Klúðrum ekki tækifærinu - komum Guðfríði Lilju á þing
11.5.2007 | 01:35
Það er gaman að vera Vinstri græn í Kraganum núna. Listinn sem við kjósum á laugardaginn er glæsilegur. Ögmundur er öruggur inni og enginn deilir um það að hann er mikill óskafulltrúi fyrir sjónarmið vinstri grænna. Við getum auðvitað ekki annað en unnið með hann á þingi og kannski óþarfa tilætlunarsemi að biðja um meira. En ég ætla samt að gera það, því það eina sem ég er að biðja um er að fólk hlýði innri röddinni og noti það tækifæri sem er í sjónmáli.
Sem sagt: Við eigum raunhæft tækifæri til að koma Guðfríði Lilju líka á þing, því ef við teflum þessa skák rétt þá verður hún þingkona vinstri grænna frá og með næstkomandi laugardegi. Hún og Katrín Jakobsdóttir (sem við Kragakjósendur vildum auðvitað líka eiga tækifæri til að kjósa, en látum öðrum það eftir) hafa komið inn í kosningabaráttuna sem sigurvegarar, geislandi persónuleikar með mikið fram að færa. Árangur þeirra er engin tilviljun og það sem enn betra er, þær eru aðeins hluti af okkar glæsilega hópi sem kemur nýr inn í pólitíkina um þessar mundir. Þetta er fólk á öllum aldri sem hefur verið að koma fram á sjónarsviðið að undanförnu, skriðan hefur í rauninni verið allt þetta kjörtímabil og endaði með glæsilegum árangri ungra feminista í forvalinu í vetur.
Held ég þurfi ekki að kynna Guðfríði Lilju hér í bloggheimum, hún gerir það best sjálf, en það sem mér liggur á hjarta er einfalt: Við höfum tækifæri til að fá hana í fullt starf til að vinna að hagsmunamálum okkar og við eigum endilega að nýta það! Hún er öflugur málsvari umhverfisverndar, snjöll að greina og benda á hvar pottur er brotinn í mannréttindum og órög við að gefa sig alla í baráttunni.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Allt í fína, hún er vel inni samkvæmt könnun dagsins, ég ætlaði heldur ekki að trúa því þegar ég sá eina könnun án hennar!
Anna Ólafsdóttir Björnsson, 11.5.2007 kl. 09:18