Helgi húsbyggjenda

Ég komst að því að þetta var helgi húsbyggjenda þegar ég heyrði af því að Húsasmiðjan væri opin alla Hvítasunnuna, ekki einu sinni lokuð á Hvítasunnudag. Hefur ábyggilega komið sér vel fyrir einhvern, en samt, mér fannst þetta pínulítið skrýtið. hvitasunna1Við höfum vissulega tekið virkan þátt í þessari húsbyggjendahelgi, sem og fyrri hvítasunnuhelgar, og verið að tæma fullt af byggingadóti úr miðrými á háaloftinu þar sem koma skal falleg fjölnotastofa, við erum svo mikil stofufjölskylda hvort sem er, alltaf eins og allir safnist saman á einn stað, hvað sem verið er að gera. Þróun stofunnar verður síðan að koma í ljós eins og annað. En alla vega, miklar framkvæmdir víða, Addi mágur og Hjördís að leggja parket austur í sveitum og mér heyrist að fleiri hafi orðið framkvæmdagleðinni handgengnir. Sumarbústaðurinn bíður á meðan, seinustu hvítasunnu tengdum við rotþró þar á bæ, þarseinustu vorum við greinilega að vinna í sökklunum, þannig að alltaf er eitthvað þessu framkvæmdageni tengt að gerast um hvítasunnuna. Svo er bara að ímynda sér að allt byggingadraslið sé horfið uppi á lofti hjá okkur og þá er þessi mynd frá því á seinasta ári í fullu gildi. hvitasunna2

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ester Sveinbjarnardóttir

Ég hjó líka eftir þessu, þar sem ég er alin upp við það að virða helgidaga kristninnar fannst mér það skrítið að hafa Húsasmiðjuna opna til kl. 21.00.  En hér er kanski verið að svara eftirspurn?  Ekki eru þeir að hafa opið nema að þeir græði á því.

Ester Sveinbjarnardóttir, 28.5.2007 kl. 18:52

2 identicon

Ég var svo heppin að unga fólkið sem á íbúðina á neðri hæðinni þar sem ég bý bauð okkur býtti varðandi málun á húsinu að utan sem við sögðum umyrðalaust já við. Við borgum efnið og þau sjá um vinnuna  Það eina neikvæða í þessu er að núna þegar þau standa uppi í stillansinum og puða fyrir utan gluggann hjá mér á meðan ég blogga, les Moggann, næri mig og hef það þægilega sækir að mér hroðalegt samviskubit. Af hverju er kona svona????

Anna Ólafsdóttir (anno) 28.5.2007 kl. 20:42

3 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Njóttu þess bara, Anna, að þurfa ekki að gera allt sjálf, ég er alltaf mjög ánægð með það sem okkur tekst að ,,flagga út" - sem betur fer gerum við ekki allt sjálf, en stundum finnst mér það allt of margt, samt. 

Sveiflast á milli þess að fagna því að geta verslað nánast hvenær sem er og finnast að við séum komin út á ystu nöf. Enn get ég ekki fengið mig til að versla í matinn 1. maí, þótt ég viti að krakkarnir í 10-11 vinna á vöktum og kannski er ekkert verra að afgreiða kartöflur en að hlynna sjúklingum, út frá sjónarhól þeirra sem vinnuna stunda. En mér finnst eiginlega allt í lagi að hafa lokað í helstu verslunum, jafnvel byggingavöruverslunum, á hvítasunnudag. Ekki er ég nú yfir mig kristin, en ekki laus við það heldur, þannig að ... já, líklega sammála þér, Ester. 

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 28.5.2007 kl. 21:05

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband