Ég trúi á líf eftir kosningar
2.5.2007 | 01:34
Spurningin er bara hvers konar líf munum við kjósa? Ekki biðja um jafnrétti, kjóstu jafnrétti, segir á frábæru barmmerki ungra vinstri grænna. Ennþá er hægt að kjósa sér líf eftir kosningar og eftir þennan 1. maí get ég ekki skilið annað en að krafa þorra fólks sé aukinn jöfnuður og að útrýma skuli fátækt hér á landi. Ekki ósanngjarnt, en staðreyndin er sú að þetta hefur ekki verið gert. Og nú er hreyfing í boði sem ekki aðeins segist muni breyta þessu, held að enginn efist um að þessi hreyfing MUNI breyta þessu, komist hún til valda. Vinstri hreyfingin - grænt framboð.
Ríkjandi stjórnarflokkar hafa mikið gert úr því hversu góð starfsskilyrði þeir hafa búið fyrirtækjum. Þessu eru stjórnendur ýmissa hugbúnaðarfyrirtækja allsendis ekki sammála! Sum telja sig þurfa að flæmast úr landi, önnur reyna að þrauka, þau hafa lagt fram vel mótaðar hugmyndir um úrbætur fyrir þessa blómlegu atvinnugrein, en það hefur ekkert gerst! Á meðan er mulið undir aðrar starfsstéttir. og það er undarleg byggðastefna að segja að það þurfi annars konar atvinnutækifæri utan Suðvesturhornsins, þungaiðnað og frumvinnslu svo sem ál og olíu, eins og fólk geti ekki stundað hugbúnaðarstörf utan þéttbýlis. Hvar er eiginlega þekking þeirra sem svo tala?
Ég trúi á líf eftir kosningar, en mig langar að það verði vit í því lífi sem við lifum þá.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Ég hef aldrei vitað um að það sé svo slæm stjórn að það komi ekki önnur verri.
En án gríns, það verður spennandi að sjá talið upp úr kjörkössunum, ég vona bara að hneykslismálin sem hafa verið að detta inn undanfarið verði ekki til þess að málefnaleg umræða bíði hnekki af.
Ester Sveinbjarnardóttir, 2.5.2007 kl. 12:44
Vonandi ferst heimurinn ekki við kosningarnar og sólin kemur upp aftur.
Fyrir ykkur vinstri græna er hins vegar ekkert bjart framundan, samfylkingin er að bregða yfir sig framsóknarslikju og herma eftir framsóknartöktum í öllu, svona eins og til að máta sig í stólana sem framsókn vermdi. sennilega komast vinstri grænir ekki til neinna valda eftir kosningar þrátt fyrir mikinn meðbyr meðal kjósenda. Hvað framsókn varðar þá er það bara staða sem kemur upp og það má leiða líkum að því að það geti bara verið gott fyrir framsókn að vera fjarri kjötkötlunum um hríð. allt vald spillir og allt það. Hver veit nema grænu flokkarnir finni hvern annan þegar þeir verða saman í stjórnarandstöðu og uppgötvi hvað tengir þá saman
Salvör Kristjana Gissurardóttir, 2.5.2007 kl. 13:38
Ég hefði gjarnan vilja sjá stjórnarflokkana taka betur til eftir sig fyrir kosningar. Það er ekki einu sinni eftirsóknarvert hlutskipti að þurfa að byrja á að þrífa upp með öllum þeim sársaukafullu aðgerðum sem það mun líklega hafa í för með sér (Fyrirgefðu Salvör mín, Ég er bara ekki nógu hress með flokkinn þinn). Ef stjórnin fer frá lendir sá skellur á stjórnarandstöðuflokkunum og það er kannski ekki neitt skemmtilegt líf eftir kosningar, en eins og Pollíanna myndi líklega segja: Fátt er svo slæmt að ekki megi bæta.
Og ég tek heilshugar undir það hversu margt sem tengist hugbúnaðarfyrirtækjum og starfskilyrðum þeirra hefur orðið útundan hjá þessum stjórnarherrum. Heyr,heyr!
Anna Ólafsdóttir (anno) 2.5.2007 kl. 14:26
Anna, þú segir: "Hvar er eiginlega þekking þeirra sem svo tala?" og vísar í stjórnmálamenn. Án alls gríns þá er þetta grundvallaratriði að mínu viti. Það skyldi þó aldrei vera að það sé kominn tími til að hætta að einblína á stefnur stjórnmálaflokkanna og fara að tína upp á yfirborðið og þar með í umræðuna, ýmislegt fleira sem máli skiptir; ýmislegt sem vegur þungt. Þ.á m. er þekking stjórnmálamanna. Það er ekkert gamanmál hvað margt óhæft fólk kemst inn á þing. Ef þekking þingmanna og vilji til að bæta við sig þekkingu er ekki fyrir hendi þá tala þeir ekki fyrir hugbúnaði og mörgum öðrum góðum starfsgreinum. Og margir sem eru á þingi núna, sem hafa setið þar og sem stefna þangað eiga þangað ekkert erindi. Þjóðin, þú og ég, eigum að laga umræðuna þannig að framagosar spyrji sig ekki: "Langar mig á þing" heldur að þeir setjist niður og hugsi alvarlega: "Bý ég yfir e-u því sem þjóðin þarf á að halda af þingmanni"? Hæft og óhæft fólk er í öllum flokkum. Bestu kveðjur,
HG 2.5.2007 kl. 22:10
Ég sé dágóðan hóp af góðum fulltrúum sem ég get vel hugsað mér að sjá á þingi, þeir eru ekki allir í sama flokki, en vissulega viðurkenni ég að flestir eru þeir úr hópi Vinstri grænna, ekki bara vegna þess að ég deili skoðunum með þeim, heldur vegna þess að við höfum verið svo lánsöm að fá fullt af mjög hæfu fólki í okkar hóp. En því miður sé ég líka fullt af fólki sem ég fæ hreinlega hroll yfir að sé á leið á þing, ekki aðeins vegna þess að ég tel vanta eitthvað upp á þekkinguna, heldur líka, og ekki síður, af því skoðanirnar sem svör þess í fjölmiðlum afhjúpa eru hreinlega hrollvekjandi. Að mörgu leyti sé ég skarpari skil og fleiri hæfa og fleiri óhæfa núna en oft áður, og þar af leiðandi meira og virkara val.
Anna Ólafsdóttir Björnsson, 2.5.2007 kl. 22:58