Mamma, það er verið að auglýsa eftir þér ...
23.2.2022 | 20:29
Nei, ég er ekki týnd og ég var ekki týnd þegar dóttir mín sagði þetta við mig í byrjun þessa árs. Hún hafði hins vegar rétt fyrir sér. Allt frá því ég fór í lausamennsku/eftirlaun/glæpasagnaskrif/vatnslitun fyrir fjórum árum hef ég haldið því opnu að fylgjast með því hvort eitthvert upplagt starf innan hugbúnaðariðnaðarins byðist. Þetta hafa mínir nánustu vitað mætavel og þess vegna varð dóttur minni þetta að orði. Ég kannaði málið og mikið rétt, skemmtilegu tækifærin fyrir tæknihöfunda bjóðast jafnvel í okkar litla samfélagi. Svo núna um mánaðarmótin byrjaði ég í nýrri vinnu hjá fyrirtæki sem ég held að sé með þeim framsæknustu og áhugaverðustu á landinu nú um stundir, enda hefur það rakað til sín verðlaunum og skipt miklu máli í baráttunni við covid. Held samt að ég ætti að vera búin að vinna þar lengur en í tæpan mánuð áður en ég segi ykkur meira af því, en það er reyndar full ástæða til.
Það kom mér á óvart hversu gaman er að koma aftur í vinnu í þessum ævintýraheimi sem hugbúnaðargerð er. Hefðu blessuð bekkjarsystkini mín í MR átt að segja hvert okkar í bekknum væri ólíklegast til að útskrifast úr verkfræðideild Háskóla Íslands hefðu eflaust einhverjir veðjað á mig. Sú varð þó raunin þegar ég ákvað þessa stefnu um miðjan aldur. Ætlaði reyndar að útskrifast úr raunvísindadeild, fannst það raunverulegra, en svo æxlaðist að fagið mitt var flutt í verkfræðideildina og síðan hef ég verið með mastersgráðu frá þeirri deild. Síðan hefur starfsferillinn að mestu verið bundinn við nördinn í mér. Það var hreinlega eins og að koma heim að fara að vinna á þessum vettvangi.
Þessi fjögur ár frá því ég vann seinast í þessum bransa hef ég notað vel. Fékk meiri tíma fyrir fjölskylduna en oft áður á mikilvægum tíma í tilverunni. Byggði upp glæpa(sagna)ferilinn þannig að ein bók er komin út og gekk alveg ágætlega, sú næsta kemur út eigi síðar en í apríl á þessu ári, ég er langt komin með fyrstu gerð af þriðju bókinni og byrjuð að henda inn hugmyndum og smáköflum í þá fjórðu. Auk þess datt ég enn einu sinni í að sinna myndlistinni af kappi, tveimur árum áður en ég ætlaði að henda mér út í þá djúpu laug, enn einu sinni. Lífið er ljúft.