það eru til uppáhaldskaffihús sem skella ekki á nefið á okkur um miðjan morgun. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband