Elska landið, verra með veðrið

Fórum aðeins upp í Borgarfjörð um helgina og gat ekki hætt að dást að fegurð landsins og náttúrunnar. Hins vegar hefur ástar/haturssamband mitt við veðrið ekkert skánað, aðallega nettur fjandskapur við kulda, trekk, rok, slyddu og hálku. Mér er ekki illa við snjó ef það er ekki of mikið rok og kuldi og ég elska 25 stiga hita á Þingvöllum eða Borgarfirði, sem ég hef oft upplifað einkum í ágústbyrjun. Rok og rigning getur meira að segja verið í lagi ef hlýtt er í veðri, en því miður er ekki of mikið um slíkt. 

Nú er að vanda alveg ágætis kuldaspá fyrir ,,sumardaginn fyrsta" sem er auðvitað geggjað fyrirbæri, og ekki er síðri þjóðtrúin um að það viti á gott sumar ef sumar og vetur frjósa saman (!). Þetta er auðvitað með merkilegri markaðssetningarfrösum Íslandssögunnar. Hver fann þetta eiginlega upp?

En svo koma svona fallegir dagar eins og sunnudagurinn og út um bíl- og sumarbústaðarglugga og maður gleymir öllu. Við erum æði rík af orðum sem lýsa ekki bara veðri heldur líka samfélagsástandi, gluggaveður, grjótfok og uppáhaldið mitt: Skrifstofufárviðri, sem á við þessa örfáu virkilega góðu sumardaga sem við fáum.

Þessi hugleiðing sem hömruð inn á tölvuna í tilefni sumarkomunnar og fallega sunnudagsins sem er nýliðinn og ég vona að Ari segi ekki eins og hann sagði um árið: Vona að þetta verði snjólétt sumar, því það var einmitt árið sem Jónsmessuhretið kom og nágrannar okkar urðu veðurtepptir í tjaldi í Víkurskarði og komust ekki til byggða á sumardekkjunum, sama árið og tengdapabbi lýsti hestaferð um Kaldadal þannig að allir hefðu hallað sér fram í vindinn eins og þeir væru á mótorhjólum og enginn hefði komist af baki (nema kannski einu sinni) vegna veðurs þótt þeir þyrftu að létta af sér. Og þetta sumar tók Gunna vinkona fyrir norðan myndir af fénu sínu vaðandi snjó upp á kvið, sem betur fór voru lömbin orðin meira en mánaðargömul.

Í einhverjum annál sagði eitthvað á þessa leið: Þetta ár kom sumarið ekki. Og þegar maður les slíkt skammast maður sín auðvitað fyrir nöldrið, ég vildi ekki búa í torfbæ (þeir geta orðið furðu kaldir) eða vera háð því að rölta út til að gefa skepnum án góðra og hlýrra vetrarklæða, eins og mig grunar að formæður okkar og -feður hafi þurft að gera. En það er heldur ekki gott að gera illt verra með því að ógna því bláþráðarjafnvægi sem veðrátta heimsins er nú þegar í. Þannig að í guðanna bænum, við verðum að hætta að taka frekari sjens á veðráttunni, ef við ætlum að geta notið náttúrunnar öðru vísi en út um gluggann. Þess vegna er svo nauðsynlegt að vera hæfilega grænn og ekki of hrifinn af vondu veðri. Hvernig sem veðrið mun þróast með auknum áhrifum gróðurhúsaloftslagsins þá er eitt alla vega víst, það skánar ekki. Danirnir sem klæddust havaískyrtum og fóru í gríngöngu hér um árið og spreyjuðu úr úðabrúsum til að heimta aukinn hita með gróðurhúsaveðráttunni vour bara að djóka! og þeir vissu það.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta með að það viti á gott sumar ef vetur og sumar frýs saman hefur mér allt þótt svolítið skemmtilegt því ég velti því alltaf fyrir mér hvað verður þá um vorið sem á að vera þarna á milli. Frýs það inni, eða hvað?  Kannski á ekkert að velta því fyrir sér!

HG 16.4.2007 kl. 21:43

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband