Vinstri grænn sigur - vinsamlegast ekki stela honum!

Einu raunverulegu sigurvegarar þessara kosninga eru vinstri græn. Enn eru ekki öll kurl komin til grafar hvort stjórnin heldur eða fellur, en það má greina ákveðinn vilja nú þegar til að stela þessu sigri frá VG, spekingar ræða SS stjórn og áreiðanlega ekki út í loftið, þar sem Sjálfstæðisflokkur kallar smá uppálöppun á eins verstu afhroð seinni ára ,,sigur" og Samfylkingin sitt tap ýmist sigur eða varnarsigur, og jafnvel Jón Sig hefur notað nóttina í að hagræða orðalagi sínu úr ,,munum ekki sitja áfram" í ,,munum ekki skorast undan ábyrgð". Allt var þetta vissulega fyrirsjáanlegt, en vonbrigðin eru þau sömu. 

Eitt er þó eftir í stöðunni. Falli stjórnin formlega, sem enn getur gerst, þá hefst kapphlaup flokksforingja og ég vona að einhver meining hafi verið á bak við yfirlýsingar um að ,,að sjálfsögðu sé stjórnarsamstarfs stjórnarandstöðunnar fyrsti kostur".  En við sjáum til, í augnablikini gruna ég ýmsa um græsku, vonandi að ósekju.

Ég er engan veginn farin að sofa, enda bæði með sveigjanlegar svefnvenjur og afskaplega edrú eftir æsispennandi kosninganótt á þægilegri heimaslóð. Hins vegar er tími til kominn að færa sig úr tölvunni, taka linsurnar úr augunum og leyfa útvarpinu að upplýsa mig á milli lestrarlota. Spennusaga sem hefur verið vænrækt að undanförnu verður án efa fulllesin fyrr en varir og svo má alltaf grípa í stærðfræðina, sem er furðu skemmtileg lesning.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Steinunn Helga Sigurðardóttir

vonandi fer þetta allt á besta veg, en leiðinlegt er ef ríkisstjórnin heldur áfram !

ljós til þín

steina 

Steinunn Helga Sigurðardóttir, 13.5.2007 kl. 06:52

2 identicon

Góðan daginn, Anna! Lofa að stela ekki "sigrinum" þínum og annarra vinstri grænna. En dapurleg eru úrslitin!

Sterkust er sú tilfinning að hér sé ekki lýðræðisríki: Ríkisstjórnin lafir með meirihluta þingmanna en 48,3% atkvæða (gerist það ólýðræðislegra? Hér réð meirihluti lýðsins ekki). Atkvæði 5.953 einstaklinga er hent fyrir borð (kjósendur Íslandshreyfingarinnar). Það er alkunna að kjósendum er mismunað eftir búsetu og hefur það óréttlæti fengið hið furðulega heiti "að jafna atkvæðamun"! Væri Framsóknarflokkurinn ekki örugglega dauður ef ekki væri það bundið í lög að mismuna kjósendum (og ofbjóða réttlætiskennd margra þeirra?)

Mér skilst að Jónína Bjartmarz hafi fallið út af þingi - og það ærin ástæða til að gleðjast yfir því. En sorglegt þykir mér að sjá marga sem núna eru komnir inn og aðra sem tókst að hanga á stólunum, eins og hundur sem stendur á roði. Aftur á móti þá þykir mér gleðilegt að sjá Atla Gíslason á þingi, þótt ekki sé ég kjósandi Vinstri grænna.

Þúsundir kjósenda stroka a.m.k. tvo einstaklinga út og án þess að roðna segir formaður flokks þeirra í nótt að það muni ekki hafa áhrif. Nei, fjandakornið hvers vegna ætti vilji kjósenda í alþingiskosningum að hafa áhrif á Íslandi? Er nokkur hefð fyrir því.

HG 13.5.2007 kl. 09:39

3 Smámynd: Geir Ágústsson

Ég hélt að t.d. í kapphlaupi að sigurvegarinn væri sá sem kæmi í mark á besta tímanum, en ekki sá sem bætti sig mest? Eða að í skotfimi væri það spurning um flestar leirdúfur í molum, en ekki mestu bætingu á milli keppna.

