1. maí - rykið dustað af reiðinni
1.5.2007 | 13:47
1. maí er skrýtinn og merkilegur frídagur. Í rauninni er verið að gefa frí til að dusta rykið af reiðinni, reiði yfir misrétti í launamálum. Alla jafna er ég ekki hrifin af reiði, en sú reiði sem fylgir 1. maí er réttlát reiði yfir að við skulum enn líða það að greidd sé laun fyrir fulla vinnu sem hvergi nærri duga til framfærslu. Að við skulum enn líða launamun sem byggir ekki á öðru en kynferði. Og svo er mín einkareiði, yfir því að við skulum enn vinna lengsta vinnudag allra þjóða, alla vega í Norður Evrópu og að við skulum ekki vera búin að finna ráð til að gera vinnutíma sveigjanlegri en raun ber vitni. Þetta síðastnefnda þekki ég af eigin raun, hef bæði unnið sveigjanlegan vinnutíma eins og nú og fastnegldan (sem er auðvitað stundum nauðsynlegt, eins og t.d. í kennslu) - en ég líki því ekki saman hversu miklu meiri lífsgæði eru í því fólgin að geta tekið langt hádegi og bætt það upp með lengri viðveru, ef þannig stendur á, eða geta sofið lengur eftir langt kvöld, flest mín eru reyndar þannig ;-) og auðvitað vil ég að sem flestir njóti þess sama.
Dagurinn er reyndar oft kallaður Hátíðisdagur verkalýðsins, en enn er langt í land að við getum farið í einhverjar hátíðarstellingar og fagnað sjálfstæði, frá fátækt, fagnað fæðingu réttlátara samfélags, upprisu jafnréttis í launamálum eða farið á ærlegt djamm eins og um verslunarmannahelgina, til að halda upp á skuldbindingalaust frí. Æska landsins hefur reyndar lært að halda upp á 1. maí með próflestri og á því ekki endilega svo góðar minningar um daginn, þetta veldur því líka að við erum ekki að ala upp nýjar kynslóðir meðvitaðar um boðskap dagsins. Nei, kósínus og franskar sagnir eru miklu líklegri til að sitja eftir í minningunni um daginn fram eftir ævi en kröfugöngur og frelsandi hugsun. Ég hef valið þá leið til að finna þessum hugsjónamálum fraveg að velja Vinstri grænt og vona að við getum fagnað næsta 1. maí. Vona að sem flestir geri það, svo ekki verði hægt að ganga framhjá VG við næstu stjórnarmyndun.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:31 | Facebook