Fálæti út af Flateyri og hvað er framundan?
21.5.2007 | 02:29
Mér finnst merkilegt fálæti út af ástandinu á Flateyri. Kvennalistinn vildi á sínum tíma byggðakvóta og ég er alltaf að sjá betur og betur hvað það er góð hugmynd. Framsalshugmyndin var trúarbrögð á þeim tíma í nafni þess að auka hagræði í greininni, en ég sé ekki vitundarögn þjóðhagslegt hagræði í að knýja fólk til fólksflutninga og þeytings á eftir kvótanum landsenda á milli. Eykur hagvöxtinn, rétt eins og ýmis óáran svo sem vont tíðarfar, en það er vegna þess að hagvöxtur er svo vitlaus mældur. Þjóðir sem hafa reynt að mæla grænan hagvöxt og hagvöxt út frá lífsgæðum og fleiri breytum sem nú eru utan við helkalda hagvaxtarútreikninga, hafa sannarlega unnið brautryðjendastarf, en nokkuð langt er síðan ég hætti að fylgjast nógu grannt með þeim málum. Grunar samt að ég hafi séð enduróm í Draumalandinu hans Andra Snæs. En vinkona mín sem dæsti og skírði stjórina sem virðist vera að fæðast stjórn stóriðju og ESB má alveg bæta við: Og fólksflótta vegna kvótaframsals ...
Núna kallar Jón Bjarnason á að þingmenn kjördæmisins komi saman og ræði ástandið en mætir alveg ótrúlegu tómlæti. Ég ætla rétt að vona að menn fari að vakna til lífsins og taka á alvöru viðfangsefnum og missi sig ekki í eintómt stólakarp.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 02:32 | Facebook
Athugasemdir
Það virðist "tertubiti" að 130 manns eða svo séu að missa vinnuna í þessu litla bæjarfélagi. Hvað er að fólki? Hvar er samkenndin, ábyrgðin og viljinn til að laga þetta ástand. Arg....(ég ríf í hár mér)
Jenný Anna Baldursdóttir, 21.5.2007 kl. 03:03
Þetta er mjög alvarlegt mál, slæmt að það skyldi ekki allt fara á annan endann þegar fyrsti maðurinn seldi kótann sinn úr byggð. En það er hægt að breyta þessu, öll mannana verk eru þannig, ef vilji er fyrir hendi. Miðið færast ekki þó svo kvótinn gerir það. Hvað ætla svo útgerðarmenn að gera þegar þeir geta ekki lengur keypt olíu og aðrar vistir eða viðgerðaþjónustu nálægt miðunum?
Ester Sveinbjarnardóttir, 21.5.2007 kl. 07:30
Þetta er verra en orð fá lýst. Samsvarar því að um 30.000 manneskjur hefði verið sagt upp störfum í einu lagi á höfuðborgarsvæðinu. Veit ekki hvað er að þjóðinni minni, en svo virðist sem við höfum ekki fæðst með samfélagsvitundargenið...
Birgitta Jónsdóttir, 21.5.2007 kl. 11:59
Ég segi nú bara ekki annað en þetta:
http://siggisig.blog.is/blog/siggisig/
Sigurður Sigurðsson, 21.5.2007 kl. 18:00
Lögum um fiskveiðiheimildir frá 1991 um framsal og leigu á kvóta gengu gegn lögunum frá 1984 um ótvíræða sameign þjóðarinnar á auðlindinni.Allt kjaftæði fyrrv.ríkistjórna, að um sé að ræða nýtingarétt útgerðarmanna ,eru blekkingar einar,eignarhald þeirra og ráðstöfunarréttur á fiskveiðiheimildum er algjör,það sjá allir heilvita menn.
Það þarf að breyta lögunum strax á næsta þingi og setja á byggðakvóta,sem er ekki hægt að selja né leigja út úr byggðalaginu.Hæfileg greiðsla til ríkisins fyrir kvótann og tryggð yrði nýliðun í greininni.Þá yrði síðar tekið upp sóknarmark eins og er í Færeyjum.Vísa til greinar minnará blogginu um þessi mál í dag.
Kristján Pétursson, 21.5.2007 kl. 22:50
Já, Anna, ég man þegar hálfpartinn var hlegið að Málmfríði Sigurðardóttur í ræðustóli Alþingis talandi um byggðakvóta. Þótti afskaplega einfeldnislegt eins og fleiri mál þeirra kvenna. Man óljóst eftir umræðum um vetni ...
Í dag er til byggðakvóti og byggðakvóti, ef ég skil rétt. Ráðherrakvóti líka! Og með fullri virðingu fyrir Jóni Bjarnasyni þá get ég ekki ímyndað mér hvað hann ætlar að gera varðandi framsal á kvóta sem hefur verið keyptur og seldur í gegnum tíðina - eins og mér skilst að sé raunin með Kamb, að hluta til. En mér þætti vænt um ef þú gætir útskýrt það fyrir mér.
Aðalheiður Birgisdóttir 21.5.2007 kl. 23:19
Það er nú ekki hægt að kenna stjórn sem er ekki til um öll vandamál.
En svona er Ísland í dag það er að verða komið svipað fyrir um okkur og indjánana í norður ameríku, þessar veiðimannaþjóðir eru að deyja út.
Jens Sigurjónsson, 21.5.2007 kl. 23:30
Einn flokkur er í báðum stjórnunum, hinni gömlu og hinni nýju, og ég var að brýna hann til að taka til hendinni. Ég geri síst lítið úr ábyrgð Framsóknar, en mér fannst að verið væri að gleyma því sem er að gerast á Flateyri og það er bara ekki hægt. Hef líka fulla trú á mínu fólki í VG og þar er ekki að finna varðhunda framsalskvótakerfisins.
Anna Ólafsdóttir Björnsson, 22.5.2007 kl. 00:59