Sigurvegarinn er auðvitað Sjálfstæðisflokkurinn eins og venjulega. Hlutfallslega mesta bæting fellur hins vegar í skaut Vinstri-grænna.

HG þú ert ekki ánægður með kosningafyrirkomulagið sé ég. Ég vona að þú sért sjálfur þér samkvæmur og amist í leiðinni yfir svipaðri stöðu þegar R-listinn (er ég næstum því handviss um) hélt velli eftir kosningar á sínum tíma með undir 50% atkvæða. Ég býst samt ekki við að þú sért sjálfur þér samkvæmur.

Geir Ágústsson, 13.5.2007 kl. 10:39

4 Smámynd: Guðmundur Björn

Já, merkilegt núna að heyra stjórnarandstöðuna væla allt í einu um kosningakerfið, um leið og það er ekki að vinna fyrir hana .  Alltaf sama falska og rispaða platan í þessu liði.  

Vil minna þetta vælulið, að S hefur fleiri þingmenn í RN en D þrátt fyrir að vera meða miklu minna fylgi á þeim bæ! 

Sjálfstæðisflokkurinn stendur uppi sem sigurvegari, en það verður þó ekki tekið af VG að þeir eru sigurvegarar líka.  Samt sem áður heldur stjórnin, þrátt fyrir það að ég trúi því að S komi í stað B

Það er einfaldlega ekki hægt að ímynda sér menn eins og Jón Bjarnason, Ögmund eða Kollu Klám sem ráðherra.   

Guðmundur Björn, 13.5.2007 kl. 11:34

5 identicon

Komdu sæll, Geir! Þú gefur þér rétt, ég kaus R-listann þegar hann bauð fram í fyrsta skipti (lagði reyndar mitt af mörkum svo hann yrði til). Hvers vegna kaus ég hann? Jú, völd spilla. Það þarf að skipta um valdhafa reglulega. Það veldur mér alltaf vonbrigðum þegar meirihluti valdahafa þarf ekki atkvæði meirihluta kjósenda. Alltaf samkvæm sjálfri mér.

HG 13.5.2007 kl. 11:36

6 Smámynd: Geir Ágústsson

Valdhafaskipti hafa orðið með t.d. endurnýjun um helmings þingmanna Sjálfstæðisflokks, ekki amaleg hreinsun það!

Geir Ágústsson, 13.5.2007 kl. 11:42

7 identicon

Sæll á ný, Geir! Valdhafaskipti hafa nú ekki orðið. Það hefur orðið endurnýjun í þingliðinu. Mikill munur þar á. Hvernig er það annars, gildir ekki sama stefnuskráin fyrir þá þingmenn Sjálfstæðisflokksins sem sitja áfram og þá sem eru að koma inn núna? 

HG 13.5.2007 kl. 11:47

8 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Ég ætla nú ekki að missa mig í orðhengilshátt um sigurvegara í hlaupum, en samt langar mig að benda á að ég held að sigurvegarar séu þeir sem ná mestum árangri, það er fara úr mestri kyrrstöðu á mesta fart, en ekki þeir sem mæta með flesta hlauparana. 

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 13.5.2007 kl. 16:33

9 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Og eitt enn, mér finnst að Íslandshreyfingin hefði átt að fá sitt fólk, 2 fulltrúa, inn.

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 13.5.2007 kl. 16:35

10 Smámynd: Jóhannes Ragnarsson

Hvað sem öðru líður, þá er mesta hættan sem steðjar að núna, að Samfylkingin taki við keflinu af Framsóknarflokknum og taki að sér hækjuhlutverkið hjá Íhaldinu. Ef að það gerist, flokka ég það hiklaust undir meiriháttar svik við kjósendur Samfylkingingarinnar sem og annað vinstri- og félagshyggjufólk í landinu.

Jóhannes Ragnarsson, 13.5.2007 kl. 16:55

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband