Katrín Jakobsdóttir segir sannleikann betur en flestir aðrir í umræðu um stefnuræðu forsætisráðherra
31.5.2007 | 21:21
Þótt mér verði tíðrætt um Guðfríði Lilju (sem á þegar þetta er skrifað eftir að tala) þá merkir það svo sannarlega ekki að ég geri mér ekki grein fyrir þvílíka perlu við Vinstri græn eigum í Katrínu Jakobsdóttur. Hins vegar hefur baráttan fyrir því að koma Guðfríði Lilju á þing (fast þingsæti án þess að missa Ögmund út) verið mér mjög hjartfólgin, meðan aldrei var neitt efamál að Katrín flygi inn með glæsibrag, enda ,,uppgötvuð" mun fyrr innan okkar ágætu hreyfingar.
Katrín sýndi svo sannarlega hvers vegna hún er okkar stærsti spútnik í stuttri og hnitmiðari ræðu núna rétt í þessu. Hún hefur feril sinn á alþingi með því að sýna hversu létt hún á með að grípa, vinna úr og orða það sem segja þarf, hnitmiðað og svo undan svíður. Engu orði ofaukið, allt rétt sagt og svona ótrúlega vel orðað. Þótt mér finnist gott innihald ræðu ávallt mikilvægara en flotta umgjörðin þá hlýnar mér alltaf um hjartarætur þegar hvort tveggja getur farið saman, og það þótt verið sé að bregðast við orðum sem falla kannski ekki nema tíu, fimmtán mínútum fyrr. Það þarf mikla hæfileika til þess, og þá hefur Kartrín svo sannarlega til að bera.
Mikið er gaman að vera ekki sá pólitíski munaðarleysingi sem ég hélt að ég yrði við sundrungu Kvennalistans. Mikið er þægilegt að sitja með tölvuna í fanginu og fylgjast með þessum mikilvæga vinnustað sem ég þekki svo ágætlega, líkaði ávallt vel við og sakna þó ekki með trega heldur bara með svolítilli gleði yfir að sjá allt þetta yndislega fólk orða skoðanir mínar á svo frábæran hátt.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:32 | Facebook
Athugasemdir
Katrín á örugglega eftir að vera öflugur þingmaður.
Jens Sigurjónsson, 31.5.2007 kl. 22:03